Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 15:19:34 (6747)

1996-05-29 15:19:34# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[15:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir mjög athyglisverða ræðu. Ég er honum sammála um margt, t.d. þann skilning að einu og sama gjaldsvæðinu þurfi að fylgja sömu þjónustukvaðir. Hins vegar er ég ekki viss um að þetta liggi eins í augum uppi og hann nefnir. Ég veit að sumir ætla að til sögunnar komi símafyrirtæki sem komi til með að bjóða símaþjónustu á afmörkuðum svæðum án þess að sú þjónusta taki til landsins alls. En ég er hins vegar hv. þm. Agli Jónssyni sammála um þetta efni.

Eitt atriði vildi ég leiðrétta ef um misskilning er að ræða. Það er að menn sakni skattlagningarinnar, eins og hv. þm. orðaði það, og á væntanlega við þær milljónir sem renna í ríkissjóð frá Pósti og síma, á annan milljarð á ári hverju. Ég sakna ekki þessarar skattlagningar. Ég sakna þessara peninga ef þeir renna til nýrra eigenda. En eins og ég kom að í mínu máli áðan bendir allt til þess að það fari hér eins og gerst hefur í öðrum ríkjum þar sem menn hafa farið inn á þessa braut. Þessar stofnanir, póst- og símamálastofnanir, eru seldar á markaði þannig að ég sakna þessara fjármuna út úr samneyslunni. Það voru mín orð.

Ég er ósammála hv. þm. Agli Jónssyni að því leyti að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru ekki til þess fallnar að forða okkur frá því að atburðarásin taki af okkur völdin, eins og hv. þm. komst að orði. Þvert á móti erum við að fara að dæmi annarra þjóða um einkavæðingu og því miður með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þær afleiðingar eru ekki góðar eins og ég færði rök fyrir í mínu máli áðan.