Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 13:44:52 (6744)

1996-05-29 13:44:52# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[13:44]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég mun í upphafi máls míns víkja að ýmsu því sem fram kom í máli hv. þingmanna við umræðuna í morgun. Ég mun bíða með þau atriði sem ég ætla sérstaklega að beina til hæstv. samgrh. þar sem hann er enn ókominn. Hæstv. ráðherra mun vera að sinna opinberum skyldum sínum og er ekkert við það að athuga, en hann er væntanlegur fljótlega.

Hér kom m.a. fram í máli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur og fleiri þingmanna að fram væru komnar tillögur um að gera landið að einu gjaldsvæði og er í rauninni ekkert nema gott um það að segja. En þetta segir hins vegar ekki nema hálfan sannleikann og væri fróðlegt að fá upplýst hvað stjórnvöld hyggjast fyrir í þeim efnum. Er þar átt við spurninguna um eitt þjónustusvæði vegna þess að nú koma til sögunnar ný fyrirtæki væntanlega, erlendir aðilar og hugsanlega innlendir sem munu vilja bjóða símaþjónustu á tilteknum svæðum. Þá er spurningin þessi: Hvað hyggst ríkisstjórnin í þeim efnum? Verður þeim sem koma til með að veita þjónustu á Íslandi gert að þjónusta landið allt? Í því felst að sjálfsögðu mikill kostnaður fyrir þá stofnun sem þessa þjónustu veitir að sjá til þess að hún nái til landsins alls. Þess vegna nægir ekki það eitt að tryggja eina gjaldskrá fyrir landið allt heldur verður að tryggja að landið sé að lágmarki eitt þjónustusvæði. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta síðar við umræðuna.

Öðrum hv. þingmönnum svaraði ég í andsvari en nefndi þó ekki gagnrýni sem ég vildi koma á framfæri við hv. þm. Magnús Stefánsson. Hann sagði að óeðlilegt væri að sínu mati að reka Póst og síma í því formi sem nú væri. Með því að gera stofnunina að hlutafélagi væri Póstur og sími hæfari til samkeppni en ella. Þetta eru fullyrðingar sem iðulega hafa verið settar fram en ég mun í mínu máli á eftir rekja hvers vegna ég tel þær ekki eiga við rök að styðjast.

Að sjálfsögðu komu svipaðar fullyrðingar fram hjá hæstv. samgrh. sem varaði okkur við að tala um þessi mál af léttúð, eins og hann komst að orði. Það er ekkert fjær mínu skapi en að fjalla um hlutafélagavæðingu eða einkavæðingu þessarar stofnunar af léttúð. Hann lét fylgja með í sínu máli að frestun kæmi samkeppnisaðilum til góða. Það kæmi samkeppnisaðilum Pósts og síma til góða ef því væri frestað að breyta stofnuninni í hlutafélag. Að sjálfsögðu voru engin rök færð fyrir þessari fullyrðingu. Að sjálfsögðu, segi ég. Maður er ekki vanur því að krefjast þess að ráðherrar færi rök fyrir fullyrðingum af þessu tagi, en að sjálfsögðu á þingið heimtingu á því að vita hvað hæstv. ráðherra á nákvæmlega við með þessu, hvaða samkeppnisaðila hér er um að ræða og hvernig hann rökstyður sitt mál. Það dugar ekki að slá fram fullyrðingum af þessu tagi án þess að skýra nákvæmlega hvað það er sem við er átt.

Fyrir þessu máli talaði upphaflega við þessa umræðu formaður samgn., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Hann mælti ágætlega fyrir þessu máli, en þó vil ég gera athugasemdir við hans röksemdafærslu. Hún gekk í grófum dráttum út á það að telja upp hvaða ríki það væru sem ættu póst- og símamálastofnanir sem hefði verið breytt í hlutafélög. Þetta er í rauninni orðin gamalkunn lumma og ekki einsdæmi að rök af þessu tagi, ef rök skyldi kalla, séu borin á borð, þ.e. allir hinir eru að gera það. Það eru allir að gera það. Þess vegna hljótum við að gera það líka.

En þurfum við ekki að skoða afleiðingarnar af hlutafélagavæðingu og einkavæðingu póst- og símamálastofnana hjá öðrum þjóðum og reyna síðan að færa einhver sjálfstæð íslensk rök fyrir okkar máli? Hvaða önnur rök höfum við fyir því að breyta okkar stofnun, Pósti og síma á Íslandi, í hlutafélag en þau að segja: Allir hinir eru að gera það? Þess vegna þurfum við líka að gera það. Hér kom á sínum tíma ágætur maður, Philip Bowyer, aðalritari alþjóðasamtaka póst- og símamanna og flutti mjög athyglisvert og fróðlegt erindi á Hótel Sögu. Hann vakti sérstaka athygli á þessu að einkavæðingin væri að verulegu leyti tískubylgja og hann byrjaði sitt erindi á því að segja: ,,Fuglarnir gera það, býflugurnar gera það, meira að segja menntaðar flær gera það líka. Við skulum gera það líka.`` Þetta kom mér sannast sagna í hug þegar ég hlýddi á ræðu hv. þm., Einars K. Guðfinnssonar, þegar hann talaði fyrir þessu máli í upphafi 2. umr.

