Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 16:58:21 (6371)

1996-05-21 16:58:21# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[16:58]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja að vandi þessa máls sé að nokkru leyti sá að í grundvallaratriðum gerir hæstv. félmrh. sér ekki grein fyrir því af hverju andstaðan er svona mikil við þessi frv. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að andstaðan byggist fyrst og fremst á því að menn telja að það sé verið að hlutast til um innri mál stéttarfélaganna í landinu með aðferðum sem eru ólíðandi með öllu. Hann virðist ekki gera gera sér grein fyrir því, sem er mun verra, að það hefði verið skynsamlegra fyrir hann og fyrir ríkisstjórnina og fyrir alla aðila málsins og fyrir þjóðina að taka þessi frv. og þetta frv. út af borðinu og stuðla síðan að eðlilegum samningaviðræðum um leikreglurnar og um kaup og kjör í landinu í framhaldi af því. Það er ótrúlegt að jafnreyndur stjórnmálamaður og hæstv. félmrh. skuli ekki gera sér grein fyrir því að hann er að tefja fyrir árangri, hann er að tefja fyrir efnahagsbata, hann er að trufla eðlilega þróun í samfélaginu með þessari uppsetningu mála sem hann beitir sér fyrir. Það er nauðsynlegt líka að hafa það í huga fyrir hann að með þessum aðferðum er verið að skapa hættulegt fordæmi. Það er verið að raska pólitísku jafnvægi á Íslandi sem hefur verið til um 50 ára skeið. Ég skora á ráðherrann að gera sér grein fyrir því að hann er á rangri braut. Þetta er hættuleg braut, þetta er vond braut fyrir þjóðina og fyrir verkalýðshreyfinguna í þessu landi og fyrir kjör hins almenna launamanns. Spurningin er þessi: Er hann að fara eftir því sem kemur úr Garðastræti eða einhvers staðar annars staðar að? Ég trúi því ekki að hæstv. núv. félmrh. meini illt með því sem hann er að gera. Spurningin er þá sú: Hver er að plata Pál? Það er einhver, hæstv. forseti.