Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 12:16:50 (6547)

1996-05-24 12:16:50# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[12:16]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Þetta er lokaumræða málsins. Nú eiga ekki við lengur nein varnaðarorð. Nú eiga ekki lengur við setningarnar til hæstv. ríkisstjórnar: Hugsið þið ykkur um tvisvar, viljið þið ekki finna þessu annan farveg? Það er búið að svara öllum þeim spurningum og ábendingum. Ríkisstjórnin hyggst keyra málið í gegn og gera það að lögum í því formi eins og það er lagt fram núna. Það er ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar á þessum tímapunkti að reyna að hafa vit fyrir hæstv. ríkisstjórn. Það eina sem við getum gert við lokaafgreiðslu þessa máls er að draga upp nokkra efnisþætti í tengslum við málið. Það er augljóst og hefur komið fram í umræðunni að hér er verið að vinna slæmt verk. Hér er ráðist einhliða inn í 40 ára gamla löggjöf án þess að þeir einstaklingar, sem þessi löggjöf snýst um, hafi fengið ráðrúm til að koma að þeirri vinnu. Það hefur verið dregið skýrt fram í umræðunni af hálfu stjórnarandstæðinga og reyndar einnig stéttarfélaganna að málið hafi verið illa unnið og illa úr garði gert þegar það kom inn í þingið. Skýrasta vitnið um það eru hinar fjölmörgu breytingartillögur sem meiri hlutinn lagði fram við 2. umr. og nú aftur 3. umr.

Áðan var vitnað í álit þriggja lögmanna sem efh.- og viðskn. fékk til að fara yfir málið. Í þessum álitum kemur fram að mjög margt orkar tvímælis og meiri hlutinn neyddist til að gera breytingartillögur í kjölfar þessa álits sem koma til atkvæða að lokinni umræðunni. Það lýsir einfaldlega vinnubrögðum við þetta mál að rétt fyrir lok umræðunnar áður en Alþingi lögfestir lagabálk þurfi utanaðkomandi lögfræðiálit, sem fékkst fram með herkjum að yrðu gerð, til að benda á misfellur í frv. ríkisstjórnarinnar. Röksemdir okkar um að málið hefði þurft að vinna betur fyrir utan að það hefði þurft að vera í öðrum farvegi voru því allar réttar. Það sýna einfaldlega þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur fram við umræðuna.

Það hefur verið hlustað á nokkur atriði okkar stjórnarandstæðinga sem varða efni frv. Hins vegar er efni frv. ekki aðalatriðið heldur að lagasetning skuli sett einhliða án nauðsynlegs samráðs en efnislega hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frv. sem horfa til bóta. Þar er sérstaklega að nefna að 2. mgr. 47. gr. er tekin út en það töldum við atlögu að rótum verkalýðshreyfingarinnar, skipulagðra stéttarfélaga hér á landi. Það er gott að það fór út en söm var hugsunin og stefnan sem kom fram í upprunalegu frv. Jafnframt er tekið út ákvæðið um að embættismenn hafi ekki málfrelsi enda brýtur það í bága við stjórnarskrá og það er satt best að segja með eindæmum að við 3. umr. máls þurfi að gera breytingu á stjfrv. vegna þess að það brýtur í bága við stjórnarskrá. Slík vinnubrögð eru með eindæmum eins og meiri hluti nefndarinnar eða ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur gengið í gegnum.

Sömuleiðis hefur skýrst í umræðunni að ekki eru gerðar neinar breytingar sem varða veikindarétt og fæðingarorlof. En réttarstaða þeirra mála er veikt í frv. Það á að vera háð almennum kjarasamningum og mjög líklegt að réttindin verði færð niður á við þó ekki væri nema til að gæta samræmis við stöðu á almennum vinnumarkaði. Meiri hlutinn féllst ekki á að tryggja betur þennan rétt og lýsir það hugsunarhætti gagnvart málinu. Sömuleiðis má nefna að enn þá er inni að verði maður langvarandi veikur og er svo óheppinn að vera í opinberri þjónustu þá ber að reka hann. Það lýsir líka hugsunarhætti gagnvart starfsmönnum ríkisins að þetta ákvæði skuli verða lögfest innan nokkurra daga með stuðningi Sjálfstfl. og Framsfl.

