Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:35:40 (6390)

1996-05-21 17:35:40# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þetta með nýliðana og hina gagnlegu menn. Það var kannski gagnlegt og nytsamlegt að fá allt þing Alþýðusambandsins hingað að Alþingishúsinu þar sem hæstv. félmrh. sagði að hann vildi gjarnan hafa þá með sér en þeir væru það nú ekki og það yrði bara að hafa það. Eru þetta vinnubrögð sem menn telja líkleg til að stuðla að friði á vinnumarkaði á Íslandi? Þegar menn eru að hafa uppi alvarlegan, málefnalegan málflutning þá eru þeir kallaðir gagnlegir nýliðar. Það verður bara að hafa það þó að allt alþýðusambandsþingið komi að Alþingi Íslendinga og afhendi ríkisstjórninni mótmæli. Það verður kannski líka bara að hafa það þótt hvert einasta verkalýðsfélag í landinu og öll samtök launafólks óski eftir því og krefjist þess að ríkisstjórnin taki þetta frv. út af borðinu og setjist niður til alvarlegrar viðræðu. Það verður bara að hafa það. Mér finnst kveða við svolítið annan tón í þessum orðum hv. þm. Guðna Ágústssonar en í hans ágætu upphafsorðum í sinni ræðu.