Staðreyndin er sú að við þurfum að skoða hvaða afleiðingar hlutafélagavæðing, einkavæðing hefur haft þar sem farið hefur verið út á þá braut, hvaða áhrif það hefur haft á þjónustuna, hvaða áhrif það hefur haft fyrir samneysluna og ríkissjóð, hvaða áhrif það hefur haft fyrir starfsmenn hvað snertir þeirra réttindi, launakjör og þar fram eftir götunum.

Við erum að tala um fyrirtæki sem er með eiginfjárstöðu metna á um 14--15 milljarða og að auki aðrar eignir og viðskiptavild upp á um 8 milljarða. Á sínum tíma var gert mat á því hvers virði þessi stofnun væri. Þar var nefnd upphæð einhvers staðar á bilinu 20--30 milljarðar kr. Við erum því að tala um mjög dýrmæta eign íslensku þjóðarinnar. Þess vegna er mér ekkert fjær skapi en að tala um þetta af einhverri léttúð eins og hæstv. samgrh. var að vara þingmenn við að gera. Ekkert er mér fjær skapi. Og reyndar er ekkert mér fjær skapi en að standa að því að hér verði fyrir sumarbyrjun, áður en laxveiðitíminn fer í hönd og menn fara af alvöru að ræða viðskipti --- að stuðla að því að þessari stofnun verði breytt í hlutafélag. Það sem endanlega vakir fyrir mönnum er ekki bara að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Það sem endanlega vakir fyrir mönnum er að selja þessa stofnun og selja hlutina í þessari stofnun. Þess vegna er fylgst með málinu af miklum áhuga af hálfu þeirra sem eiga peninga í þessu þjóðfélagi, stórra, fjársterkra fyrirtækja sem stundum hafa verið kennd við kolkrabbann og fjársterkra aðila sem vilja koma sínum peningum til arðsköpunar. Það er fylgst með því af áhuga af hálfu þessara aðila hver framvindan verður hér. Að sjálfsögðu vilja þessir aðilar að fyrirtækinu verði breytt í hlutafélag og það síðan selt. Þetta er fyrirtæki sem hefur skilað inn til samneyslunnar á annan milljarð kr. á hverju ári, á annan milljarð kr. Hagnaður í fyrra mun hafa verið 1,6 milljarðar. Hvar ætla menn að ná í þessa peninga þegar Póstur og sími hefur verið hlutafélagavæddur og seldur? Því að það er það sem gerist. Það verður væntanlega seilst eftir þeim fjármunum ofan í vasa skattborgaranna. Það verður gert. Þetta er þróun og þetta er nokkuð sem hefur gerst alls staðar þar sem hefur verið farið út á þessa braut. Alls staðar hefur verið nákvæmlega það sama uppi á teningnum. Það er bara byrjað á því að tala um að gera stofnunina að hlutafélagi og stundum hefur jafnvel verið talað opinskátt um hlutina þannig.

Hér kom sérstakur kennimaður fyrir nokkrum árum á vegum Vinnuveitendasambandsins til að kenna mönnum hvernig ætti að standa að einkavæðingu. Hann talaði þar sérstaklega um það sem hann kallaði hið gullna bréf. Það gekk út á að búa til eitt hlutabréf sem væri í vörslu ríkisins. Þar var það látið bíða í fáein missiri eða ár og síðan var því deilt niður eða selt.

Í fyrrahaust fór samgn. til Noregs og Danmerkur til að kynna sér hlutafélagavæðingu þar. Þar gerðist þetta nákvæmlega eins og hér. Það átti að semja við starfsmenn, ég held að það sé ekki búið að ganga frá því enn þá í Noregi. Og þar var þingmönnum sagt, íslenskum þingmönnum, að ekki stæði til og kæmi ekki til greina að selja norska símann, hann yrði ekki seldur. Þegar menn efuðust voru færð alls kyns rök fyrir þessu. Norðmenn væru svo ríkir, norska ríkið væri svo ríkt að það þyrfti ekki á því að halda að selja. Það er verið að auglýsa þessi bréf núna. Hvers vegna? Vegna þess að menn eru að fara úr einu kerfi í annað þar sem menn ætla að nýta markaðinn væntanlega. Til hvers eru menn að þessu? Til að nýta kosti markaðarins, samkeppnina úti á markaðinum og eftirlitið inn á við sem eru væntanlega hluthafarnir. En það á ekkert að gera af þessu hér. Það er byrjað á því að setja gjaldskrár, njörva þær niður. Síðan er eitt stórt hlutabréf sett undir einn mann, hæstv. samgrh. Það á ekki að nýta kosti markaðarins á neinn hátt. Svo eru menn að tala um einhverja nútímavæðingu. Ég veit ekki hver það er sem er að tala af léttúð um þessi mál, en mér finnst þetta vera allt að því grátbroslegt.

