Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:37:21 (6392)

1996-05-21 17:37:21# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er sólskin og sunnanvindur og Sörli ríður í garð. Og Sörli Framsfl. sem hefur riðið í hlað þingheims í dag er auðvitað, herra forseti, hv. þm. Guðni Ágústsson. Sörli kom hér, prjónaði og frýsaði og lét öllum gleðilátum yfir því að hann sá þrátt fyrir allt ljós í því sem stjórnarandstaðan sagði í þessum ræðustóli í dag og í gær. Hv. þm. tók undir flestu alvarlegustu hlutina í okkar gagnrýni vegna þess að hann hafði kjark og einurð í sér til þess að rísa upp og prjóna gegn ofurveldi Framsfl. og segja það skorinort að honum þyki sem hér sé flasað að verki og hann veit það eins og aðrir góðir Sunnlendingar að flas er ekki til fagnaðar.

Hv. þm. lýsti því skorinort yfir að hann teldi að hæstv. félmrh. hefði í óðagoti sínu framið vondan gerning vegna þess að hann upplýsti það hér að innan vébanda þingflokks framsóknarmanna hefði hv. þm. Guðni Ágústsson fundið að vinnubrögðum hæstv. félmrh. Ég spyr, herra forseti: Eru það ekki nokkur tíðindi þegar merkisberi andstöðunnar innan Framsfl. hefur uppi slíkan málflutning innan þingflokks framsóknarmanna? Það hlýtur að skipta miklu máli. Það sýnir hins vegar eins og fyrr að hv. þm. Guðni Ágústsson er merkisberi hinnar sönnu arfleifðar Framsfl. Það er hann sem minnist þess að einu sinni var í landinu stjórn hinna vinnandi stétta sem ríkti frá árinu 1934--1937, en ef ég man rétt, þá var það einmitt það ár sem hæstv. félmrh. var í þennan heim borinn þannig að saga félmrh. og samstarfs Framsfl. og verkalýðshreyfingarinnar er nokkuð samofin þó að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi að vísu hvergi að því verki komið.

Herra forseti. Mál hv. þm. Guðna Ágústssonar speglar í hnotskurn hinn innri ágreining Framsfl. og þau sár sem Framsfl. hlýtur óneitanlega að bera núna í hjartastað. Framsfl. gleymir ekki svo auðveldlega sinni glæstu sögu og hæstv. félmrh. gleymir því heldur ekki að árum saman var það hann sem reisti flagg andstöðunnar, reisti flagg félagshyggjunnar innan Framsfl. Oft og tíðum kostaði hann nokkru til þess því að árum saman var hann á jaðri Framsfl. vegna þess að sökum skoðana sinna þótti hann lengi vel ekki tækur til stórra og mikilla verka. Og eins og menn e.t.v. muna, þá er það hæstv. félmrh. sem einmitt tókst á við hv. framsögumann meiri hlutans í þessu máli, Siv Friðleifsdóttur, um það hvort þeirra ætti að verða ráðherra Framsfl. Mörgum þótti vel til fundið að láta hina vösku hv. þingkonu, Siv Friðleifsdóttur, bíða svolitla stund en ég hygg að fáir séu þeirrar skoðunar sem sjá verkin núna vegna þess að á dauða sínum áttu margir von en enginn held ég að hafi átt von á því að það yrði hæstv. félmrh., Páll Pétursson, sá sem alltaf fór fyrir vinstri arminum innan Framsfl. sem yrði til þess að fara með þessum hætti í verkalýðshreyfinguna og bókstaflega beita sér fyrir því að það yrði valsað inn í gangverk hennar með lagasetningu. Ég hygg að það hafi einmitt verið maður á borð við hæstv. félmrh. sem oftsinnis á undangengnum árum og áratugum hefur einmitt gengið í þennan ræðustól og trampað niður fæti svo stundum hefur minnt á sterkbyggðan fíl í myrkviðum Afríku til varnar einmitt hagsmunum verkalýðshreyfingar og vinnandi fólks í þessu landi.

Hv. þm. og virðulegi forseti, Guðni Ágústsson, kom og fann að við hæstv. félmrh. Hann rifjaði eilítið upp kosningaloforð Framsfl. og sagði að það sem skipti máli væri það að vinnandi fólk í landinu bæri réttlátan hlut frá borði. Og hann sagði: ,,Það sem við þurfum að gera er að taka höndum saman um að auka hlut vinnandi manna Íslandi og bægja frá þeim voða húsnæðisskuldanna`` og ýmislegt fleira sagði hann. Þetta var ekki vel til fundið hjá þeim annars glöggskyggna hv. þm. Guðna Ágústssyni. Ég veit það vel að hann hefur margsinnis í þessum sölum farið geyst og mælt fyrir því að undinn yrði bráður bugur að því að greiða úr vanda þeirra sem eiga í erfiðleikum vegna húsnæðisskulda. Það vildi svo til að lengi vel töldu menn að hann ætti hauk í horni þar sem er hæstv. félmrh. sem fer einmitt með þau mál. En við sjáum það eins og svo margt annað, herra forseti, að ekkert var gert í því. Öll loforð Framsfl. um húsnæðismál, um að frysta skuldir, um að jafnvel lækka skuldir, lækka vexti, þau hafa öll gufað upp og frv. sem hæstv. núv. félmrh. bar fram með flokki vaskra stjórnarandstöðuþingmanna úr Framsfl. á síðasta kjörtímabili hefur gufað upp líka eins og svo margt sem hefur gufað upp hjá hæstv. félmrh. Og þá þýðir ekkert fyrir hv. þm. Guðna Ágústsson að koma og troða marvaðann vegna þess að hann er að sökkva, vegna þess að lóðið sem hangir í fótum hans er auðvitað hæstv. félmrh. og öll brostnu kosningaloforðin. Þau draga hann með sér niður í djúpið, illu heilli. Það skiptir engu máli hversu oft við reynum að koma hv. þm. til hjálpar. Við megnum það ekki vegna þess að hann hefur kosið sér þetta helsi sjálfur og brugðið því um fætur sér.

