Endurskoðun lögræðislaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:55:35 (6646)

1996-05-28 15:55:35# 120. lþ. 149.12 fundur 515. mál: #A endurskoðun lögræðislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:55]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta brýna mál upp á Alþingi og jafnframt vil ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör. Það er vissulega ástæða til að fagna því þegar maður heyrir að nefnd sem hefur fengið það verkefni að endurskoða lögræðislögin muni ljúka störfum því að þetta mál hefur tekið alllangan tíma.

Vissulega get ég fallist á að þessar mildari aðgerðir sem hæstv. dómsmrh. er að boða, en þó ganga þær að mínu mati ekki nógu langt í átt til nútímalegra sjónarmiða sem ríkja í garð þroskaheftra. Alls staðar í nágrannalöndum okkar meta menn og virða að það sé hægt að ná jafngóðum árangri með því að skipa fólki svokallaða tilsjónarmenn án lögræðissviptingar. Oft snýst þetta líka um það að veita þessu fólki upplýsingar á viðunandi hátt og næst þá oft samstaða og sátt um aðgerðir sem nauðsynlegar eru. Því vil ég biðja hæstv. dómsmrh. að huga að því hvort það væri ekki hægt að ganga ögn lengra í þessum breytingum og virða þau sjálfsögðu mannréttindi sem hér hafa verið tekin til umræðu og láta lögræðislögin endurspegla nútímann í æ ríkari mæli.