Merkingar afurða erfðabreyttra lífvera

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:22:06 (6608)

1996-05-28 14:22:06# 120. lþ. 149.4 fundur 494. mál: #A merkingar afurða erfðabreyttra lífvera# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þar sem hv. fyrirspyrjandi ítrekar spurninguna um afstöðu ríkisstjórnarinnar, ítreka ég það sem kom fram í svari mínu. Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn. Það hefur ekki verið tekið fyrir þar, a.m.k. ekki af minni hálfu og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert í tíð fyrri ríkisstjórnar heldur. Hér hafa embættismenn ráðuneytis og stofnunar setið við að reyna að ná samkomulagi um málið eins og ég greindi frá áðan, þ.e. að það væru sambærilegar merkingarreglur og sömu aðferðir giltu í því efni. Öllum hlýtur að vera ljóst hversu mikilvægt það er.

Ég get endurtekið það sem kom fram í svari mínu um það hvað það er sem Ísland hefur lagt megináherslu á í þessu efni, þ.e. að afurðir erfðabreyttra lífvera sem ekki eru frábrugðnar hefðbundnum vörum í samsetningu, notkun og útliti séu ekki metnar sérstaklega og er þar t.d. vitnað til hvata sem notaðir eru við ostaframleiðslu. Ef um er að ræða breytingar á efnisþáttum, t.d. próteinum þannig að varan geti valdið ofnæmi eða óþoli er auðvitað nauðsynlegt að merkja umbúðirnar.

Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan og hélt að hefði verið alveg skýrt í mínu máli að væntanlegur er fundur með norskum embættismönnum um þetta mál. Náist samkomulag á þessum nótum sem Ísland hefur sett fram tel ég það vera mikilvægt og eftir atvikum ásættanlegt. Verði það hins vegar ekki, þurfum við að skoða málið nánar og taka þá endanlegan afstöðu til þess hvernig við bregðumst við.