En lengi er von á einum, herra forseti. Ég hygg að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi gefið afskaplega mikilvæga yfirlýsingu sem ég er viss um að þessi umræða hlýtur að verulegu marki að snúast um. Hann hefur í fyrsta lagi upplýst það að innan þingflokks Framsfl. komu menn og gerðu athugasemdir við frv. hæstv. félmrh. Það kom fram í máli hv. þm. Hann sagði jafnframt að það væri hans skoðun að það væri betra að reyna að ná sáttum í verkalýðshreyfingunni og láta þetta frv. bíða af sumarið og reyna að ná sáttum við forustu verkalýðshreyfingainnar. Ég var honum hjartanlega sammála.

En það er meira sem í þessum orðum hv. þm. býr. Hann er maður sem flíkar ekki auðveldlega viðkvæmum viðhorfum og skoðunum sem þessum, en hann hefur eigi að síður kosið að bera þetta fyrir þingheim. Hvað þýðir það, herra forseti? Það getur ekki þýtt annað en að hv. þm. muni fylgja sinni sannfæringu í þingsölum og hann muni leggjast á sveif með stjórnarandstöðunni þegar til atkvæðagreiðslu kemur og láta þetta mál bíða. Annað getur hv. þm. tæpast gert eftir að hann hefur upplýst að það er sannfæring hans að það eigi að láta málið bíða. Við vitum að þessi hv. þm. hefur oft í þessum ræðustóli bent þingmönnum yngri og óreyndari honum sjálfum á að það er skylda þeirra samkvæmt stjórnarskrá að fylgja sannfæringu sinni. Og nú veit ég, herra forseti, að hv. þm. Guðni Ágústsson mun fylgja sinni sannfæringu og leggjast á sveif með þeim sem vilja að hæstv. félmrh. fari sér eilítið hægar.

Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. hefur þegar haldið ýmsar ræður og margar þeirra hafa verið að mörgu leyti merkar. Ég vil segja það strax, herra forseti, að ég tel ekki hægt af grundvallarástæðum að fylgja þessu frv. og það gildir þá einu hvað mönnum finnst um þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Ég tel að frv. eins og það liggur fyrir feli í sér brot á þeirri grundvallarreglu sem ég og minn flokkur og þeir sem fylgja svipaðri sannfæringu geta aldrei annað en fylgt, þ.e. við getum ekki fallist á að að sé hlutast til um innri mál verkalýðsfélaga eins og gert er í frv. Og ég vil segja, herra forseti, að það er einungis í algerum undantekningartilvikum sem slíkt væri hægt að fallast á, þó að það sé hægt að hugsa sér vissar aðstæður þar sem ekki er hægt annað en gera það.

Ég vil líka segja, herra forseti, að ég hef farið yfir þetta frv. mjög grannt og það var algerlega út í hött finnst mér eins og það kom fyrir fyrst. Nú hefur það verið lengi að velkjast í umræðunni í þinginu og auðvitað gerist það jafnan að hér vegast menn á með skoðunum og röksemdum. Og það hefur aldrei gerst eða mjög sjaldan tel ég að þegar frumvörp koma sem stjórnarandstaðan með rökum telur að séu afskaplega vond, þá sé ekki að einhverju leyti tekið tillit til þess.

[17:45]

Það er mín skoðun að obbi þeirra breytingartillagna sem koma fram á þskj. 955 séu til bóta. Ég tel að langflestar breytingartillögurnar séu til mikilla bóta. Ég tel raunar að niðurstaða þessa máls eins og það liggur fyrir af hendi hv. félmn. sýni að sameinuð verkalýðshreyfing og sameinuð stjórnarandstaða fær ýmsu áorkað vegna þess að ég tel að þó að ekki sé með nokkru móti hægt að fallast á frv., jafnvel að samþykktum þessum breytingartillögum, vegna þess að það grípur inn í þetta grundvallarprinsipp, það breytir innri gangi stéttarfélaga, þá tel ég eigi að síður að þessar tillögur séu til bóta. Það sem gerst hefur þegar maður lítur yfir þetta svið, þá er það aðallega þrennt sem verkalýðsfélögin mæltu í gegn í upphafi þessarar lotu. Það var í fyrsta lagi að þau voru algerlega ósammála því að í 1. gr. frv. var gert ráð fyrir því að það væri mögulegt að vissum skilyrðum uppfylltum að stofna stéttarfélög á vinnustað. Nú er það svo, herra forseti, að þetta ákvæði fellur brott eins og það kom fyrir af skepnunni.

