Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:25:19 (6726)

1996-05-29 11:25:19# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:25]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar en efni standa til. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á 5. lið brtt. meiri hluta hv. samgn. við fjarskiptalög sem hér eru einnig til umræðu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eigi síðar en 1. júlí 1998 skal notkunargjald fyrir talsímaþjónustu vera hið sama alls staðar á landinu og skal innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil.``

Með þessari brtt. ef samþykkt verður sér fyrir endann á miklu baráttumáli landsbyggðarfólks. Ég tel sérstakt fagnaðarefni að það verði bundið í lög að landið skuli vera eitt gjaldsvæði. Ég þakka meiri hluta hv. samgn. fyrir það að bera fram þessa tillögu og vinna þannig að lausn þessa mikilvæga réttlætismáls.

Ég fellst fúslega á að heppilegra er og að öllu leyti eðlilegra að ákvæði um eitt gjaldsvæði sé betur komið í fjarskiptalögum en í lögum um Póst og síma hf. eins og ég lagði til við 1. umr. Það er augljóst að þegar opnað hefur verið fyrir samkeppni í þessari grein verður eitt yfir þau fyrirtæki að ganga sem starfa við þessa þjónustu. Þetta ákvæði á því við öll þau fyrirtæki er kunna að hasla sér völl í talsímaþjónustu.

Ég legg sérstaka áherslu á hversu mikilvægt það er að frv. um formbreytingu Pósts og síma verði að lögum núna. Í vaxandi samkeppni er nauðsynlegt að færa jafnmikilvægan rekstur og Póstur og sími hefur með höndum að nútímarekstrarformi. Rekstur fyrirtækis í hlutafélagsformi er mun auðveldari og sveigjanlegri en í formi B-hluta ríkisstofnunar eins og nú er. Því er þessi formbreyting nauðsynlegt til þess að hægt sé að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi og aukinni samkeppni erlendis frá.

Eitt af því sem breytist við breytt rekstrarform er skattlagning fyrirtækisins. Núverandi fyrirkomulag er þannig að fyrirtækið greiðir arð í ríkissjóð samkvæmt ákvörðun Alþingis á fjárlögum. Þessar arðgreiðslur hafa numið á undanförnum árum 850--860 millj. kr. og er óháð því hvernig rekstur fyrirtækisins er að öðru leyti. Við þá formbreytingu sem væntanleg er verða skattgreiðslur fyrirtækisins eins og gerist um önnur hlutafélög og sömuleiðis arðkröfur. Þetta skiptir gífurlega miklu máli í rekstrarumhverfi slíks fyrirtækis.

Ég ætla ekki að endurtaka rökstuðning minn frá því að frv. var rætt við 1. umr. en þar leiddi ég m.a. rök að því að breytt skattlagning gæfi aukið svigrúm til þess að gera landið að einu gjaldsvæði.

Nú er það svo að með lagningu ljósleiðarans hefur afkastageta kerfisins verið margfölduð svo gífurlega að ekki er fyrirsjáanlegt að bæta þurfi við þar á næstunni. Á einhverjum tímum hefur óréttlát verðlagning verið notuð til þess að draga úr notkun á kerfinu þar sem það bar einfaldlega ekki það magn sem til þurfti til þess að standa undir þjónustukröfum. Ég ætla ekki að afsaka þá aðferð en bendi á að nú eru alls engar forsendur fyrir slíkri verðlagningu. Í öðru lagi vil ég benda á að vegalengd er ekki teljandi kostnaðarþáttur í verðmyndun símtala þar sem stofnkostnaður hefur verið greiddur að mestu leyti af öðrum en Pósti og síma. Taxtar fyrir talsímaþjónustu hafa verið viðskiptahindranir sem sér nú fyrir endann á. Hægt er að nefna ótal dæmi um slíkt en meginmálið er að nú sér fyrir endann á slíku og margir möguleikar opnast, t.d. fyrir ýmiss konar atvinnustarfsemi á sviði fjarvinnslu. Nú verður þeim ekki lengur mismunað sem nýta sér þá miklu upplýsingaþjónustu sem nú er fyrir hendi og ótal möguleikar eru að opnast fyrir fjarkennslu. Aukið samstarf fyrirtækja verður auðveldara og ódýrara og viðskiptahindrunum í formi gjaldskrártaxta er rutt úr vegi. Boðuð hefur verið breyting á töxtum fyrir Internetþjónustu og er hún nú sú sama um allt land og skiptir það gífurlegu máli þegar litið er til þeirrar upplýsingatækni sem þar er á ferðinni.

[11:30]

Það er vert að vekja athygli á því að boðuð hefur verið gjaldskrárbreyting eftir tvo daga, þ.e. 1. júní nk. Þá breytist gjaldskráin þannig að einungis verða tveir gjaldskrártaxtar fyrir talsímaþjónustu. Þá lækka t.d. taxtar fyrir lengri langlínu að degi til um 28% og einnig verður sérstakur kvöldtaxti felldur niður og gildir dagtaxti til kl. 19 virka daga og tekur þá við kvöld-, nætur- og helgidagataxti.

Það leiðir hugann að því hversu stórstígar breytingar hafa orðið á fáum árum varðandi gjaldskrármálin. Ekki er langt síðan fólk talaði ekki saman á milli nágrannasveitarfélaga nema með sérstöku álagi, þ.e. ef undan var skilið höfuðborgarsvæðið þar sem giltu sérstakar reglur. En það var ekki lengra síðan en 1983 að menn gátu talað saman á milli Hvammstanga og Laugabakka án þess að sérstakt álag fylgdi og einnig var það á árinu 1983 sem gjöld milli Egilsstaða, Eiða og Lagarfoss voru jöfnuð. Síðan hafa þessar breytingar verið hægfara en nú á síðustu árum og sérstaklega á síðasta ári þegar gjaldskrártöxtum var fækkað úr 18 niður í 8 sem fara virkilega að gerast breytingar sem skipta máli. Eins og ég nefndi hefur verið boðuð sú breyting að einungis verði um tvo gjaldskrártaxta að ræða. Þetta hefur gerst undir forustu núv. hæstv. samgrh. og þakka ég honum sérstaklega fyrir skilning á þessu málefni. Það er ljóst að ósk mín hefði verið að umrædd breyting hefði getað átt sér stað helst á þessu ári, það er sú breyting að landið hefði verið gert að einu gjaldskrársvæði.

Ég fellst fúslega á þau rök að fyrirtækið þurfi nokkurn aðlögunartíma þegar verðlagt hefur verið með áðurgreindum hætti í nær 90 ár. Kollsteypur í rekstri eru aldrei heppilegar og því eiga þessi rök vel við. Áðurnefnd gjaldskrárbreyting í tvö gjaldsvæði er einnig mikilvægur þáttur í aðlöguninni. Ég vek þó sérstaka athygli á því að í brtt. stendur: ,,Eigi síðar en 1. júlí 1998.`` Ég les það sem svo að ekkert hindri það að þessi breyting geti átt sér stað fyrr ef forsendur eru fyrir hendi.

Að lokum ítreka ég þakkir mínar til meiri hluta hv. samgn. fyrir að hafa unnið að lausn á þessu gífurlega hagsmunamáli og það er nú komið í höfn.