Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:57:14 (6370)

1996-05-21 16:57:14# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að takmarka mig. Tengingarreglan getur stuðlað að launajafnrétti eða minnkandi launamun. Vinnustaðarsamningar geta gert það líka. Fyrirskipanir úr Garðastrætinu, sagði hv. þm. Ég get upplýst hv. þm. um það að ég tek ekki við fyrirskipunum hvorki af Grensásveginum né úr Garðastrætinu. Það er tómt mál að tala um það. Ég tek ekki við nokkurri ráðgjöf frá Nýja-Sjálandi heldur. Það er ekki hugmynd mín að keyra yfir verkalýðshreyfinguna. Ég þykist hafa reynt að taka tillit til hennar við þessa frumvarpsgerð. Ég sé ekki neina ástæðu til að vorkenna Dagsbrúnarmönnum þó þeim gefist kostur á að taka ákvörðun við leynilega almenna atkvæðagreiðslu.