Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 18:20:08 (6393)

1996-05-21 18:20:08# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[18:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur setti ég fram fyrirvara um fyrirliggjandi frv. og tók þá þar til sérstaklega ákvæði í 1. gr. að heimila vinnustaðarfélög á vinnustöðum með 250 starfsmönum eða fleiri ef 3/4 starfsmanna samþykktu slíkt. Einnig taldi ég ástæðu til að skoða þessa svokölluðu þröskulda sem hafa oft verið nefndir í þeim ræðum sem fluttar hafa verið hér í dag.

Að þessu leyti hafa ýmsar breytingar orðið á frv. sem ég ásamt fleirum töluðum um í upphafi að þyrfti að breyta til betri vegar eða til meiri sáttaáttar til verkalýðshreyfingarinnar en sýndist vera. M.a. hefur heimild til stofnunar vinnustaðarfélaga verið felld úr frv. Ekki tel ég þó að sú tillaga hafi verið alslæm. Það bendir einmitt margt til þess að réttur starfsmanna til slíkra félaga og samtaka auki félagafrelsi sem hefur verið í hávegum haft af verkalýðsforustunni og öðrum aðilum vinnumarkaðarins og er að áliti Lagastofnunar mjög í rétta átt. Það er einnig í takt við þau viðhorf sem alþjóðastofnanir hafa sett fram um rétt einstaklinga til að stofna félög hvar sem er. Það var fyrst og fremst vegna þess að verkalýðshreyfingin setti sig gegn þessu máli sem ég og fleiri töldum nauðsynlegt að þetta ákvæði færi út úr frv. og fengi frekari umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar og víðar því það er að mati flestra sem um þetta mál fjölluðu í félmn. ekki hægt að setja inn slík ákvæði sem í raun hafa aldrei fengið neina umræðu án þess að það verði gefinn tími til þess að aðlaga hana verkalýðshreyfingunni og hennar hugsunarhætti. Þetta er því eitt af þeim málum sem ég tel að þurfi að ræða frekar í þeirri umræðu sem verkalýðshreyfingin ásamt öðrum, vinnuveitendum og ríkinu, mun taka þátt í á næstu mánuðum og árum.

Þeir þröskuldar sem við töluðum um í upphafi þessarar umræðu hafa með ýmsum móti breyst. Er þá kannski fyrst og fremst að nefna þann þröskuld sem var varðandi miðlunartillögur, að þröskuldurinn sem var í frv. 33% af félagaskrá og atkvæðaskrá er færður niður í 25%. Fleiri atriði voru tekin út eins og títtnefnd tengiregla sem hafði valdið mönnum miklu hugarangri þannig og ekki ástæða til að halda henni til streitu. Það sem stendur síðan upp úr er að við höfum með þessu frv. þegar það verður að lögum lögfest ákveðnar samskiptareglur á vinnumarkaðnum sem af allflestum eru taldar munu auðvelda mjög kjarasamninga og skýra þær leikreglur sem þeir munu fara eftir. Að áliti óháðra aðila, og ætla ég ekki að taka fram allan þann fjölda mótmæla sem hafa komið frá verkalýðsfélögum, en að mati óháðra aðila mun þetta einfalda leikreglur á vinnumarkaðnum. Vil ég nefna sérstaklega álit Þjóðhagsstofnunar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Skipulag vinnumarkaðar hefur verið ofarlega á baugi í hagfræði undanfarin ár. Vaxandi atvinnuleysi hefur beint sjónum hagfræðinga að sveigjanleika vinnumarkaðarins. Hugmyndin er sú að við skilyrði frjálsrar samkeppni og verðmyndunar hljóti verðaðlögun að sjá til þess að framboð og eftirspurn mætist og því megi einfaldlega rekja atvinnuleysið að hluta til stirðleika á vinnumarkaði. Hluti þessa ósveigjanleika liggi í stofnunum á vinnumarkaði og þeim reglum sem þar gilda. Þessi niðurstaða er ein meginforsenda í umfjöllun OECD um atvinnumál. Víða um lönd hafa stjórnvöld einmitt valið þá leið að setja valdi stéttarfélaganna skorður og draga úr miðstýringu á vinnumarkaði.``