Í öðru lagi var líka gert ráð fyrir því, herra forseti, að þarna væru inni tengingarreglur þegar kom að afgreiðslu málamiðlunartillögu frá ríkissáttasemjara sem voru með þeim hætti að verkalýðshreyfingin og stjórnarandstaðan töldu að það væri ekki hægt að fallast á slíka reglu. Það er líka farið út, herra forseti.

Í þriðja lagi. Það sem skiptir líka mjög miklu málli er að svokallaðir atkvæðaþröskuldar sem var að finna í frv., hafa verið samræmdir og þeir hafa verið lækkaðir og mjög til bóta tel ég. En ég ítreka það eigi að síður og mun fara betur í þetta síðar í mínu máli, ég ítreka það að eftir stendur að frv. hlutast mjög grimmúðlega til um innri mál stéttarfélaga. Mér sýnist og vildi gjarnan heyra frá hæstv. félmrh. hvort sú skoðun er röng að eftir að frv. hefur verið samþykkt, þá þurfi velflest ef ekki allur obbi verkalýðsfélaga á Íslandi að breyta sínum samþykktum, lögum og reglum. Ég tel það í sjálfu sér vera afskaplega slæmt mál.

Herra forseti. Ég segi það líka að ég hef ýmsar sérskoðanir á þessum málum sem eru kannski ekki allra í mínum flokki, en ég er þeirrar skoðunar, ég nefndi það áðan, að við vissar aðstæður væri e.t.v. ekki hægt að leysa málið öðruvísi en hlutast til með einhvers konar inngripum framkvæmdarvaldsins í formi löggjafar. Ég er þeirrar skoðunar t.d. að það sé nauðsynlegt í framtíðinni að búa svo um hnúta að það sé ekki hægt fyrir einstaka, litla, mjög valdamikla hópa innan verkalýðshreyfingarinnar að koma eftir að heildarsamningum er lokið og bókstaflega talað klifra upp eftir bakinu á láglaunafólkinu og krefjast hærri launa í krafti þess að þau búa við aðstöðu sem gefur þeim mikinn slagkraft, mikið afl. Ég tel að það sé ekki hægt. Ég spurði við 1. umr. þessa máls hæstv. félmrh. hvernig hann teldi að frv. eins og það lá fyrir þá tæki á þessu máli. Hæstv. ráðherra gerði að vísu tilraun til þess að svara þessu. Hann vísaði til tengingarreglu o.s.frv., en þegar ég skoðaði hið upphaflega frv., þá var ég þeirrar skoðunar að það tæki ekki á þessu máli. Og enn er þetta vandamál sem ég tel vera eitt af verstu vandamálunum sem menn eiga við að glíma í samskiptum aðila vinnumarkaðarins.

Nú vil ég taka það alveg skýrt fram, herra forseti, að ég tel nauðsynlegt að þegar menn reyna að leysa mál af þessu tagi, þá verði þeir fyrst að reyna til þrautar að ná sáttum og málamiðlunum milli aðila vinnumarkaðarins í máli sem þessu. En ef það gengur ekki, þá hlýtur að koma að því einhvern tíma að löggjafinn yrði að grípa inn í við tilvik eins og þessi sem ég hef hérna lýst. Ég tek það fram að það er þetta sem ég átti við í upphafi ræðu minnar þegar ég taldi að það væri mögulegt við vissar aðstæður að löggjafinn gripi inn í mál. En þetta er undantekningin á þeirri reglu sem ég ella fylgi. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé mest um vert að aðilar vinnumarkaðarins sjálfir komi sér saman um þessar samskiptareglur. Þarna er ég, herra forseti, að gagnrýna mjög harkalega óðagotið hjá hæstv. félmrh. Við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að hæstv. félmrh. hefur einungis setið í örfáa mánuði. Nú er það að vísu svo að um dvöl sína í ráðherrastóli hefur hæstv. félmrh. í senn hótað þingheimi og lofað. Hann hefur hótað því að hann ætli að sitja í þrjú ár, en hann hefur nánast lofað að hætta eftir það. Hvað sem því líður, herra forseti, á hann samt sem áður eftir a.m.k. þrjú ár samkvæmt hótun sinni. Hann á eftir þrjú ár. Það voru ekki liðnir nema nokkrir mánuðir --- hæstv. félmrh. leiðréttir mig þá ef ég fer með rangt mál --- en ég hygg að það hafi ekki verið nema fimm eða sex mánuðir liðnir af veru hans í ráðherrastóli þegar hann tók málið úr höndum samskiptanefndarinnar og lagði fram fullburða frv. Það, herra forseti, er ekki hægt að fallast á og alls ekki með þeim rökum sem hæstv. félmrh. flutti, sem sagt þeim að reynt væri til þrautar. Það kann vel að vera bæði kostur og löstur hæstv. félmrh. að hann vill að verkin gangi hratt fyrir sig. En eigi að síður er um að ræða svo viðkvæm mál að hæstv. ráðherra bar mórölsk skylda, sökum þess merka hlutverks sem hann gegnir í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, að láta á það reyna til þrautar. Ég tek ekkert mark á því þó að hæstv. ráðherra komi og segi: ,,Það var búið að ræða málið á 48 fundum``, vegna þess að í áfangaskýrslunni sem skilað var og mig minnir að hafi verið dagsett 22. nóvember, eru talin upp þau atriði sem búið var að ræða. Sum var vissulega búið að ræða ... (Félmrh.: Upp í 35. nærri því.) Já, sum var vissulega búið að ræða kannski út í hörgul og það var komið að þeim tímapunkti að það var kannski hægt að afgreiða þau. En í þeirri skýrslu sem er eina skýrslan sem ég hef a.m.k. lesið eða séð úrdrátt úr, kom líka fram að ýmis mál og það eru líklegast umdeildustu málin sem hérna eru til umræðu, m.a. boðun verkfalls og hvernig á að borða verkfall, atkvæðaþröskuldur o.fl., höfðu ekki verið rædd. Það hafði verið reifað. Það hefur verið bent á að þau þyrfti að ræða millum aðila vinnumarkaðarins, en það var engin ítarleg umræða og það var fjarri því að það væri komin nokkur niðurstaða. Þetta, herra forseti, tel ég að sé ólíkt verklagi hæstv. félmrh. Ég skil ekki hvað knúði hann til þess sér í lagi þegar maður horfir til þess að hann gaf sjálfur kosningaloforð sem ég hef aldrei áður lesið upp fyrir hann. Mér er sannkallaður sómi að því að rifja það upp fyrir honum. Þegar hæstv. félmrh. var bara óbreyttur hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þá sat hann fund miðstjórnar Framsfl. 24.--27. nóv. árið 1994 og þar var samþykkt sú stefna sem til grundvallar skyldi lögð í kosningabaráttu flokksins og þar var tekið á vinnumarkaðsmálum. Það var engin spurning um það að Framsfl. hafði mótaða stefnu um það hvað ætti að gera og sú stefna var af tveimur ástæðum hrósverð.

