Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 18:37:28 (6397)

1996-05-21 18:37:28# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[18:37]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er nauðsynlegt að halda uppi góðu samráði við verkalýðshreyfinguna og reyna að ná sáttum við hana með einhverju móti. Og ég treysti ríkisstjórninni fyllilega til þess. Varðandi það að ekki hafi mátt taka þetta mál frá nefndinni af því að hún var ekki endanlega sammála vil ég bara minna á, herra forseti, að það varð mörgum undrunarefni á sínum tíma þegar ákveðið 2.000 manna verkalýðsfélag boðaði verkfall með 30 mönnum úr sama félagi. Það kallar enginn í dag lýðræði. Það var í raun skemmdarverk af hálfu viðkomandi verkalýðsforustumanna. Ég held að það sé ein meginástæðan fyrir því að menn töldu nauðsynlegt að koma á skýrari reglum á vinnumarkaðnum þannig að enginn einn verkalýðsforingi gæti leyft sér að kalla til sín ákveðinn hóp manna sem hann sjálfur jafnvel gat valið. Að því leytinu til er búið að taka á því máli með því að hafa þröskuld. Að flestra mati var nauðsynlegt að gera slíkt. Það kalla ég ekki að fara að garfa í innri málum verkalýðshreyfingarinnar heldur lít ég svo á að með þessu móti hafi lýðræði verið aukið innan verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðsforingjar eru nánast neyddir til að reyna að ná þessum hópi inn til þess að ákveða vinnustöðvanir.