Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:17:32 (6734)

1996-05-29 12:17:32# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:17]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni að það væri illa gengið frá réttarstöðu starfsmanna í þessu frv. Ég fór mjög rækilega yfir það þegar ég mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta samgn. hvernig hefði verið staðið að þeim málum og ég mótmæli því mjög harðlega að það hafi ekki verið gengið frá þeim málum með eðlilegum hætti. Þvert á móti er auðvelt að sýna fram á það.

Það sem mig hins vegar langaði sérstaklega til þess að ræða við hv. þm. var spurningin um þessa sérstöku þriggja manna undirbúningsstjórn sem gert er ráð fyrir í meirihlutatillögunum að taki til við undirbúning að stofnun hins nýja Pósts og síma hf. Það hefur verið látið í veðri vaka og reynt að gera það tortryggilegt að þannig sé staðið að málum. Þetta held ég að sé með öllu óskiljanlegt vegna þess að í viðræðum okkar í meiri hluta og minni hluta samgn. við starfsfólk Pósts og síma var undan því kvartað að það skorti aðila sem gæti rætt við starfsfólkið og hefði til þess fullt umboð að skuldbinda hið nýja félag og taka ákvarðanir um framtíðina.

Það sem nákvæmlega er verið að gera hér er að lögfesta að þessi þriggja manna undirbúningsstjórn geti einmitt tekist á hendur viðræður við starfsmennina þannig að hægt sé að eyða þeirri óvissu sem alltaf mun koma fram og alltaf kemur fram þegar verið er að gera breytingar á rekstri eins félags. Við getum búið til ákveðinn lagaramma. En auðvitað er það þannig í fyrirtæki þar sem starfa 2.500 manns að upp koma praktísk mál sem þarf að leysa með sérstökum hætti og þá þurfa til þess bærir aðilar að hafa til þess fullt vald og það er verið að lögfesta það vald í hendur þessara þriggja manna. En ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þarna er um að ræða mjög skilgreint, afmarkað vald til þess að gera skuldbindingar svo hægt sé að stofna hið nýja félag en ekkert umfram það eins og segir í breytingartillögunum. Ef hins vegar um hefði verið að ræða almenna stjórn í þessu félagi, hefði hún getað tekið miklu víðtækari ákvarðanir, skuldbundið miklu víðtækar. En það er sem sagt ekki verið að fara þá leið, heldur einfaldlega verið að veita þriggja manna stjórn sem starfar í umboði eiganda síns skýrt afmarkað vald og síðan er gert ráð fyrir því að ný stjórn taki til starfa þegar hið nýja félag verður til.