Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 17:39:48 (6665)

1996-05-28 17:39:48# 120. lþ. 150.8 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[17:39]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég samþykkti frv. og skrifaði undir með fyrirvara. Ég samþykkti það að öllu leyti nema því er varðar 6. gr. Þar er kveðið á um að útsvar hækki um 2,75% af tekjum allra landsmanna frá 1. janúar 1998. Til stendur að lækka tekjuskattsprósentuna samsvarandi en það hefur enn ekki verið gert og mér finnst það ekki sérstaklega vönduð lagasetning að ákveða hækkun á útsvarsprósentunni en skilja eftir til seinni tíma að lækka skattprósentuna. Það er því eins gott að Alþingi samþykki í haust þessa lækkun á skattprósentunni. Annars sitja skattgreiðendur uppi með hækkun upp á 2,75%.

Þetta er megininntak minna mótmæla og andstöðu og fyrirvara við frv. Það er einmitt það að þetta er ekki gert jafnhliða. Ég minni á að þingið er að ræða um breytingu á tekju- og eignarskattsfrv. þannig að því er í lófa lagið að breyta þessari prósentu þar.