Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:35:05 (6727)

1996-05-29 11:35:05# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna hástemmdra þakka hv. síðasta ræðumanns til meiri hluta samgn. langar mig til þess að það komi fram að á þskj. 998 er brtt. frá hv. þm. Ragnari Arnalds, Guðmundi Árna Stefánssyni og þeirri sem hér stendur um að landið verði eitt gjaldsvæði 1. júlí 1996. Þetta er tillaga sem var komin fram þó nokkru áður sem brtt. meiri hluta samgn. þannig að ég hef grun um að það hafi ýtt við meiri hlutanum að það skyldi vera komin frá minni hlutanum tillaga þess efnis inn í þingið. Ég hef ákveðnar efasemdir um að þessi tillaga meiri hlutans geti gengið í gegn vegna þess að það verður komið annað rekstrarumhverfi. Ég hef efasemdir um að það standist samkeppnislög að skylda þá sem eru í rekstri síma til þess að hafa sömu gjaldskrá eða þá að þjóna öllu landinu. Það hafa verið ákveðnar efasemdir uppi um það. Aftur á móti er tillagan frá minni hlutanum meiri réttarbót en tillaga meiri hluta samgn. Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni eru tveir taxtar áfangi á þessari leið en það er hægt að ná þessu öllu með því að samþykkja brtt. frá okkur þremur og þá getur hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur orðið að ósk sinni nú þegar eftir einn mánuð að það verði eitt gjaldsvæði fyrir allt landið. Ég held því að minni hlutinn eigi ákveðnar þakkir skildar og frumkvæði hæstv. forseta fyrir að hafa staðið að tillögunni því að ég efast um að án hennar hefði hin varla komið fram.