Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 11:04:31 (6494)

1996-05-23 11:04:31# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[11:04]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Um nokkurt skeið hefur sú þróun verið að eiga sér stað á vinnumarkaði að í auknum mæli hefur sú leið verið farin að gerðir eru vinnustaðarsamningar. Á síðasta ári var einn slíkur samningur gerður hjá Íslenska álfélaginu þar sem samningsaðilar komu sér saman um að greiða sameiginlega atkvæði um samninginn. Nú ætlar hæstv. ríkisstjórn að lögfesta slíkt fyrirkomulag þannig að ef vinnustaðarsamningur er gerður skuli hann borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna og meiri hlutinn ræður niðurstöðu. Hér sjást merki þess misskilnings sem einkennir frv. hæstv. ríkisstjórnar og felst í því að verið er að reyna að lögfesta reglur sem hafa verið byggðar upp í sátt. Sáttin er grundvöllur góðs árangurs á vinnumarkaði. Það næst ekki með lögþvingun. Ákvæði þessa eðlis í lögum mun hafa í för með sér að lítil stéttarfélög munu forðast að gera vinnustaðarsamninga vegna skilyrðisins um sameiginlega atkvæðagreiðslu og þannig mun ákvæðið geta staðið í vegi fyrir gerð frekari vinnustaðarsamninga og um leið mun ákvæðið snúast gegn markmiði sínu. Á þetta hefur stjórnarandstaðan margsinnis bent í umræðum og með þessum rökum get ég ekki greitt þessu ákvæði atkvæði mitt og greiði því ekki atkvæði.