Þar sem svo mikið er skírskotað til útlanda hef ég velt því mikið fyrir mér hvort það er mikið í alþjóðlegum skuldbindingum sem kveður á um nauðsyn þess að gera Póst og síma að hlutafélagi. Er eitthvað í alþjóðlegum skuldbindingum sem kveður á um að Póstur og sími verði gerður að hlutafélagi? Nei. Það er ekkert í alþjóðlegum skuldbindingum sem kveður á um þetta, ekki neitt. Það er hins vegar ákveðin stefna í þá átt að losa um einkaleyfin og í Evrópu verður losað um einkaleyfið í lok næsta árs, 1997, um áramótin 1997/1998. Þá munu ríkisstofnanirnar sem áður voru og víða eru orðnar að hlutafélögum ekki hafa einkaleyfi til þessarar þjónustu. Það er að breytast. En það kemur eignarhaldinu ekkert við. Það hefur ekkert með eignarhaldið að gera. Það er afnám einokunarréttar en hefur ekkert með einkaréttinn að gera.

[13:45]

[14:00]

Er það eitthvað í EES-skuldbindingum eða Evrópu-skuldbindingum sem veldur því að við þurfum að afnema eignarhald íslenska ríkisins á Pósti og síma? Nei, ekki neitt. En hér er að ýmsu að hyggja. Ég held að ein ástæðan fyrir því að ýmsir forsvarsmenn Pósts og síma hafa verið fylgjandi þessari breytingu sé sú að þeir telja sig betur geta varist Verslunarráði og samkeppnisráði með því að breyta stofnuninni í hlutafélag. Ég held að það sé staðreynd. Ég held að þeir telji að stofnuninni verði betur borgið gagnvart þessum innlendu aðilum sem hafa hamast á Pósti og síma í langan tíma og reynt að búta stofnunina niður með því móti að hún verði gerð að hlutafélagi. Það sem er og hefur verið að gerast ekki bara hjá Pósti og síma heldur hjá ýmsum stofnunum í ýmsum opinberum rekstri er að til sögunnar koma aðilar sem eru að færa sig inn á verksvið sem áður voru einvörðungu á hendi opinberra aðila. Það verður skörun, þar verður samkeppni. Opinbera þjónustan er iðulega hluti af stærri starfsemi og stærri stofnun. Þessi nýju fyrirtæki kæra, til samkeppnisráðs, samkeppnisráð skoðar málið og gerir kröfur til viðkomandi stofnunar um að aðskilja viðkomandi rekstur þannig að hann sé ekki niðurgreiddur. Þetta hefur verið að gerast með notendabúnaðinn hjá Pósti og síma og þetta hefur verið að gerast í lyfjadreifingu, nú síðast hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þannig mætti áfram telja. Þetta er þróun sem er að eiga sér stað. Það er þetta sem ég vék að hér áðan þegar ég var að tala um þessa kvöð sem verið er að setja á gjaldsvæðið. Hvað með þjónustusvæðið? Menn þurfa líka að gaumgæfa mjög rækilega þá hlið á málinu. Þetta liggur í augum uppi gagnvart póstþjónustunni þar sem koma til með að rísa samkeppnisfyrirtæki, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þau munu væntanlega kæra til samkeppnisráðs og þar kemur krafa um að búa til sjálfstæðar einingar innan póst- og símaþjónustunnar. En stóra málið er þetta: Hvaða kvaðir eru á stofnununum varðandi landið allt og miðin vegna þess að við búum í þessu strjálbýla landi þar sem við erum sífellt og stöðugt að færa fjármuni á milli póst- og símasviðsins? En punkturinn er sá að ég tel að ýmsir sem eru ekkert sérstaklega áhugasamir um að gera stofnunina að hlutafélagi líti svo á að það sé hægt að verjast þessum aðilum, Verslunarráðinu sem er að koma fram fyrir hönd smárra fyrirtækja og samkeppnisráði sem er orðið kaþólskara en páfinn í þessu eftirlitshlutverki með markaðnum. Menn telja að þeir geti varist þessum aðilum betur með því að gera stofnunina að hlutafélagi. Þetta held ég að sé eitt sjónarmiðið. Ég held hins vegar að það sé rangt. Það er ekki rangt að því leyti að það kunni að vera einhverjar pólitískar ástæður fyrir því að menn komi til með að láta hlutafélög meira í friði en ríkisfyrirtæki. Það kunna að vera pólitísk rök, einhverjar pólitískar ástæður. En það er ekkert í skipulagsformi stofnunarinnar sem hefur þetta í för með sér. Ekki neitt. Þar gilda nákvæmlega sömu sjónarmið gagnvart hlutafélagi og gagnvart fyrirtæki eða stofnun í eigu ríkisins svo fremi sem um er að ræða sjálfstæða fjárhagslega einingu. Það er það sem máli skiptir. Nú hafa menn verið að stíga þau skref gagnvart Pósti og síma á undanförnum árum að gera stofnunina algjörlega að sjálfstæðri einingu, t.d. varðandi lífeyrisskuldbindingar þar sem skuldbindingar eru færðar inn á reikninga, ekki aðeins hjá Pósti og síma heldur öðrum opinberum stofnunum einnig.

