Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:18:11 (6454)

1996-05-22 16:18:11# 120. lþ. 145.8 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég er mjög sammála því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Það eru langtímahagsmunirnir sem skipta máli í þessu sambandi. En menn geta haft misjafnt mat á því hvernig best er að því staðið. Það hefur verið tilhneiging til þess að gera heldur lítið úr þeirri grein sem er númer 6.2. Ég tel þvert á móti að hún sé mjög til styrktar í þessu máli og skipti afar miklu máli í framtíðinni. Þar segir að aðilar skuli nota niðurstöður vinnuhópsins sem grundvöll samningaviðræðna í framtíðinni sem er náttúrlega aðalatriðið. Það er hins vegar alveg ljóst að þessar breytingar gerast ekki sjálfkrafa. Við Íslendingar erum heldur ekki tilbúnir til að ganga frá alveg nákvæmum reglum um það hvernig breytingin eigi að eiga sér stað. Það mun þurfa að semja um hana. En þessi atriði verða höfð þar að leiðarljósi. Ég tel að hér sé ekki um neitt veiklulegt orðalag að ræða, þvert á móti. Hins vegar verður að skoða það í því ljósi að aðilar þurfa að semja um hlutina og komast að samkomulagi. En sá vilji liggur fyrir að leggja framtíðardreifinguna til grundvallar og byggja stofninn upp. Það er mikilvægasta hagsmunamál okkar Íslendinga að byggja stofninn upp. Það er þess vegna sem við gerum þennan samning og viljum leggja mikið á okkur til að hann geti orðið að veruleika. Í því liggja okkar hagsmunir. Þegar hann hefur verið byggður upp og síldin verður komin í mun meira mæli inn í okkar lögsögu þá er ég ekki í nokkrum vafa um að staða okkar samkvæmt þessum samningi er sterk.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gagnrýndi nokkur atriði. Í fyrsta lagi það að rússneskum skipum væri í reynd heimilað að veiða í rússneskri lögsögu 10.000 lestir. Hann gagnrýndi jafnframt að við fengjum engar heimildir til að veiða í rússneskri lögsögu. Hann hefur nú trúlega ekki átt við síld heldur væntanlega einhverjar aðrar tegundir því annars mundi það nú stangast á. Ég ætla nú ekki neitt að reyna að snúa út úr því. Ég leyfi mér að skilja það þannig að hann sé að vísa til þess þó svo kunni nú að fara vonandi að þegar samið verður um Barentshafið að þá munum við fá veiðiheimildir í rússneskri lögsögu. Það er a.m.k. það sem við vonumst eftir ef þar nást samningar. En hér er þvert á móti gengið út frá því að þessi síld verði ekki veidd. Ég leyfi mér að skilja þetta öðruvísi en hv. þm., þ.e. að hér sé einmitt verið að leggja á það áherslu að það verði ekki veitt í rússneskri lögsögu. Það er mjög mikilvægt. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að Rússar hafa lagt mjög mikið á sig í sambandi við uppbyggingu þessa stofns. Það er ekki hægt að ganga út frá því, þó okkur finnist það, að þjóð eins og Rússland muni aldrei veiða smásíld ef þeir fá engan rétt í sambandi við veiðar úr þessum stofnum. Þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt að við viðurkennum þeirra mikla framlag í sambandi við uppbyggingu þessa stofns með því að veita þeim takmarkaða heimild til veiða í okkar lögsögu. Það er mitt mat. Líka til þess að efla skilning og samvinnu milli þessara þjóða. Við þurfum á því að halda að ná góðri samstöðu við Rússa eins og aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf um fiskveiðimál. Það mun ekki gerast nema með gagnkvæmni og gagnkvæmum skilningi milli þjóðanna. Ég tel að þessi samningur sem hér hefur verið gerður muni gera það að verkum að samskipti þjóðanna geti orðið eðlileg í framtíðinni. Ef við hins vegar hefðum engan skilning viljað sýna þá hefðu Rússar tekið það sem tákn um að við vildum ekki vinna með þeim á gagnkvæmnisgrundvelli í sambandi við þetta mál. Rússar veiddu síld áður fyrr hér við land í verulegum mæli. Það þekkja allir sem fylgdust með veiðunum á sínum tíma. Hins vegar kemur hér fram að þetta muni verða á takmörkuðu svæði og það liggur ekkert fyrir um það hvort þessi heimild verði notuð nú á þessu ári. Um það get ég ekki fullyrt á þessu stigi.

Síðan hefur því verið haldið fram að við séum að opna okkar lögsögu fyrir Norðmönnum án þess að fá samhliða heimild í norskri lögsögu. Það er rétt að það er ekki heimild til að veiða í efnahagslögsögu Noregs við Noregsstrendur enda hefur það ekki verið keppikefli Íslendinga fram til þessa. En ég get fullvissað hv. þm. um það að ekki mun standa á því af Norðmanna hálfu að við fengjum einhverjar heimildir í norskri lögsögu til að veiða þar síld ef við viljum það. En eigum við að stefna að því að veiða síldina við Noregsstrendur og landa henni þá í Noregi og Danmörku? Ég er þeirrar skoðunar að við eigum einmitt að keppa að því að vinna þessa síld hér á landi, vinna upp okkar fyrri markaði og standa að málum líkt og hér var áður gert. Hins vegar er það nú því miður svo að lögsagan við Jan Mayen lýtur norskum yfirráðum. Þó það sé ákvæði í Jan Mayen samkomulaginu um að við fáum heimild til að veiða þar sanngjarnan hlut þá er það háð samningum. Það er ekki algjörlega afdráttarlaust og sjálfkrafa ákvæði. En það ákvæði hefur fengið þá viðurkenningu í þessum samningi að við fáum ótakmarkaðan aðgang að Jan Mayen lögsögunni en Norðmenn aðeins takmarkaðan aðgang að okkar. Norðmenn fá ekki heimild til að veiða allt sitt magn í íslenskri lögsögu, aðeins takmarkað magn. Við fáum heimild til að veiða þess vegna allt sem við viljum í Jan Mayen lögsögunni. Þannig hefur þetta ákvæði hlotið viðurkenningu í þessum samningum í sambandi við þetta mál.

Á þetta vildi ég leggja áherslu til að skýra minn skilning á þessum ákvæðum sem ég tel vera mjög mikilvæg og að hér hafi mikilvæg réttindi verið viðurkennd af hálfu Noregs í þessum samningum.