Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:13:07 (6696)

1996-05-28 23:13:07# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:13]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um grunnskóla byggist á samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna vegna kostnaðar- og tekjutilfærslu við flutning grunnskólans eins og fram kemur í greinargerð. Því mætti ætla að hér sé um algert samkomulag að ræða. Þess vegna vil ég gera örstutta grein fyrir því hvers vegna ég skrifa undir nefndarálit menntmn. með fyrirvara. Ástæðan er sú að ég tel að það sé mjög óeðlilegt og eiginlega alveg út í hött að fela frjálsum félagasamtökum eða Sambandi ísl. sveitarfélaga hvort sem er að hafa frumkvæði að lausn málefna grunnskólans, samanber texta brtt. nefndarinnar, eða fara með málefni grunnskólans sem varða skóla þar sem um fleiri en eitt sveitarfélag er að ræða. Þess vegna vekur þetta þá spurningu hvort ætlunin sé að frjáls félagasamtök taki að sér vald eins og þriðja stjórnsýslustigið.

[23:15]

Á milli 1. og 2. umr. fékk menntmn. á sinn fund fjölmarga aðila eins og fram kemur í nefndarálitinu, m.a. fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, menntmrn. og viðkomandi sérskólum, en það eru einkum sérskólarnir sem þessi ákvæði 1. gr. ná til. Eðlilega létu fulltrúar sérskólanna í ljós miklar áhyggjur út af þessu ákvæði. Áhyggjur yfir því að þeir yrðu starfsmenn frjálsra félagasamtaka að því er virtist til frambúðar ef miðað var við frumvarpstextann. Slíkt er að mínu mati fullkomlega óviðunandi bæði faglega og formlega varðandi kjaraleg atriði. Það er að mínu mati alveg ljóst að í þessu máli hefur ríkisvaldið einfaldlega ekki unnið heimavinnuna sína. Því á að redda málum fyrir horn á meðan málin eru óútkljáð og færa frjálsum félagasamtökum, nefnilega Sambandi íslenskra sveitarfélaga, stjórnsýsluvald allt fram til 1. jan. 1999, samanber brtt. nefndarinnar við 6. gr. Það að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga það hlutverk að eiga frumkvæði að lausn málefna grunnskólans sem varðar fleiri en eitt sveitarfélag, en þar eru sérskólarnir umfangsmestir eins og áður segir, hlýtur að orka tvímælis. Það er veruleg spurning hvort þetta muni hafa fordæmisgildi og hvort það sé kannski ætlunin að sambandið verði í auknum mæli umboðsaðili ríkisvaldsins. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntmrh., ef hann er einhvers staðar nærtækur, eða hv. formann menntmn., hvort það sé ætlunin að færa í auknum mæli frjálsum félagasamtökum vald ríkisvaldsins.

Samkvæmt 105. gr. sveitarstjórnarlaga segir að ríkisvaldið viðurkenni Samband íslenskra sveitarfélaga sem sameiginlegan málsvara sveitarfélaga í landinu. En aðild sveitarfélaganna að þessu sambandi er eftir sem áður frjáls. Í þessu sambandi má nefna að í sambærilegum samtökum í Danmörku er Kaupmannahöfn ekki aðili, þ.e. þessi samtök gætu hugsanlega verið til án þess að Reykjavíkurborg væri í þeim. Þetta er að mínu mati augljóslega laus endi við flutninginn á grunnskólanum til sveitarfélaganna, sem ætti fyrir löngu að vera búið að hnýta. Að mínu mati hefði verið eðlilegast að ríkið sæi um rekstur sérskólanna þangað til samið hefur verið við sveitarfélögin með viðunandi hætti þannig að öll sveitarfélög eigi áfram aðgang að öllum sérskólum án þess að það bitni óhóflega á fjárhag þeirra sveitarfélaga sem hýsa viðkomandi sérskóla og án þess að það verði fjárhagsleg spurning fyrir hvert sveitarfélag hvort það hafi efni á að senda barn í sérskóla eða hvort það eigi að kenna því í héraði. Slíka ákvörðun á að taka á uppeldisfræðilegum eða kennslufræðilegum forsendum en ekki fjárhagslegum. Annað er brot á hugsjóninni um jafnrétti til náms. Þetta verður að mínu mati best gert með því að beita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þannig að viðunandi sé fyrir alla aðila. Þessu starfi er einfaldlega ólokið, því miður, og ég endurtek þá skoðun mína að þessi lausn sem hér er lögð til er klúður. Þess vegna skrifa ég undir nál. með fyrirvara en ég styð þó frv. og við kvennalistakonur í heild ef það má verða til þess að af flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna geti orðið þó útfærslan á fyrstu greininni sé varla boðleg.