Síðan er það þessi röksemd sem snýr að sveigjanleikanum. Ætla ég nú að gera hlé á máli mínu þangað til formaður samgn., hv. þm. birtist, --- kom fagnandi --- í dyragættina hér. Ein meginröksemdin sem reidd hefur verið fram er að form hlutafélags bjóði upp á meiri sveigjanleika en ríkisstofnun og geti þannig átt dótturfyrirtæki, geti fjárfest í öðrum fyrirtækjum og þar fram eftir götum. En hver er veruleikinn í þessum efnum? Skyldi það vera svo að Póstur og sími gæti ekki keypt hlutafélög eða dótturfyrirtæki eða fjárfest eða hagað sér á markaði eins og önnur fyrirtæki?

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, segir orðrétt, með leyfi forseta. ,,Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.``

Þetta ætti væntanlega einnig við um hlutabréfakaup. Nú er það svo að sett eru sérlög um stofnanir sem hafa heimilað þetta. Það er hægur vandinn að setja sérlög um stofnanir til að heimila þetta. Hvernig skyldi á því standa, svo dæmi sé tekið að Vegagerð ríkisins keypti á árinu 1992 hlutabréf fyrir 10 millj. kr. í Speli hf. sem er hlutafélag sem stofnað var til að gera jarðgöng undir Hvalfjörð? Hlutabréfaeign Hafrannsóknastofnunar er 7,5 millj. kr. tæplega. Hvernig gerðist það? Jú, með breytingu á lögum nr. 64/1965 sem gerð var á árinu 1990, sbr. lög nr. 132/1990, var Hafrannsóknastofnuninni heimilað að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og sjútvrh. að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti rannsóknar- og þróunarverkefni sem stofnunin vinnur að hverju sinni. Hlutabréfaeign Iðntæknistofnunar nemur rúmum 3,3 millj. kr. Þegar þessi mál eru skoðuð þá eru hlutabréf sem bókuð eru hjá einstökum A-hluta stofnunum 35,7 millj. kr. en hlutafé og stofnfé í eigu fyrirtækja og sjóða í B-hluta er tæpur 1 milljarður kr. Ég man ekki betur en að hér við umræðuna hafi því ítrekað verið hreyft og ítrekað um það rætt að fyrirtæki í eigu ríkisins gætu ekki tekið þátt í markaðsviðskiptum, gætu t.d. ekki fjárfest í dótturfyrirtækjum eða keypt hlutabréf. Hér kemur á daginn að hlutafé og stofnfé í eigu fyrirtækja og sjóða í B-hluta er tæpur 1 milljarður og hjá A-hlutastofnunum nemur það tugum milljóna. Það þarf ekki annað en breytingar á lögum til þess.

