Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:05:36 (6760)

1996-05-29 16:05:36# 120. lþ. 151.10 fundur 533. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (gjaldflokkar fólksbifreiða) frv. 48/1996, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:05]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Spurt er um hugsanlegt tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga. Eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni liggur það alls ekki fyrir hvort tekjutap ríkissjóðs beint verði svo mikið. Það fer eftir því hvaða áhrif þetta hefur á sölu á bifreiðum.

Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að í gögnum sem nefndinni voru fengin kemur fram í könnun sem gerð var á vegum þýskra tryggingafélaga að líkur á banaslysi í bíl sem vegur 800 kg séu 2,5 sinnum meiri en í bíl sem vegur 1.200 kg. Með sama hætti er bent á það líka að notkun öryggisbeltis dregur 50% úr líkum á því að notandi látist í umferðarslysi en sé líknarbelgur til staðar í bíl sem er nú yfirleitt orðinn í stærri og dýrari bílum dregur það 66--75% úr líkum á banaslysi. Með sama hætti má taka tölur um varanlegt líkams- og heilsutjón annars vegar í þessum litlu burðarminni bílum og hins vegar þeim sterkari og vega og meta síðan hver áhrifin verða á ríkissjóð, bæði til skamms og langs tíma litið. Þegar litið er til lengri tíma, þá er það ekki nokkur vafi í mínum huga að ef menn vega saman þessi líkams- og heilsutjón, sem fólk verður fyrir úr minni bílunum, og síðan stundarhagsmuni ríkissjóðs hvort tolltekjur eða vörugjaldstekjur minnka eitt árið eða svo að til lengri tíma litið er samanburðurinn mjög hagstæður fyrir þær breytingar sem hér er verið að gera.