Bent hefur verið á að aðalástæðan fyrir öllu þessu brambolti sé að afnema biðlaun starfsmanna til að geta knúið í gegn formbreytingu Pósts og síma og væntanlega viðskiptabanka. Það er ljóst að ýmsir lögmenn og þar á meðal einn þessara þriggja lögmanna telja að um sé að ræða rétt sem sé varinn af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er augljóst að hér stefnir í dómsmál. Er það vitaskuld ekki gott mál að ganga frá lagasetningu sem er vitað að muni enda fyrir dómstólum. Sömuleiðis má benda á að afleiðingar þessarar útfærslu hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún talar um að illt sé að menn séu á tvöföldum launum fyrir eitt starf, þ.e. við formbreytingu, verða hins vegar þær að fólk sem er á biðlaunum er þá á biðlaunum án þess að vera í starfi ef það má orða það þannig. Afleiðingarnar af þessu verða þær að fjölmargir aðilar, sem eiga rétt á biðlaunum, munu kjósa að vera á þeim í 6--12 mánuði og fara hugsanlega í óskráða atvinnustarfsemi, svarta atvinnustarfsemi. Það var a.m.k. álit ýmissa umsagnaraðila sem ræddu við efh.- og viðskn. Allir sjá að ekki er gott að ganga frá löggjöf með þeim hætti. Sömuleiðis hefur komið fram við lokaafgreiðslu málsins að ríkisstjórnarmeirihlutinn er í miklum vandræðum að útfæra hvað telst sambærilegt starf sem boðið er ef um formbreytingu er að ræða eða ef fólk fer úr ríkisþjónustu. Ekki var hægt að svara öllum þeim spurningum um útfærslu þess efnis af forsvarsmönnum frv. Það er vitaskuld óhæfa að óvissa skuli ríkja um þennan þátt.

Ráðningarfesta starfsmanna ríkisins er veikt stórlega með frv. Það er mjög ámælisvert að ekki verði afgreiddur með þessu frv. svokallaður bandormur en það kallaði á verulega breytingu á 22. gr. frv. um embættismenn. Vitaskuld hefði átt að taka þetta allt í einu lagi eins og hæstv. forsrh. gaf reyndar yfirlýsingu um snemma í umræðunni. Það var ekkert gert með orð hans í sambandi við vinnubrögð heldur var málið lögfest með þessum hætti og afgreiðslu svokallaðs bandorms frestað fram á haustdaga og fjölmörgum spurningum ósvarað um útfærslu gagnvart einstökum stéttum. Þetta er dæmi um hroðvirknisleg vinnubrögð og það að velta á undan sér þeim vandamálum sem fylgja óvandaðri lagasmíð. Það er sömuleiðis inni og ekki hefur tekist að fá neina breytingar á yfirvinnuskyldu starfsmanna ríkisins sem er einsdæmi og þekkist ekki á almennum markaði og sömuleiðis að hægt er að fresta uppsögn starfsmanna ef margir óska lausnar á sama tíma. Í nefndinni var bent á af forsvarsmönnum Kennarasambands Íslands að oft hætta margir kennarar á sama tíma í skólum, sérstaklega á landsbyggðinni, án þess að það sé um nokkuð að ræða sem tengist kjaramálum. Oft vill verða breyting í stórum hópum, sérstaklega á smærri stöðum, og þá er hægt að beita þessu ákvæði til að þvinga fólk til að vinna áfram í þeim störfum sem það var í og er þetta náttúrlega mikil mismunun miðað við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Það var sömuleiðis upplýst við lokaafgreiðslu málsins að menn töldu að sambærilegt starf væri líka fyrir hendi, ekki aðeins ef menn færu úr öðru réttarumhverfi heldur einnig annað lífeyrissjóðsumhverfi. Það er augsýnilegt að frumvarpshöfundar og ríkisstjórnin stefna að því að útfæra ákvæði þessa frv. á óhagkvæman hátt fyrir starfsmenn ríkisins. Það lá ljóst fyrir þegar gengið var eftir hvernig bæri að meta sambærileg störf þegar kæmi að ýmsum réttindamálum eins og lífeyrismálum. Þá kom fram yfirlýsing frumvarpshöfunda og væntanlega skilningur ríkisstjórnarmeirihlutans í þeim efnum að það væri alveg sambærilegt ef t.d. kennari hætti störfum í opinberri þjónustu og færi til einkaskóla þótt svo að þar væri um allt annað réttindaumhverfi að ræða. Það yrði talið sambærilegt starf og lögvernduð biðlaunaréttindi féllu þá niður svo dæmi sé tekið. Þetta er vitaskuld lýsing á útfærslu og afleiðingum þessa frv. en ekki er hægt að sjá fyrir allar afleiðingar þess. Það er þó ljóst að með þessu frv. er skert mjög verulega staða starfsmanna ríkisins og það án þess að þeir fái rönd við reist.

