Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:00:46 (6372)

1996-05-21 17:00:46# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Mér miklu merkari stjórnmálamenn hafa nú verið plataðir. En ég sé ekki að ég sé neitt sérstaklega plataður í þessu máli. Hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, hefur hvað eftir annað á ferli sínum reynt að hafa vit fyrir mér og sagt mér hvað væri skynsamlegast. Stundum hefur það verið rétt og vel ráðið hjá honum en ekki er það nú alltaf. Honum getur missýnst eins og okkur hinum.

Ég sé ekki að það sé verið að raska hér einhverju pólitísku jafnvægi. Ef ég væri sammála hv. þm. um áhrif þessarar lagasetningar, hefði ég að sjálfsögðu aldrei farið af stað með hana. Ég geri mér grein fyrir því að það er andstaða við þetta mál, veruleg og marktæk andstaða. En ég geri mér líka grein fyrir því að það er mjög mikill stuðningur við það. Og við verðum að spyrja að leikslokum.