Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:22:55 (6724)

1996-05-29 11:22:55# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lét þess sérstaklega getið að hann óttaðist ekki samkeppni á fjarskiptamarkaði og ég skildi hv. þm. svo að honum sýndist bara fullboðlegt fyrir Póst og síma að vera áfram opinber stofnun og vera þá í engum burðum til að mæta samkeppninni. Hvernig ætli verði um starfsöryggi fólks hjá Pósti og síma ef fyrirtækið getur ekki mætt samkeppninni af fullum krafti? Halda menn ef fjölþjóðleg fyrirtæki komi hingað að þau muni ekki ná einhverju af markaðnum heima? Auðvitað munu þau gera það og alveg ástæðulaust að tala um þessi mál með léttúð.

Í annan stað vil ég segja að ég hef átt fundi með starfsfólki Pósts og síma. Ég hef aðeins einu sinni fengið kvörtun undan því að samráð hafi ekki verið nægilegt á hinum síðustu vikum og þar væri um misskilning að ræða sem var leiðréttur þegar í stað. Mér kemur því mjög á óvart ef það er rétt sem hv. þm. segir að undan því sé kvartað að vilji manna standi ekki til þess að eiga gott samráð við starfsmannafélög Pósts og síma. Ég held að þessi ummæli þingmannsins hljóti að vera á misskilningi byggð.