Höldum aðeins áfram með sveigjanleikann vegna þess að þetta er meginröksemdin sem sett hefur verið fram í þessu máli, þ.e. fyrirtæki á markaði, hlutafélög, séu sveigjanlegri en ríkisfyrirtæki. Skal ég játa það með fullri virðingu fyrir hv. formanni samgn. og öllum öðrum þingmönnum, sem á þetta hlýða, að ég hefði mikið viljað að hæstv. samgrh. hefði tekið þátt í umræðunni þótt ég hafi skilning á því að hann þurfi að sinna opinberum skyldum. Hæstv. samgrh. hefur ítrekað verið að setja fram fullyrðingar um þessi efni og mér finnst að hann verði að færa rök fyrir máli sínum og skýra það þegar þeim er mætt með gagnrökum og upplýsingum. En ég var að ræða um sveigjanleikann. Það er sagt að það sé auðveldara að taka ákvarðanir þegar um er að ræða hlutafélög en ríkisfyrirtæki. Menn tala um að það þurfi að færa það til nútímalegri stjórnunarhátta, o.s.frv. Hvernig er þetta í rauninni? Halda menn virkilega að stjórnir í fyrirtækjum þurfi ekki að standa ábyrgar gagnvart einhverjum aðilum? Halda menn það virkilega? Halda menn t.d. að það séu ekki hluthafafundir? Við erum að tala um tvenns konar fyrirkomulag í megindráttum. Við erum að tala um ríkisfyrirtæki sem lúta almannavilja sem er þá í gegnum þing og ríkisstjórnir. Ráðherra setur iðulega stjórnir yfir fyrirtæki. Hins vegar erum við að tala um annað form, þ.e. markaðinn. Eftirlitið og aðhaldið á markaði gerist á tvennan hátt. Annars vegar er það verðsamkeppni út á markaðnum og hins vegar er það aðhald eigendanna. Það eru hluthafafundir sem eru stundum svolítið róstursamar samkomur eins og við höfum séð, þegar aðalfundur Stöðvar 2 t.d. kemur saman. (Gripið fram í: Eða í Íslandsbanka með Pétri H. Blöndal.) Eða Íslandsbanka með hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég veit ekki hvort hann situr þar enn þá. Þetta er tvenns konar form. Nú á að nýta hvorugt. Það á að draga úr eftirliti almannavaldsins, taka það frá ríkisstjórn og þingi þó ráðherra komi til með að verða háður þingi að sönnu, setja eitt hlutabréf undir einn mann, það eru engir hluthafafundir þar nema hæstv. ráðherra komi og bjóði sjálfum sér í kaffi. Með öðrum orðum er verið að tala um að fara í nútímalegra viðskiptaumhverfi og nútímalegri stjórnunarhætti eins og hv. þm. Magnús Stefánsson sagði áðan án þess að nýta sér þá kosti sem þessi margrómaði markaður hefur upp á að bjóða. Þetta finnst mér vera mótsögnin í þessu öllu saman. Þá fer maður að spyrja sjálfan sig til hvers er þessi leikur eiginlega gerður vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að þegar gerð er breyting á eins dýrmætri eign og þjóðareign okkar er, Póstur og sími, sé ekki verið að plata fólk. Það finnst mér mjög mikilvægt.

Hreinn Loftsson, sem er formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu hjá ríkisstjórninni, segir í viðtali í BSRB-tíðindum í febrúarmánuði, með leyfi forseta:

,,Sumir segja að rekstrarformið skipti öllu en ekki eignarhaldið. Ég er annarrar skoðunar. Það er eignarhaldið sem skiptir öllu. Þetta eru aðskildar ákvarðanir í tíma. Það er í mörgum tilvikum skynsamlegt að breyta rekstrarformi fyrirtækja fyrst og gera þau að góðri söluvöru áður en þau eru seld. Nokkur ár geta liðið þarna á milli. Menn eiga að hafa þetta í huga. Reynsla erlendra sérfræðinga er eindregið sú að það sé einungis skynsamlegt að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög sé ætlunin að selja þau. Hlutafélagavæðingin er bara fyrsta skrefið að mínu áliti.``

[14:15]

Tilvitnun í Hrein Loftsson, formann einkavæðingarnefndar eða framkvæmdanefndar um einkavæðingu, sem starfar á vegum ríkisstjórnarinnar. Mér finnst yfirlýsing af þessu tagi vera mjög heiðarleg og raunsæ vegna þess að þrátt fyrir þær yfirlýsingar um hið gagnstæða sem eru gefnar nánast alls staðar þar sem farið hefur verið úr á þessa braut hafa þær hvergi staðist. Enda er leikurinn til þess gerður að fara úr ríkisrekstri, ríkiseignarhaldi yfir á markað. Þá eiga menn að segja það hreint út og opinskátt. Mér finnst það vera sjónarmið út af fyrir sig þó ég sé ósammála þeim að segja: Þessi starfsemi er öll að verða mjög alþjóðleg, hún er að fara upp í háloftin og gervitunglin og eina leiðin er að fara inn í stærri fjölþjóðlegar samsteypur og taka þátt í þeim til að viðhalda lífi og þar með starfseminni hér og starfsöryggi o.s.frv. Það er lífvænlegast fyrir okkur. Þetta finnst mér vera röksemd en ég er ekki sammála henni. Þetta er byggt á líkindareikningi. En að segja: Við erum orðnir nútímamenn með því einu að gera þetta að hlutafélagi, búa til eitt hlutafélag og setja það undir hæstv. samgrh. Hver trúir þessu? Það sem mér finnst verst við þetta er að því miður held ég að það séu afar fáir sem trúa þessu. Sumir vilja trúa þessu og sumir gera þetta til að koma málinu í gegn. En ég held að þetta verði ekki raunin. Mín skoðun er sú að leiðin til að verja þessa stofnun sé að efla hana eins og gert hefur verið. Þetta er mjög sterk og öflug stofnun. Þetta tal um nauðsyn þess að gera hana að hlutafélagi með einu hlutabréfi undir einum manni er svo hlægilegt, er svo fráleitt, þar sem ekki á að nýta eftirlitsaðhald frá hluthöfum eða markaðnum. Ég veit ekki hver trúir þessu. Ekki geri ég það.