Í fyrsta lagi sagði Framsfl. að það ætti að fara í það að skoða ekki bara hverja einustu lagasetningu, heldur hverja einustu reglugerð sem tengdist vinnumarkaðnum og það er jákvætt. En í öðru lagi lofaði líka flokkurinn því að það yrði gert í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins. En hvað blasir við, herra forseti? Það blasir við að við höfum hér frv. sem í upphafi var skreðarasaumað fyrir Vinnuveitendasamband Íslands, sem hvert einasta verkalýðsfélag í gervöllu landinu var á móti. Það er með engu móti hægt að segja að þetta sé í samræmi við stefnu Framsfl. sem sagði það skýrt og skorinort og gaf það út í fjölrituðu plaggi að það skyldi haft samráð við aðila vinnumarkaðarins um hverja einustu breytingu, reglugerð eða lög. Það átti að ræða málið við aðila vinnumarkaðarins.

Hvað er samráð, herra forseti? Það getur vel verið að hæstv. félmrh. hafi einhvern fílósófískan skilning á því hvað er samráð. En samráð að mínu viti er það þegar aðilar ræða mál, leggja fram rök og gagnrök, takast á, ræða málið og ná síðan sameiginlegri niðurstöðu þar sem báðir aðilar slaka á og úr því verður málamiðlun. Það er eðli samráðs. Það er samráðið sem hinir ágætu flokksmenn Framsfl. höfðu í huga sér þegar þeir vestur á Hótel Sögu samþykktu það að sá sem e.t.v. mundi gegna embætti félmrh. í ríkisstjórn fyrir Framsfl. ætti að hafa samráð af þessum toga við aðila vinnumarkaðarins.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur vísað því á bug að frv. sem hér liggur fyrir sé skreðarasaumað fyrir Vinnuveitendasamband Íslands og það er alveg hárrétt hjá honum eins og staðan er í dag. En þegar hann lagði frv. fyrir þingið, þá var það auðvitað þannig að forustumenn Vinnuveitendasambands Íslands réðu sér ekki fyrir fögnuði. Þeir voru þeirrar skoðunar að þetta væri afskaplega gott frv. En einmitt vegna skeleggrar andstöðu verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar, þá er í þremur greinum búið að deyfa svo höggkraft frv. að Vinnuveitendasambandið er eðlilega ekki líkt því eins ánægt með frv. og það var áður þannig að að því leyti til hefur hæstv. félmrh. rétt fyrir sér. Frv. er ekki lengur bókstaflega skreðarasaumað fyrir Vinnuveitendasambandið, en það var það þegar það var lagt fram.

