Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:41:33 (6741)

1996-05-29 12:41:33# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:41]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að formbreyting Pósts og síma í hlutafélag og að færa grunnskólana frá ríkinu til sveitarfélaganna er ekki sambærilegt að öllu leyti. Það er samt sem áður ljóst að mörg sveitarfélög hafa verið með eigin lífeyrissjóði þannig að starfsmenn þeirra hafa ekki greitt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins heldur í eigin sjóð. Þetta hefur verið með ýmsu móti en allt er þetta þó einfaldara að þessu leyti varðandi yfirfærslu grunnskólans en þess þá heldur er hitt flóknara og erfiðara í allri úrvinnslu til að ná utan um alla þá mörgu þætti sem verða erfiðari að vinna með í hlutafélaginu en í Pósti og síma sem ríkisfyrirtæki. Þess heldur hefði þurft að einbeita öllum kröftum sínum að því að finna þær leiðir hvernig best er hægt að tryggja þetta gagnvart starfsmönnum í póstinum og símanum eftir að þeir eru komnir yfir. (ÖJ: Enda er þetta af hálfu samtakanna inni í þessum viðræðum.) Ég heyri í frammíkalli að hv. þm. Ögmundur segir að það sé verið að vinna að þessu og ég fagna því að svo sé og lýsi því enn einu sinni yfir að ég mun reyna að leggja allan kraft minn í að aðstoða við það ef þörf er á þannig að réttindi starfsmanna hjá Pósti og síma hf. verði tryggð eins og þeir hefðu starfað hjá ríkinu.