Annars staðar í áliti Þjóðhagsstofnunar segir svo:

,,Með frv. er miðstýrð kjarasamningagerð fest í sessi og lögfest útfærsla á samningsformi sem lengst af hefur einkennt íslenskan vinnumarkað. Það er því í aðalatriðum byggt á þeim grunni sem fyrir er, hefðum og venjum í þessum efnum, en skýrar kveðið á um leikreglur.``

Með öðrum orðum er verið að segja í þessu áliti að það sé verið að festa í sessi þá miðstýringu sem hefur verið við lýði. Það ætti í sjálfu sér ekki að vera keppikefli okkar sjálfstæðismanna að auka þá miðstýringu en að þessu leyti hefur hún virkað vel á almennan vinnumarkað og náðst með góðu samkomulagi að halda niðri verðbólgu og stýra launum í hófsemisátt. Það ætti frekar að vera keppikefli verkalýðshreyfingarinnar að auka miðstýringuna. Þannig að einmitt sú vinnuregla er fest í sessi að verkalýðshreyfingin sé ávallt höfð með í ráðum og að verkalýðsforustan og vinnuveitendur standi saman að málum á þann hátt sem lagafrv. gerir ráð fyrir með viðræðuáætlunum.

Vinnustaðarsamningar eru núna í fyrsta sinn teknir upp samkvæmt þessum lögum og að áliti flestra hefur mjög góð þróun átt sér stað á því sviði á undanförnum árum þó að margra áliti hafi hún farið mjög hægt. Gagnrýni á að þetta sé lögfest tel ég ekki á rökum reist enda ljóst að verkalýðsfélög og hópar sem taka sig saman um vinnustaðarsamninga munu ekki binda sig með atkvæðagreiðslu öðruvísi en að menn hafi náð samkomulagi áður. Því held ég að ef kemur að því að menn eru óánægðir með sinn hlut þegar kemur að atkvæðagreiðslunni þá sé þetta einfaldlega ekki vinnustaðarsamningur og menn neita að taka þátt í atkvæðagreiðslu um hann. Ég tel því að með þessu ákvæði sé ekki verið að eyðileggja að neinu leyti heldur sé verið að beina ákveðnum atriðum inn á réttar brautir.

Með því að styrkja völd sáttasemjara í þessu frv. tel ég að það sé í rauninni verið að færa með ýmsu móti þær umræður sem hafa verið á vinnumarkaðnum í réttan farveg. Það er t.d. ljóst að verkalýðsfélög geta ekki lengur hangið með verkfallsheimildir í óákveðinn tíma. Atkvæðagreiðslur um miðlunartillögur eru einnig mjög stífar og stífari en áður, en eigi að síður eru þær ekki eins stífar og t.d. í Danmörku sem hefur verið talin Mekka þeirra verkalýðsforustumanna sem talað hafa við okkur í hv. félmn. að undanförnu.

Ég tel því, herra forseti, að gagnrýni á frv. sé ekki á rökum reist því að að mörgu leyti er hér einungis verið að lögfesta það sem menn hafa tamið sér hingað til á vinnumarkaði. Það eina sem stendur eftir að mínu viti í þessu og má segja að sé gagnrýni vert er að það nauðsynlega samráð sem átti að vera á milli ríkisvaldsins, verkalýðsforustunnar og vinnuveitenda, entist ekki. Þetta svokallaða þríhliða samráð brast á síðustu stundu og það var verkalýðsforustan sem fór frá samningaborðinu. Vinnuveitendur og ríkið ákváðu síðan að fara með þetta mál áfram og að mörgu leyti tel ég miður að svo skyldi hafa farið. Ég tel samt sem áður að með þessari lögfestingu sé ekki verið að gera neitt sem geti skaðað verkalýðsfélögin eða verkalýðshreyfinguna á neinn hátt og tel því að hún geti tekið gleði sína á ný. Ég tel að það sé vilji flestra að verkalýðsfélögin séu öflug og að verkalýðshreyfingin hafi þann mátt sem henni er nauðsynlegur til að vera einn af hornsteinum lýðræðisins.