En víkjum aðeins nánar að þessu með sveigjanleikann. Að það þurfi sveigjanlegar og skjótar ákvarðanir. Nú er það svo að á liðnum árum hafa verið teknar skjótar ákvarðanir. Ég held að allir muni hvernig Póstur og sími brilleraði um árið þegar leiðtogafundurinn var haldinn og vann þrekvirki með mjög ákvörðunum og markvissum vinnubrögðum. Hér hefur verið lagður ljósleiðari sem nær hringinn í kringum landið. Sæstrengur lagður. Það er ráðist í alls kyns framkvæmdir þar sem þetta rekstrarform hefur ekki staðið í vegi þess að við eigum einn tæknivæddasta síma í heiminum sem þar að auki bíður upp á lægstu innanlandssímgjöld á byggðu bóli. Það er von að mönnum liggi á að breyta.

Á þriggja mánaða fresti er gerður verðsamanburður á vegum Eurodata Foundation á símgjöldum víðs vegar um heiminn. Í janúar var gerð slík könnun og birt þremur mánuðum síðar. Þar kemur fram að símgjöld á Íslandi eru lægri en annars staðar. Ég ætla aðeins að nefna nokkrar tölur í þessu sambandi. Lítum á ársfjórðungsgjald af síma. Þetta eru tölur sem eru birtar í mars og miðað við gengi frá 6. mars var ársfjórðungsgjald af heimilissíma 1.382 kr. á Íslandi, atvinnusíma 2.764 kr. Í Danmörku var heimilissíminn 3.484, í Noregi 3.661, í Svíþjóð 3.253 og fyrir atvinnusímann 5.044, í Finnlandi 3.221, í Bretlandi 2.522 og fyrir atvinnusíma 4.086, í Þýskalandi 3.322. Ég minni á að á Íslandi er gjaldið langlægst eða 1.382 kr. Á Íslandi er þar að auki notkun fyrir 664--1.382 kr. innifalin í ársfjórðungsgjaldinu og fyrir 314 kr. reyndar í Þýskalandi. Annars staðar er ekki innifalin notkun. Þessi munur er eftir því hvar á landinu menn eru búsettir. Með öðrum orðum á meðan Ísland er með ársfjórðungsgjald upp á 1.382 er draumalandið Bretland með 2.522 og 4.086 fyrir atvinnusíma á móti 2.764 fyrir atvinnusíma á Íslandi eða miklu lægra. Farsímagjöldin eru kapítuli út af fyrir sig. Á Íslandi eru farsímagjöldin 1.519 og 1.899 eftir því hvort kerfið er um að ræða GSM, eða NMT. Í Danmörku er þessi upphæð 2.796, 4.778 í Noregi, í Svíþjóð 4.276 og 3.655, í Þýskalandi 11.786 og 12.500 í öðru kerfi. En á Íslandi var það 1.519 og 1.899 eftir því hvort kerfið var um að ræða. En ég sleppti tveimur löndum. Ég sleppti Finnlandi og Bretlandi og ætla að taka þau núna. Í Bretlandi er farsímagjaldið 19.724 og 5.341. Þar í landi geta menn valið um það hvort þeir borga hátt afnotagjald og lægra mínútugjald eða öfugt en fyrir þrjár mínútur í Bretlandi eru 82,50 kr. með dýrara kerfið og þarf því þá að borga afnotagjald upp á tæplega 20.000 kr. Ef dýrara mínútugjald er valið eða 152,45 kr. þá er farsímagjaldið 5.341. En líka í þessum mínútugjöldum, jafnvel í ódýrasta tilvikinu í Bretlandi, þar eru Íslendingar miklu lægri, 49,80 kr. á móti 82,50 kr.