Mér þótti hæstv. félmrh. flytja skynsamlega tölu þegar hann á föstudag eða laugardaginn var að ræða um lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég er honum alveg sammála um það að lýðræðinu innan verkalýðshreyfingarinnar er áfátt. Sums staðar er því verulega áfátt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að sú deyfð sem sums staðar er áberandi einkenni verkalýðshreyfingarinnar stafi af því að það er ákveðinn skortur á lýðræði innan hennar. Hæstv. fémrh. kastaði upp boltanum og sagði: ,,Lítið á Dagsbrún.`` Hann benti réttilega á það að innan Dagsbrúnar hafa orðið átök. Þar er staðan þannig að annar listinn, sem hafði að vísu ágætan meiri hluta, er með alla fulltrúa í stjórn og trúnaðarmannaráði. En minni hluti sem hafði þó verulegt fylgi innan félagsins er nánast áhrifalaus á stjórn þess. Ég er hæstv. félmrh. algerlega sammála um að þetta er ótækt fyrirkomulag. Ég tel að ef þarna væri hlutfallskosning, þá væru menn með fulltrúa andstæðra sjónarmiða sem vægjust á innan stjórnar og innan trúnaðarmannaráðs. Það mundi gera að verkum að samkeppni og barátta hugmyndanna vekti miklu meira líf innan félagsins, gerði menn miklu meðvitaðri fyrir kröfur þess á hverjum tíma og mundi að öllu leyti styrkja undirstöður viðkomandi verkalýðsfélags. Dagsbrún rær ekki ein á báti í þessum efnum. Fjölmörg verkalýðsfélög önnur eru seld undir sömu sök. En ég held að mig greini á við hæstv. félmrh. um það að mér dettur ekki í hug að fara fram með frv. og leggja til að Alþingi hlutist til um það hvernig félagar okkar í Dagsbrún haga kosningum til stjórnar og trúnaðarmannaráðs. Það kemur mér ekki til hugar (PP: Mér ekki heldur.) vegna þess að það brýtur í bága við grundvallarsannfæringu mína um það hvernig verkalýðsfélög eiga að starfa. Þau eiga að fá að starfa óhlult fyrir misvitrum mönnum sem kunna þá og þá stundina að sitja á stóli ráðherra.

[18:00]

En ég segi hins vegar: Þarna er hæstv. félmrh. á réttu róli í hugsun sinni, á sama róli og félagi Lev Trotskíj og á á sama róli og sá sem hér stendur. Að þessu leyti virðist sem við allir þrír séum þessarar skoðunar. Ég veit ekki um afstöðu Trotskíjs til lagasetningar um verkalýðsfélög, en það er bersýnilegt að hæstv. félmrh., þótt hann hafi í frammíkalli sagt að honum kæmi ekki til hugar að hlutast til um innri mál Dagsbrúnar, er samt að gera það með því frv. sem hér liggur fyrir. Ég er þeirrar skoðunar nema hann sýni mér fram á annað. Ég held að þegar frv. er samþykkt illu heilli eftir umræðuna hér, þurfi jafnvel Dagsbrún að hlutast til um að lögum félagsins verði breytt.

Hæstv. félmrh. ræddi líka í nokkru máli nauðsyn þess að jafna atkvæðisrétt innan verkalýðsfélaganna, einmitt í umræðu sinni um Dagsbrún. Mér hló hugur í brjósti þegar ég heyrði þennan framsýna hæstv. ráðherra segja þetta vegna þess að hæstv. félmrh. hefur af öðru tilefni aftur og aftur lagst gegn því að menn reyndu að vinda sér í það að jafna atkvæðisrétt í landinu. Það vill svo til að hæstv. félmrh. er kosinn þingmaður með miklu færri atkvæðum en t.d. hv. þm. Kristján Pálsson. Nú er ég ekki að segja að hv. þm. Kristján Pálsson sé honum þyngri enda sér það hver maður að það er ekki rétt. Eigi að síður vildi ég gjarnan að hæstv. félmrh. hefði það sem heitir á ensku ,,lateral thinking`` og hann hugsaði svolítið út frá því sem hann er að segja. Telji hann nauðsynlegt að jafna atkvæðisréttinn innan verkalýðshreyfingarinnar og auka lýðræðið þar, hvað með að gera það þá á landsvísu líka, hæstv. félmrh.? (Félmrh.: Ég hef borið fram tillögu þar um.) Ég hygg að hæstv. félmrh. ætti þegar stund gefst milli stríða að ráðfæra sig við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um það hvort það kynni að vera gert í nánustu framtíð. Ég get lofað honum því að það verður ekki gert af Alþfl. á þessu kjörtímabili vegna þess að Alþfl. hefur þegar gert það. Sú tillaga hefur því miður ekki komist til atkvæða.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur aftur og aftur, og gerði það í fyrrnefndri ræðu sem ég er að vitna í þegar hann var að tala um nauðsyn þess að jafna atkvæðisréttinn, talað um nauðsyn þess að flytja vald frá forustumönnum verkalýðsfélaganna til hins almenna félagsmanns. Þótt hæstv. félmrh. sé með skynugri mönnum í Framsfl., hefur honum samt sem áður tekist að glepja sjálfan sig svo svakalega að hann bersýnilega trúir því þegar hann kemur hingað aftur og aftur í þennan stól og heldur því fram með barnslegri einlægni að frv. hans flytji vald frá forustumönnum verkalýðsfélaganna til hinna einstöku félaga. Ég er honum algerlega ósammála, herra forseti. Og það sem meira er, það eru fleiri en ég sem sjá allt annað frv. liggja frammi fyrir sér en hæstv. félmrh. Hverjir skyldu vera þeir sem hægt er að segja að séu hlutlausir? Ég skil það vel að hæstv. félmrh. og jafnvel hinn skynugi herra forseti mundu komast að þeirri niðurstöðu að ég er ekki hlutlaus aðili. Ég er partur af stjórnarandstöðunni og það hefur komið skýrt fram að hún er afskaplega mikið á móti þessu frv. En það eru ýmsir umsagnaraðilar, jafnvel þeir sem hv. félmn. leitaði til, sem er hægt að segja að séu hlutlausir. Og hvað segir t.d. Þjóðhagsstofnun, hlutlaus aðili, um miðstýringuna og hið aukna frelsi sem felst í frv. sem hæstv. félmrh. telur eins konar flutningsfrv. vegna þess að það flytji valdið frá forustu verkalýðsfélaganna til hinna einstöku félagsmanna? Með leyfi forseta, segir Þjóðhagsstofnun:

,,Með frv. er miðstýrð kjarasamningagerð fest í sessi.`` Herra forseti. Mér sýnist einboðið samkvæmt þessu að Þjóðhagsstofnun er ekki þeirrar skoðunar að það sé hér að veruleyti verið að flytja vald frá forustunni til hinna einstöku félagsmanna.

