Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:34:12 (6719)

1996-05-29 10:34:12# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:34]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Fyrst varðandi þau frumvörp sem hér hafa verið ítrekað til umfjöllunar á þessu þingi í vetur varðandi virkjanir fallvatna og eignarhald á auðlindum í jörðu hefur hv. þm. Stefán Guðmundsson svarað því. Eins og fram kom hjá hv. þm. er ekkert óeðlilegt við þá málsmeðferð sem þar á sér stað. Það ættu þeir auðvitað best að vita, þeir hæstv. fyrrv. iðnaðarráðherrar, sem hafa verið með þessi mál til umfjöllunar í sinni tíð í iðnrn., að þarna er um flókin verk að ræða, þarna er um flókinn málaflokk að ræða og það tekur tíma að ná samstöðu, ekki bara milli ríkisstjórnarflokkanna heldur líka á á milli allra flokka á þingi um skynsamlegustu lendingu þessa máls.

Ég er ekki að gera lítið úr þeirri tilskipun, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem væntanleg er en hefur þó enn ekki verið sett. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hún getur þýtt talsvert miklar skipulagsbreytingar í orkumálum okkar. Þess vegna hef ég sett á fót nefnd til þess að undirbúa skipulagsbreytingar á orkumálum á Íslandi. (HG: Það er önnur nefnd ...) Það er önnur nefnd, hv. þm., og það á hv. þm. að vita vegna þess að þingflokkur Alþb. er með fulltrúa í þeirri nefnd. Það er nefnd sem á að fjalla um skipulag orkudreifingar í landinu, orkuvinnslunnar og orkuflutnings.

Síðan er einnig að störfum eins og fram hefur komið nefnd til þess að undirbúa frumvörpin um eignarrétt á auðlindum í jörðu og virkjunarrétt fallvatna. Fyrirvaranum hefur verið haldið til haga, hv. þm., hvað Ísland snertir í þessari umræðu allri saman. Þetta á ekki að koma á óvart vegna þess að 1988 kom fram fyrsta tilskipun um innri markað raforku í Evrópu sem gekk mun lengra en þau tilskipunardrög sem núna er verið að fjalla um. Þau komu fram árið 1988 og það eiga auðvitað hv. þingmenn að vita. Það furðulegt að hér skuli koma upp hv. formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Svavar Gestsson, halda dómadagsræðu en hlaupa síðan í burt úr salnum og ekki láta sjá sig meira og halda fram slíkum rangindum sem hann gerði. Að leysa þurfi upp Landsvirkjun, það er rangt. Að leysa þurfi upp Rarik, það er líka rangt. Að ekki sé hægt að koma við orkujöfnun í þessu kerfi, það er líka rangt. Að ekki sé hægt að greiða niður orkuverðið, það er líka rangt. Allar fullyrðingar hv. 8. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, sem hann fór með í tveggja mínútna langri ræðu voru rangar og þannig er málflutningur Alþb. í málinu. Menn eru í raun og veru að blekkja og villa um fyrir fólki. (HG: Hver er stefna ráðherrans? Hvar er Framsókn?)