Ég ætla ekki að fara að þreyta menn með frekari upplestri hér úr tölum en þegar menn segja og nota það sem röksemdir í máli sínu að aðrir séu að breyta og við bara verðum að breyta þarf náttúrlega að skoða afleiðingarnar erlendis. Það þarf að skoða og færa rök fyrir að hér sé eitthvað mikið að sem þurfi að laga. Ef maður ætlar að gera við eitthvað verður maður að vita hvað er bilað. Hér erum við að sýna fram á að við erum með langlægstu gjöld í öllum heiminum. En getur verið að í tilvikinu Bretland séu fastagjöld séu svona há, fyrir farsíma 19.724 á móti 1.519 á Íslandi, vegna þess að stofnunin þar hafi verið einkavædd? Nei, það held ég að sé ekki öll skýringin, aldeilis ekki. En að hluta til, að hluta til. Við skulum ekki gleyma því að það er dýrt að keppa líka. Samkeppni getur verið dýr líka. Ég veit ekki hvað það er langt síðan hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór til Lundúna og ég veit ekki hvort hann hefur fengið símkort í hendur og ég veit ekki hvort hann hefur verið svo óheppinn að lenda inn í símklefa sem passar ekki hans korti vegna þess að svona birtist samkeppnin notendum í Lundúnum. Þar eru komin fleiri en eitt fyrirtæki sem keppa en fyrir notandann kostar þetta iðulega aukið óhagræði og fyrir þjóðina að sjálfsögðu aukinn tilkostnað vegna þess að það þarf að fjölga þessum símklefum og öllum þessum búnaði. Með öðrum orðum, samkeppnin kostar sitt. Ekki er nóg með þetta, eða vita menn hver er blómlegastur atvinnuvegur í Bretlandi um þessar mundir eða hjá þeim ríkjum sem hafa farið ut á þá braut að einkavæða starfsemi sem hefur nánast einokandi aðstöðu á markaði? Þar hafa sprottið upp eftirlitsstofnanir OFFTEL, off þetta og hitt, sem eiga að fylgjast með, nánast að hætti sovétskipulagsins, stórar úttútnandi skrifræðisstofnanir til að fylgjast með samkeppninni. Hver halda menn að sé tilkostnaðurinn af þessu? Það er þegar byrjað að tala svona hérna. Það er sagt að það eigi að fylgjast með stofnuninni. Það er þegar byrjað að setja henni skorður. Ein gjaldskrá. Ég er farinn að gera kröfur um meira. Ég spyr: Á ekki að vera eitt þjónustusvæði? Á ekki að skylda þann aðila sem kemur inn á markaðinn hér til að sjá til þess að hann veit öllum landsmönnum þjónustu? Ekki bara í Reykjavík. Ekki bara á Akureyri, heldur líka á Vestfjörðum, á Ísafirði og Bolungarvík. Þetta eru spurningar sem við þurfum að fá svör við. Mér finnst alveg afleitt að við skulum halda umræðunni áfram án þess að sá aðili sem er endanlega ábyrgur skuli koma hingað. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta hvort eitthvað sé vitað um ferðir hæstv. samgrh.

(Forseti (RA): Mér er ekki kunnugt um hans ferðir. Hann er ekki kominn í húsið.)

[14:30]

Ég á mikið eftir af máli mínu þannig að ég get haldið áfram að fara yfir þessi mál. Mér finnst hins vegar afleitt að vera að reyna að færa rök fyrir máli mínu gegn þessum umfangsmiklu og að því er ég vil meina örlagaríku breytingum án þess að hæstv. samgrh. hlýði á þær röksemdir. En þetta kostar það náttúrlega að ég þarf að rifja upp helstu atriðin þegar hann kemur hingað.

Ég nefndi áðan að nauðsynlegt væri að draga lærdóma af einkavæðingunni í útlöndum. Eins og ég sagði áðan voru svipaðar röksemdir uppi þar og viðhafðar hafa verið hér, þ.e. allir hinir eru að gera það, meira að segja líka á Norðurlöndunum. Sú röksemd kom fram fyrr í dag að í Danmörku ætluðu menn meira að segja að fara að gera póststofnunina sem er fyrirtæki þar í landi í eigu ríkisins að hlutafélagi. Það eru rök sem eru sett fram hér fyrir því að Íslendingar breyti Pósti og síma í hlutafélag. Það er sett fram sem rök í málinu en ekki sem upplýsingar.