Herra forseti. Þetta frv. kemur fram við sérstakar aðstæður og þessar aðstæður hafa auðvitað vakið angur, gremju og reiði stéttarfélaganna. Veltum því aðeins fyrir okkur hvernig þessar aðstæður eru og hvernig ótímabær orð hæstv. félmrh. hafa fremur verkað sem eldsneyti á eldinn en sem olía á öldu. Í fyrsta lagi hafa komið fram slag í slag fjölmörg frumvörp sem öll virðast brennd því marki að þau eiga að skerða rétt launamanna. Ég nefni t.d. frv. sem kom fram og var sett fram í miklu óðagoti af hæstv. samgrh. um að gera hlutafélag úr Pósti og síma. Nú var það sennilega enginn þingmaður sem flutti jafnhnitmiðuð rök fyrir því hvers vegna það væri stundum skynsamlegt að gera hlutafélag úr ríkisfyrirtækjum eins og sá sem hér stendur. En ég lýsti algerri andstöðu minni við það frv. vegna þess að réttindaákvæðin væru gersamlega út úr kú. Þar var frv. svo illa úr garði gert að það braut algerlega í bága við nýfallinn dóm sem fallinn var, að vísu í undirrétti, um biðlaunarétt starfsmanna hins opinbera. Eigi að síður kom þetta frv. fram. Það er væntanlega búið að gerbreyta því vegna þess að í hita umræðunnar kom það fram frá hæstv. samgrh. að líkast til væri það rétt að frv. væri ekki í samræmi við fallinn dóm, hinn svokallaða SR-dóm. Síðan kom fram frv. sem við eyddum fleiri tugum klukkustunda í að ræða, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það var auðvitað engum blöðum um það að fletta að þar var verið að ganga á áunnin réttindi opinberra starfsmanna. Það sem vakti eftirtekt við umfjöllun þess frv. var að hvorki sást tangur né tetur, haus né sporður af Framsfl. vegna þess að þá voru allir þingmenn Framsfl. í gervi Sörla, þá voru þeir allir með heiðríkju hugans yfir sér og skömmuðust sín fyrir aðild að frv. Hv. þm. Guðni Ágústsson hafði þá ekki sannfæringu og kjark til þess að koma og lýsa yfir skoðunum sínu á því frv., enda má kannski segja að honum rann blóðið fremur til skyldunnar þegar hér var komið fram frv. sem runnið var undan rifjum hans eigin flokks

En þar var frv. sem var sannarlega slæmt. Ég nefni líka frv. sem var deytt í fæðingu, að menn a.m.k. vona, um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Þar átti bókstaflega að skerða lífeyrisréttindin með íhlutun löggjafans. Og það eru fleiri frumvörp sem hægt er að nefna. Ég nefni t.d. frv. um réttindi og skyldur skólastjórnenda og kennara þar sem í greinargerðinni sjálfri voru bókstaflega tekin aftur loforð sem kennurum höfðu verið gefin. Það þurfti hæstv. forsrh. til þess að taka í afturendann á hæstv. fjmrh. og kippa honum niður úr þeim loftfimleikum sem hann var kominn í þá. Hann var á góðri leið með að spólera þeim ágætu samningum sem lutu að flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna. Þetta er umhverfið sem þetta frv. kemur fram í og það er ekki nema von, herra forseti, að í hópi fulltrúa á alþýðusambandsþinginu gangi það undir heitinu stéttarfélög og vinnudellur því að frv. er della. Þarna er ég búinn að telja upp fimm frumvörp sem öll virðast miða að því að þrengja með einhverjum hætti að rétti hins vinnandi manns. Þetta vekur mótblástur, andstöðu og reiði sérhvers þeirra sem er virtur í hópi verkalýðshreyfingarinnar. En það vekur angur í hjarta þeirra líka vegna þess að sá sem er flytjandinn í þessu tilviki er maður sem jafnan var litið á sem hauk í horni. Hæstv. félmrh. hefur unnið sér það ágæta orð um árabil að vera einn af þeim sem hefur borið hag verkalýðshreyfingarinnar og hins vinnandi manns fyrir brjósti. Þegar ég sé hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ganga snöfurmannlega eins og hann á vanda til í salinn, minnist ég þess að þegar hann saumaði að hæstv. félmrh. við 1. umr. málsins og spurði hvaða nauður það væri sem ræki hæstv. félmrh. til þess að leggja fram frv. Þá svaraði hæstv. ráðherra því til að frv. væri orðið svo gamalt, það væri síðan 1938. Hv. þm. benti þá á þá staðreynd að hæstv. félmrh. er árinu eldri og hefur frekar batnað með árunum alveg fram undir hið síðasta. Þannig að aldur er í sjálfu sér engin rök.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er ekki hægt að halda því lengur fram að þetta frv. sé algerlega skreðarasaumað fyrir VSÍ vegna þess að í meðferð þingsins hefur það rýrnað í roðinu. Það er ekki hægt að segja hið sama um hæstv. félmrh. eins og hver maður sér sem rennir augunum yfir ráðherrabekkina, a.m.k. ekki í efnislegum skilningi. En í andlegum og pólitískum og tilfinningalegum skilningi hefur hæstv. félmrh. auðvitað rýrnað allverulega í augum þeirra sem árum saman litu á hann sem stuðningsmann sinn og bandamann vegna þess að hann er auðvitað genginn í björg.

