Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:23:09 (6715)

1996-05-29 10:23:09# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:23]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það spurðust þau tíðindi að Evrópusambandið hefði sent frá sér ákveðnar tilkynningar í orkumálum og iðnrh. á Íslandi sagði: Já, þetta kom mér ekki á óvart. Ég bjóst alltaf við því að þetta yrði bara svona og það þarf enginn að vera hissa á þessu. Þetta lá alveg fyrir 1988, 1989, 1990 og guð veit hvað. Engin frétt. Það er engin frétt að það er komin niðurstaða frá Evrópusambandinu sem mundi í framkvæmd þýða það að það þyrfti að leysa upp Landsvirkjun. Það er engin frétt. Það er engin frétt að það komi frá Evrópusambandinu tilkynning um að það þurfi að leysa upp Rafmagnsveitur ríkisins eins og þær eru í dag. Engin frétt. Það eru engin tíðindi. Það eru heldur engin tíðindi að það er komin tilkynning frá Evrópusambandinu sem mundi hafa í för með sér hækkun raforkuverðs úti á landi. Það er engin frétt. Og það er heldur engin frétt að það er komin tilkynning frá Evrópusambandinu sem mundi banna jöfnun raforkuverðs, þ.e. niðurgreiðslu á raforku til húshitunar vegna þess að það mundi mismuna samkeppniskostum. Og það er heldur engin frétt að það sé opnað fyrir það að útlendingar eigi raforkuverin. Það er engin frétt, það eru engin tíðindi. Menn máttu svo sem búast við þessu.

Veruleikinn er sá, hæstv. forseti, að menn hafa mikið verið að tala um aðild útlendinga að eignarhaldi á aðgangi að fiskimiðunum. Ég segi alveg eins og er að ég er sannfærður um að það verður stutt biðröðin þar miðað við þau tíðindi sem geta gerst í orkumálum á Íslandi ef það er opnað fyrir það að útlendingar eignuðust raforkuverin. Þar er gullið, þar er gull framtíðarinnar á Íslandi. En það er engin frétt. Menn máttu búast við þessu, segir hæstv. iðnrh.

Ég hlýt að spyrja: Er samstaða í stjórnarflokkunum um þessa stefnu iðnrh. að þetta sé allt í lagi? Er það skoðun Framsfl. að þetta sé í lagi? Er það skoðun hæstv. félmrh.? Er það skoðun Sjálfstfl.? Er það skoðun ríkisstjórnarinnar að þessi bylting í orkumálum sé allt í lagi? Bara eitthvað sem mátti búast við og engin ástæða til þess að gera sér neina rellu út af því. Þessi vinnubrögð eru ótrúleg, hæstv. forseti.