Þegar einkavæðingartískan gekk yfir í Bretlandi á síðasta áratug og reyndar einnig þessum var þetta keyrt fram af svipaðri áfergju og svipuðu dómgreindarleysi og gert hefur verið hér á landi með ýmsa einkavæðingu. En það er ekki fyrr en núna að menn eru að átta sig á afleiðingunum. Átta sig á afleiðingum þess að einkavæða t.d. vatnsveitufyrirtæki í Bretlandi. Nú er svo komið að jafnvel hið virðulega en íhaldssama dagblað, Daily Telegraph, birtir reglulega fréttir af afleiðingum einkavæðingar þjónustufyrirtækja í Bretlandi. Nú síðast var ítarleg frétt um einkavæðingu vatnsveitu einhvers staðar í Bretlandi. Það er nú svo komið þar að starfsmönnum vatnsveitunnar er ráðlagt að klæðast ekki lengur einkennisbúningum vegna þess að það er gerður aðsúgur að þeim. Ég er ekki að færa þetta fram sem rök gegn því að breyta Pósti og síma í hlutafélag en fyrst menn fara út á þessa braut vil ég bara nefna þetta að afleiðingarnar eru að koma í ljós víða erlendis. Áðan var ég kominn lítillega inn á það að spyrja hvort það gæti verið að þessi okkur hagstæði verðsamanburður væri til kominn vegna þess að við værum með ríkisfyrirtæki en hinir með einkafyrirtæki. Ég segi nei, en að hluta til. Vegna þess að einkaaðilar sem kaupa fyrirtæki gera það væntanlega til að hafa eitthvað fyrir sinn snúð, til að fá arð af fyrirtækinu, taka hann út úr fyrirtækinu. Að vísu má til sanns vegar færa að íslenska ríkið hafi gert þetta eins og ég vék að áðan, það hefur tekið á annan milljarð á ári hverju út úr fyrirtækinu. En það eru peningar sem nýtast þó í samneyslunni hér. Ég vitnaði áðan í erindi sem Philip Bowyer, aðalritari alþjóðasamtaka póst- og símamanna flutti 11. maí árið 1992, fyrir fjórum árum, um einkavæðingu póst- og símafyrirtækja. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þennan bækling, með leyfi forseta:

,,Þeir sem keyptu hlutabréfin hafa líka hagnast. British Telecom skilar miklum hagnaði hvað sem tölum um hagkvæmni og framleiðni líður. Það skilar reyndar mestum hagnaði allra símafyrirtækja í heimi. Það skilar 22% arði af fjárfestingu og hagnaðurinn á síðasta ári nam 27 milljörðum punda sem þýðir að fyrirtækið hagnast um 100 pund á hverri sekúndu. Það þýðir líka að unnt er að greiða hluthöfum ríflegan arð. Fyrir einkavæðingu áttu auðvitað allir hlut í British Telecom. Hins vegar njóta aðeins hluthafar arðsins núna en það er auðvitað markmið með einkavæðingu að hluthafar fái arð af fjárfestingunni. Ég gæti líka bent á,`` segir Philip Bowyer áfram, ,,að stjórnarformaðurinn hefur hagnast vel á öllu saman. Hann á hlutabréf auk þess sem hann þiggur rífleg laun og eru heildartekjur hans árið 1991 áætlaðar um 1,2 millj. dollara.``

Það sama hefur gerst í breska símanum og gerðist í norrænu símafyrirtækjunum sem voru gerð að hlutafélögum. Þar breyttust launahlutföll. Forstjórarnir og þeir sem standa ofarlega í stjórnsýslu stofnunarinnar hækkuðu stórlega í launum en aðrir stóðu í stað eða lækkuðu. Vinnandi höndum fækkaði. Það hefur hins vegar ekki gerst aðeins vegna þess að fyrirtækinu var breytt í hlutafélag heldur er komin til sögunnar tækniþróun og tækninýjungar sem valda því að störfum fækkar. En einkavæðingin herðir að þeirri þróun einfaldlega vegna þess að það liggur í eðli málsins að eigendur, þeir sem njóta þess arðs sem ég var að víkja áðan að, gera þá kröfu að fá sem mest fyrir sinn snúð, sem mesta peninga fyrir sem minnsta vinnu innta af hendi af sem fæstu fólki. Einkavæðingin herðir því á þessu atvinnuleysishjóli. Hún ein er þess ekki valdandi að það fækkar í þessari starfsemi, hins vegar herðir hún á þeirri þróun. Arðsemiskrafan, hagnaðarkrafan, herðir á þessari þróun.

Hverjir hagnast þá á þessum breytingum? Hverjir eru það sem hagnast á því að breyta símafyrirtækjunum í hlutafélög? Það eru fjárfestarnir sem eignast fyrirtækið og taka út arðinn. Það eru iðulega topparnir í þessum stofnunum. En þeir sem bera skarðan hlut eru iðulega notendur. Þeim er boðið upp á slakari þjónustu. Það eru skattgreiðendur sem verða af peningum, það þarf að sækja nýja peninga væntanlega ofan í þeirra vasa og það eru hinir almennu starfsmenn. Það eru þessir aðilar sem bera skarðan hlut frá borði.

Herra forseti. Ég óska eftir að fá að gera hlé á mínu máli þar til samgrh. verður kominn hingað aftur. Ég stóð í þeirri trú að hæstv. samgrh. yrði við síðari hluta ræðu minnar og ég mun ekki ljúka henni ef hæstv. forseti leyfir nema samgrh. sé hér á staðnum.

Ég leyfi mér að bíða eftir úrskurði hæstv. forseta þingsins.