Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 15:16:36 (6563)

1996-05-24 15:16:36# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[15:16]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski engin ástæða til að rekja þetta hér aftur og aftur. En það bréf sem sent var til lögmannanna byggðist fyrst og fremst á frv. eins og það var eftir að 2. umr. var lokið. Síðan eru gerðar á því miklar breytingar. Þeir fengu sendar þær breytingar þannig að þeir fjölluðu aldrei um 22. gr. Þeir hins vegar komust að því að það er verið að þrengja að málfrelsi embættismanna. Það var niðurstaða þeirra allra. Þeir komust að því að málskotsrétturinn er ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Ég fæ ekki betur séð en að meiri hlutinn hafi ákveðið að verða við þeirri gagnrýni. (EOK: Við breyttum því.) Ég er að sjálfsögðu ánægð með það. Sem betur fer tekur meiri hlutinn aðeins sönsum. En eftir stendur hvernig unnið var að málinu. Það sem ég gerði að stóru atriði í öllu mínu máli var að við skyldum fá frv. hingað inn sem eru svona illa unnin og sem brjóta augljóslega í báta við alþjóðasáttmála og jafnvel íslensku stjórnarskrána. Og ég spyr enn: Hvernig stendur á því að málin eru svona illa unnin? Hvað á þetta eiginlega að þýða? Vita þeir þetta ekki, þekkja þeir þetta ekki eða er bara verið að reyna að teygja og toga lögin eins langt og hægt er? Þetta eru ekki nógu góð vinnubrögð og að við skulum þurfa að standa hér í þessu endalausa streði til að fá menn til að virða stjórnarskrána og alþjóðasáttmála er auðvitað ekki nógu gott. Ég veit að þetta skilur hv. þm. og hann vill bæta hér vinnubrögð. Ég er alveg viss um að hann hefur áhyggjur af því hvaða afleiðingar þetta frv. og þessi lög sem verið er að knýja í gegn hér á Alþingi muni hafa á vinnumarkaðinn. Hann er það reyndur maður í þeim samskiptum að hann hlýtur að hafa miklar áhyggjur af þessu. (Gripið fram í: Bullandi móral.)