Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 11:25:35 (6815)

1996-05-30 11:25:35# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[11:25]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri nýbreytni í sölum Alþingis að óbreyttir stjórnarliðar séu farnir að koma hér og tjá sig um efni frv. sem hér er til umræðu. Það er svo sannarlega stílbrot af hálfu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar að koma og tjá sig um efni þessa máls því staðreyndin er sú að stjórnarliðar hafa yfir höfuð ekki tjáð sig um málið, þeir eru a.m.k. teljandi á fingrum annarrar handar. Og ég vil segja það til hróss hv. þm. Pétri Blöndal og taka undir með ræðumanninum á undan að hann er þó einn af þeim fáu stjórnarliðum sem virðast hafa sett sig mjög vel inn í þessi mál sem verið er að ræða, kynnt sér þau mjög ítarlega, farið mjög ítarlega ofan í allar umsagnir í félmn. og tekið þátt í umræðum og andsvörum.

Ég verð að segja það að ég er ekki sammála hinum ágæta flokksbróður mínum, hv. þm. Kristni Gunnarssyni, að stjórnarandstöðunni hafi haldist illa á málflutningi sínum. Ég get alla vega ekki séð að það sé að takast illa upp með málflutning þegar miðað er við þá vinnu sem hefur verið lögð í þessi mál. Stjórnarandstaðan hefur verið að reka ákveðna pólitík. Það er svo einfalt mál. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan náð samstöðu um þetta mál vegna þess að þar skilur með henni og stjórnarflokkunum að það er ákveðin pólitík sem við höfum verið að reka hérna. Ég er líka sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um það að Sjálfstfl. hefur verið mjög þokukenndur á bak við þessar breytingar og þau mál öll sem snerta þetta frv. og í raun og veru komist upp með að vera í nánast einhvers konar reykskýi. Ég er alveg sammála henni um það að hann hefur ekki birst í sinni réttu mynd í þessu máli. Það kom til umræðu áðan hvort kjósendur væru þá líka í þoku. Ég held satt best að segja að kjósendur hafi verið í þoku þegar þeir greiddu atkvæði í kosningum í vor hvað þessi mál varðar. (EOK: Lítil þjóð.) Það má vel vera, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. En staðreyndin er einfaldlega sú, eins og margoft hefur verið rakið í umræðunum, að þessir tveir flokkar ráku ekki þá pólitík sem verið er að sýna í þinginu í dag, fyrir kosningar.

Mér heyrist á þeim þingmönnum sem talað hafa í umræðunni í dag að þeir geri sér enn vonir um að hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin snúi frá villu síns vegar og dragi frv. til baka. Ég er ekki jafnvongóð. 3. umr. er hafin um málið og þótt ég teljist frekar bjartsýn að eðlisfari hef ég gefið upp vonina um að ríkisstjórnin sjái að sér og dragi frv. til baka þrátt fyrir eindregin tilmæli sameinaðrar verkalýðshreyfingar. Það sem hefur gerst smám saman á meðan Alþingi hefur verið að ræða þessi mál, frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, þá hafa atvinnurekendur fært sig æ meira upp á skaftið. Skilaboðin úr Garðastrætinu verða æ skýrari og það er kannski ekkert skrýtið vegna þess að ríkisstjórnin sem nú er við völd er þeirra megin í tilverunni. Hún hefur sýnt það mjög skýrt og skorinort og það launafólk sem batt vonir við að Framsfl. mundi kannski að einhverju leyti taka undir þeirra málstað hefur væntanlega gefið upp þá von vegna þess að ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um það að bæta réttarstöðu launafólks. Hún er ekki að ráðgera að koma á bættu starfsöryggi eða atvinnulýðræði. Það er ekki til umræðu í hæstv. ríkisstjórn eftir því sem ég best veit, alla vega ekki í þinginu. Ríkisstjórnin er ekki vön að vinna með verkalýðshreyfingunni, hún tekur þvert á móti undir tónana sem hafa hljómað úr herbúðum atvinnurekenda og eftir að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hætti þar sem formaður hafa tónarnir orðið æ sterkari í þá veru að atvinnurekendasamtökin eru með gagnrýni á innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar sem er langt fyrir utan það svið sem þau eiga að hafa afskipti af. Og ríkisstjórnin hefur tekið undir það með forsvarsmönnum atvinnurekendasamtakanna sem hafa haft mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig eigi að reka verkalýðshreyfinguna í landinu og tekið sér það vald að tjá sig um það hvar og hvenær sem er hvernig launafólk eigi að skipuleggja samtök sín. Ríkisstjórnin vill ekki beina athygli manna að því miðstýrða og ósveigjanlega skipulagi sem einkennir Vinnuveitendasamband Íslands. Hún vill ekki beina athygli manna að því. Hún vill ekki heldur beina athygli manna að því að þetta ósveigjanlega skipulag hefur verið notað sem tæki til að halda kröfum launafólks niðri í ákveðnum tilvikum og þá sérstaklega þeim hópum sem eru svo óskammfeilnir að koma fram með sérkröfur við kjarasamningagerð.

