Meðferð brunasjúklinga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:05:27 (6602)

1996-05-28 14:05:27# 120. lþ. 149.3 fundur 521. mál: #A meðferð brunasjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:05]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Mér er málið skylt og mig langar til þess að fá að varpa spurningu til hæstv. heilbrrh. Það er auðvitað rétt sem búið er að lýsa að það hefur ríkt ófremdarástand í meðferð brunasjúklinga nú um langt skeið. Starfsfólk Ríkisspítala og stjórnendur þar hafa verið að vinna að tillögum um það hvernig mætti betur búa að þessari viðkvæmu þjónustu og hafa lagt fram ákveðnar tillögur þar að lútandi fyrir þó nokkru síðan.

Nú upplýsir hæstv. heilbrrh. það að niðurstaðnanna í þessu máli mætti vænta um næstu áramót ef ég skil ráðherrann rétt. Mér þykir eins og mörgum öðrum langt að bíða til næstu áramóta og ég er viss um að brunasjúklingar sem hugsanlega þurfa að leita til okkar á Ríkisspítölunum mundu fagna því ef ráðherrann sæi sér fært að taka ákvarðanir fyrr um framtíð þessarar deildar, þar sem mjög nákvæmir útreikningar liggja fyrir og tillögur um leiðir sem hægt er fara í þessu máli. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Geta sjúklingar og starfsmenn Ríkisspítalanna vænst þess að þessari ákvarðanatöku verði flýtt eitthvað?