Ég sagði áðan að þetta frv., herra forseti, væri sett fram við sérstakar aðstæður og það var einungis við þá björtu sýn sem bar fyrir augu mín þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon brokkaði í salinn að ég fór aðeins í smálautarferð. En ég hef skýrt hvernig þetta frv. er í hópi fimm frumvarpa sem öll miða að því að þrengja hag og kjör verkalýðshreyfingarinnar. En það er annað sem líka skiptir máli þegar menn eru að ræða um forsendur frv. og aðstæðurnar sem það er lagt fram við. Við búum við góðæri. Þjóðhagsstofnun hefur tímasett það að góðærið fæddist í nóvember 1994 og af kurteisi og tillitssemi við hæstv. félmrh. ætla ég ekki að rifja upp fyrir honum hverjir voru í ríkisstjórn þá, enda sé ég að hann er farinn að geispa.

Við þessar aðstæður, herra forseti, sjáum við á hverjum einasta degi að íslensk stórfyrirtæki eru að velta fram ársreikningum sínum og hvert einasta fyrirtæki sýnir aukinn hagnað, meiri gróða. Og það er við þessar aðstæður sem eðlilegt væri að vinnandi fólk í landinu, sem hefur í gegnum þjóðarsátt, sem hefur í gegnum ábyrga þátttöku sína á landsstjórninni lagt sitt af mörkum til þess að ná niður verðbólgu og skapa þetta góðæri, gæti gert réttmætar kröfur um að fá nú í sinn skerf einhvern hluta af þessu góðæri. En það er þá sem hæstv. félmrh. leggur fram þetta frv. Ég hef áður misst það út úr mér, herra forseti, að þó hæstv. félmrh. sé hægur til máls talar hann eigi að síður hraðar en hann hugsar. Stundum hefur hann misst út úr sér sínar innstu hugsanir og það gerði hann einmitt við 1. umr. þessa máls. Í þeirri setningu sem þá skaust út úr munnvikjum hæstv. félmrh. er fólginn lykillinn að nauðsyn þess að þetta frv. er komið fram og nauðsyn þess að ríkisstjórnin og Vinnuveitendasambandið telja brýnt að það verði samþykkt. Hæstv. félmrh. sagði þá:

,,Það eru kjarasamningar í lok þessa árs og það verður að vera búið að samþykkja þetta áður.``

Það var það sem hæstv. félmrh. sagði við 1. umr. og þá var frv. auðvitað í miklu verri búningi en það er núna. Þá var frv. í þannig búningi að það hefði ekki verið nokkur vegur fyrir verkalýðsfélögin að fella miðlunartillögu. Og þegar menn horfa framan í þann blákalda veruleika að núverandi ríkissáttasemjari hefur lagt fram ekki eina og ekki þrjár heldur fjórar miðlunartillögur sem allar hafa verið felldar, þá erum við ekki bara að tala um hugsanlega kjararýrnun, þá erum við að tala um krónur og aura í vösum launafólks. Ef þetta frv. hefði verið samþykkt eins og það var upphaflega hefði það bókstaflega haft í för með sér beinharða kjaraskerðingu. Það hefði gert það að verkum að það hefði ekki verið hægt að fella miðlunartillögur og miðað við þann feril sem núv. ríkissáttasemjari hefur, hefði mátt búast við miðlunartillögum sem hefðu mætt mikilli andstöðu verkalýðshreyfingarinnar og verið samþykktar engum til gleði nema Vinnuveitendasambandinu. En góðu heilli er alla vega búið að breyta þröskuldunum í þessu.