Það sem mig langar að gera hér aðeins að umtalsefni er raunverulega ekki það sem stendur í frv. heldur það sem vantar í það til að þetta hefði getað orðið löggjöf eða það sem ég tel að hefði þurft að vera í því ef menn ætluðu að endurskipuleggja ríkisrammann. Það er t.d. lögfest í þessu frv. vald forstöðumanna til yfirborgana en það er ekkert virkt eftirlit byggt inn í það vald sem þeir hafa. Segja má að þarna sé geðþóttavald lögfest gagnvart starfsmönnum ríkisins. Það má benda á að meginstefna stjórnsýslulaganna er einmitt að koma í veg fyrir að þegnar landsins standi andspænis geðþóttavaldi. Hér er það hins vegar lögfest gagnvart starfsmönnum ríkisins með hinu mikla valdi forstöðumanna sem hafa m.a. vald til yfirborgana og það hefur verið gengið margoft eftir því hvað líði reglum sem á að vinna eftir. Það er 9. gr. frv. sem fjallar um þá þætti. Það hefur komið skýrt fram og við umfjöllun nefndarinnar milli 2. og 3. umr. fengust engin svör við því. Það segir okkur það eitt að engar reglur eru til og það á að lögfesta málið án þess að menn fái kost á að skoða þær reglur sem á að vinna eftir í þeim mikilvæga þætti frv.

Í frv. er sömuleiðis lögfest mjög gamaldags stjórnunarfræði sem átti við fyrir 10--15 árum, miðstýrð boðvaldsstjórnunarfræði ef það má orða það svo. Miðstýring gengur eins og rauður þráður í gegnum frv. Annars vegar með lögfestingu eftirlitslítils valds forstöðumanna og hins vegar með því að miðstýring fjmrn. er aukin í þessu frv. en fjmrn. er látið koma að öllum ákvörðunum sem skipta starfsmenn ríkisins. Þetta er úrelt aðferðafræði og gengur þvert á það sem þekkist víðast hvar í kringum okkur þar sem menn leitast við að tengja fólk inn í ákvarðanatöku og koma fyrir dreifstýringu við rekstur opinberrar þjónustu fyrirtækja. Ekkert er tekið á þessu í frv. og lýsir það betur en margt annað að hér eru menn með gamla aðferðafræði, ekki einungis hvað varðar stjórnunarþáttinn heldur er einnig verið að endurvekja húsbóndavaldshugsun sem hefur alls staðar verið rutt út af borðinu bæði í fyrirtækjarekstri og opinberum rekstri í nágrannalöndunum. Sömuleiðis er ekkert tekið á kjarasamningsferli hjá hinu opinbera í frv. Vitaskuld er það miður en það er ástæða fyrir því að ekki er tekið á því. Það er mjög miðstýrt fyrirkomulag og fellur því mjög vel inn í þá hugsun sem einkennir frv. að öðru leyti. Vitaskuld hefði þurft að brjóta upp þetta fyrirkomulag þannig að ráðuneyti og stofnanir hefðu getað komið virkar að kjarasamningum þannig að áhrif starfsmanna yrðu bæði meiri og hægt væri að nýta sér sérstöðu einstakra fyrirtækja og stofnana ríkisins á árangursríkan hátt bæði fyrir ríkisvaldið sem vinnuveitanda og fyrir starfsmenn sem launþega. Ekki neitt í frv. er í þessa áttina heldur er miðstýringin fest enn betur í sessi.

[12:30]

Fjölmörg atriði í frv. eru ólík því sem gengur og gerist á almennum markaði eins og yfirvinnuskylda og hópuppsagnir sem ég nefndi áður en slík ákvæði þekkjast ekki á almennum vinnumarkaði. Eftirlitslítið vald forstöðumanna þekkist ekki með þessum hætti á almenna markaðnum. Hér eru því lögfest atriði sem eru mjög stórt skref aftur á bak ef upprunalega ætlunin var að gera ríkisumsvifin sveigjanlegri. Það er ekkert um þá hluti í frv.

