Meðferð brunasjúklinga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:03:52 (6601)

1996-05-28 14:03:52# 120. lþ. 149.3 fundur 521. mál: #A meðferð brunasjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:03]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf jafnkaldhæðnislegt þegar talað er um lokun á deildum og samdrátt í rekstri sem getur haft þær afleiðingar sem t.d. lokun á lýtalækningadeildinni á Landspítalanaum hafði á sínum tíma þegar fram kemur að þessi ákvörðun sé tekin af stjórn sjúkrahússins eftir umfjöllun og ábendingum og síðan ráðgjöf faglærðra sem að málinu koma. Það er eins og menn hafi haft í raun og veru eitthvert val. Ég hef sjálf setið í stjórnarnefnd Ríkisspítala og veit ósköp vel hvert valið er. Það er nákvæmlega ekki neitt. Og þegar talað er um að deild sé lítil og óhagstæð í rekstri og það kosti 30 millj. á ári að reka hana, halda henni opinni þá verðum við auðvitað að horfa á það hvernig þetta er reiknað út, þ.e. hvernig horft er á reksturinn og það sem er óhagstætt eins og hæstv. ráðherra sagði. Það er út frá beinhörðum peningum en ekki út frá þeirri þjónustu sem sjúklingurinn fær og bata hans eða hvort það er hagstætt fyrir þjóðfélagið að sjúklingur sem lagður er þarna inn nái fullum bata fyrr en ella.