Hæstv. félmrh. hefur sennilega af nokkru fljótræði gripið upp þá stefnu og áætlanir forustu Alþýðusambandsins að á næstu fimm árum gætu menn ef vilji væri fyrir hendi hjá forustu verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar náð sáttum um að stórbæta kjör, nota góðærið á Íslandi og stórbæta kjör landsmanna, hækka kjörin upp í það sem gerist einmitt á Norðurlöndunum. Og ASÍ sagði: Þetta getum við gert með því að auka vinnustaðarsamninga og fjölga vinnustaðarsamningum. Þá kemur fram brtt. frá hæstv. félmrh. sem einmitt lýtur að vinnustaðarsamningum. Þegar menn gagnrýna allar breytingartillögurnar og frv. í heild segir hæstv. félmrh. til stuðnings frv.: ,,Það er þá a.m.k. verið að skapa lagastoð fyrir vinnustaðarsamningana.`` Þá spyr ég, hæstv. félmrh.: Er það svo að skortur á lagastoð fyrir vinnustaðarsamningum hafi komið í veg fyrir að þeir hafi verið gerðir á fjölmörgum stærri vinnustaða síðustu ár? Svarið er að sjálfsögðu nei. Það hafa verið gerðir vinnustaðarsamningar á Grundartanga, í álverinu og vafalítið víðar öllum til hagsbóta og það er ekkert sem segir að það sé nauðsynlegt að bæta einhverri stoð inn í lögin til þess að það sé hægt að efla vinnustaðarsamninga. Ég er hæstv. félmrh. sammála um að þeir eru tæki sem nauðsynlegt er að efla eins og hægt er. Ég tel að þeir gætu, sérstaklega á tímum góðæris, auðeldað starfsmönnum og þá einkum hjá stórfyrirtækjum að ná til sín auknum hluta góðærisins.

[18:15]

Ég óttast að hæstv. félmrh. hafi í óðagoti sínu eiginlega reist þröskulda gegn því að menn geti í auknum mæli farið í vinnustaðarsamninga vegna þess að sá háttur sem hafður er á atkvæðagreiðslu þar gerir það að verkum að lítil stéttarfélög sem samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans þyrftu að lúta meirihlutaákvörðun allra þeirra sem samningurinn varðar, mundu sennilega ekki í jafnríkum mæli og e.t.v. í dag ganga inn í samflot slíkra stórra vinnustaðarsamninga. Ég óttast sem sagt og spyr hæstv. félmrh., ef hann má vera að því að svara einhvern tímann síðar í þessari umræðu þegar hann kýs, hvort hann sé ekki hræddur við það að einmitt þessi takmörkun sem mér sýnist vera lögð á svigrúm lítilla stéttarfélaga sem verða aðilar að vinnustaðarsamningum, dragi ekki úr líkunum á því að slíkir samningar verði að veruleika. Þetta tel ég slæmt, herra forseti. Ég nefni líka að eitt er að leggja fram frv. af þessu tagi og annað er að geta og kunna rökin til að styðja það. Ég sé mér til nokkurrar furðu að meiri hluti félmn. leggur hér fram margvíslegar breytingartillögur og m.a. við 6. gr. þar sem verið er að tala um þröskuld við samþykkt eða fall miðlunartillögu. Þar kemst Lagastofnun að þeirri niðurstöðu að þröskuldurinn sem var í hinu upphaflega frv. sé að öllum líkindum í andstöðu við alþjóðasamþykktir og samninga sem Íslendingar hafa skrifað undir. Þá er þröskuldurinn lækkaður úr 35% niður í 25%. Ég dreg í efa að þessi þröskuldur, 25%, sé eitthvað frekar í samræmi við alþjóðasamþykktir en 35%. Ég er reiðubúinn til að hlusta á rökin en ég spyr hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem er framsögumaður fyrir áliti meiri hlutans: Hvers vegna telur hún að það sé í samræmi við alþjóðasamþykktir að hafa 25% þegar 35% ganga ekki? Hvar eru rökin fyrir þessu? Ég veit að hv. þm. verður ekki skotaskuld úr því að útskýra þetta fyrir mér.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur komið hingað með þetta frv. sitt að mér finnst í tætlum miðað við hvernig það var upphaflega. Það er búið að ryðja úr því eins og hv. þm. Gísli Einarsson sagði, verstu eiturbroddunum. Ég tel að verkalýðshreyfingin og stjórnarandstaðan hafi náð miklum árangri þegar búið er að taka út 1. gr. um vinnustaðarstéttarfélögin, þegar búið er að ryðja burt þröskuldunum í atkvæðagreiðslunum og þegar búið er að taka burt tengingarregluna eða breyta henni. Þetta tel ég vera mikilvægt. En samt sem áður er það alveg ljóst að frv. er fljótræði vegna þess að það er lagt fram einungis nokkrum mánuðum eftir að hæstv. félmrh. er orðinn ráðherra og hann telur útrætt og útséð með að ekki náist samstaða í nefndinni. Það er fráleitt. Ég er þeirrar skoðunar að inngrip af þessu tagi sé brot á grundvallarreglu.

Hæstv. félmrh. hefur sagt í umræðum að það sé búið að signa þetta frv. í bak og fyrir af Lagastofnun. Það þótti mér fróðleg og merkileg yfirlýsing ekki síst vegna þess að hæstv. félmrh. á öðrum tíma og við aðrar aðstæður var þeirrar skoðunar að menn ættu nú ekki að gefa túskilding fyrir álit háskólans á ýmsum efnum en förum nú ekki nánar út í það. En hvaða rök eru það fyrir einn ráðherra hæstv. að koma og segja: ,,Það er búið að blessa mig af Lagastofnun háskólans``, þegar Lagastofnun háskólans tekur fyrir fjórtán atriði, fjögur eru álitaefni, og hún ræðst harkalega gegn tveimur. Er Framsfl. virkilega stoltur af því að þurfa að senda verk ráðherra síns til umsagnar færustu lagaprófessora landsins og þau koma til baka með falleinkunn? Ég er ekki stoltur af því að vera hluti af Alþingi sem finnst slíkt vera góðar og gildar vinnureglur.