Í frv. er ekkert tekið á gagnrýni lögmanna og stéttarfélaga er varðar málskotsrétt. Stjórnsýslulög eru tekin úr sambandi að hluta til og án þess að gefa málunum nægilega athygli eru þættir einfaldlega lögfestir sem stangast vægast sagt mjög á við nútímalega hugsun varðandi opinbera stjórnsýslu en gætu hugsanlega varðað við önnur lög. Þetta er dæmi um slæm vinnubrögð og að ekki skuli hafa verið gefið betra ráðrúm til að fara yfir þann þátt.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði grein fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. Ég á sæti í efh.- og viðskn. og stend að því minnihlutaáliti sem hann gerði hér ágætlega grein fyrir áðan. Við leggjum til að málinu verði vísað frá með dagskrártillögu. Ég geri hins vegar ráð fyrir að sú tillaga verði felld. Það er augsýnilegt að ekki verður hægt að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn. Við höfum barist gegn frv. bæði með faglegum og pólitískum rökum en einnig með vinsamlegum ábendingum eins og oft vill verða í stjórnmálum á Íslandi að menn vilja reyna að forða að slys verði og láta hluti ekki lenda í þvílíkum vandræðum eins og frv. mun leiða til að okkar mati.

Það er augljóst hvað gert er með frv. Það er hægt að segja það í einni setningu. Með þessari löggjöf er gengið inn í samningsumhverfi opinberra starfsmanna til hagsbóta fyrir annan aðilann, þ.e. ríkið sem vinnuveitanda. Nákvæmlega sama stefna kemur fram í frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar er gripið einhliða inn í löggjöf á miðjum samningstíma og tekið máli annars deiluaðilans, þ.e. vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði. Sama hugsun endurspeglast í þessu frv. Þetta er ekki góð aðferðafræði að mati okkar stjórnarandstæðinga. Við erum andsnúnir þeirri pólitísku hugsun sem kemur fram kemur í frv. Sömuleiðis finnst okkur að öll afstaða ríkisstjórnarinnar í málinu einkennist af hroka, ekki einungis gagnvart stjórnarandstöðu, látum það nú vera, við getum þolað það, en einnig hroka gagnvart starfsmönnum ríkisins og reyndar verkalýðshreyfingunni á almennum vinnumarkaði. Það er augsýnilegt að ríkisstjórnin ætlar sér að valta yfir sjónarmið gjörvallrar verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar og ætlar að lögfesta þetta í því formi sem hún hefur lagt hér fram.

Áhrifin á kjarasamningana eru augljós. Það verða mikil kjaraátök um næstu áramót. Það verður ekki sagt um stjórnarandstöðuna að hún hafi ekki bent á það. Það verður ekki sagt um verkalýðshreyfinguna að hún hafi ekki bent á það. Við höfum ítrekað sagt að þessi mál ætti að leysa í samráði m.a. vegna þess að menn fara ekki einhliða inn í löggjöf af þessum toga eins og gert er en einnig til þess að við getum haldið áfram eðlilegum samskiptum milli ríkisvalds og starfsmanna þess svo og á hinum almenna vinnumarkaði. Þeirri efnahagsstefnu sem mótuð var fyrir 5--6 árum er stefnt í hættu með þeirri aðferðafræði sem ríkisstjórnin leggur upp með. Við höfum varað við afleiðingum málsins. Við leggjumst eindregið gegn lögfestingu frv. Við teljum það vera illa unnið efnislega en fyrst og fremst erum við andsnúnir því að fara einhliða inn í samningsumgjörðina á miðju kjarasamningstímabili. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að reyna að hnekkja þessari löggjöf. Við ráðum ekki við meiri hluta Alþingis í atkvæðagreiðslunni, sem fer fram að lokinni umræðunni, en stefna okkar er ljós. Við munum reyna bæði innan þings og utan að vinna að því að þessi lög verði numin úr gildi og þeim verði fundinn annar farvegur, þ.e. sú vinna sem er nauðsynleg við endurskoðun á löggjöf af þessu tagi. Sú lögfesting sem ríkisstjórnin stefnir að endurspeglar stjórnmálaskoðun hennar, hina pólitísku skoðun ríkisstjórnarinnar. Þessi mál hafa skerpt mjög hinar pólitísku línur í landinu, ekki aðeins milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur einnig milli vinnuveitenda, hvort sem er á opinberum markaði eða almennum markaði, og verkalýðs- og stéttarfélaganna í landinu. Hér eru orðnir skýrari kostir í stöðunni fyrir almenning til að taka afstöðu til. Málið snýst ekki um tæknilega útfærslu og lagfæringu á löggjöf heldur snýst það um pólitísk grundvallaratriði. Afstaða okkar er skýr í þessum efnum. Við höfnum þeirri pólitísku stefnu sem ríkisstjórnin fylgir eftir með lögfestingu þessa frv.