Ég vil líka leiðrétta þann málflutning sem gjarnan hefur verið hafður í frammi í ræðustóli og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á áðan. Hann vék að því að verkfallsrétturinn væri misnotaður, það væru litlir hópar sem ættu það til að fara í verkföll, fámennir hópar sem kostuðu þjóðarbúið mjög mikið og þetta væru oft og tíðum hálaunahópar. Þessi málflutningur hefur heyrst áður úr ræðustóli og menn hafa nefnt dæmi eins og flugumferðarstjóra. Ég vil benda á að það eru líka til sérhópar og hópar sem þurfa að fara fram með sérkröfur á vinnumarkaði sem eru láglaunahópar. Og það eru til hópar sem er þannig statt fyrir að einhverra hluta vegna þurfa þeir að koma sérkröfum á framfæri. Ég vil nefna sem dæmi fiskvinnslufólk. Það fólk býr ekki við starfsöryggi þegar um er að ræða hráefnisskort. Það er hægt að segja því upp fyrirvaralaust. Þetta fólk hefur verið að reyna að fá leiðréttingu mála sinna í kjarasamningum vegna þess að lagaumgerðin, lögin frá 1979, býr til það umhverfi að það sé heimilt að víkja þessu fólki úr vinnu fyrirvaralaust ef um hráefnisskort er að ræða. Síðan hefur það gerst með tímanum að dómstólar í landinu hafa túlkað þessa grein, sem ég er alveg sannfærð um að hafi ekki verið ætlað að hafa svo víðtækt svið, þannig að hugtakið hráefnisskortur geti m.a. átt við um það þegar fyrirtæki metur það fjárhagslega hagkvæmara að landa fiski einhvers staðar annars staðar ef um er að ræða útgerð sem á fiskvinnsluna líka. Túlkunin á þessu ákvæði hefur því farið langt út fyrir það sem manni sýnist hafa verið megintilgangurinn og uppi stendur launafólkið í fiskvinnslu sem hefur nákvæmlega ekki neitt starfsöryggi. Það er því ekki bara þannig að verkfallsréttur sé aðeins notaður af ofdekruðum hálaunahópum, fámennum hálaunahópum, til að ná fram sérkröfum. Það verður að vera ákveðinn sveigjanleiki fyrir hendi hjá atvinnurekendum þannig að þeir geti í einstökum málum gengið beint til samninga við einstök fyrirtæki eða einstakar starfsgreinar þar sem sérstök ástæða er til að leiðrétta málefni launafólks.

Þá erum við að tala um nauðsyn á sveigjanleikanum hinum megin frá. En hæstv. ríkisstjórn hefur ekki áhyggjur af þessu og vill ekkert skipta sér af þessum málum. Hún reynir reyndar að taka á þeirri óskammfeilni sem forsvarsmenn hjá samtökum atvinnurekenda hafa sýnt verkalýðshreyfingunni með því að bera því við fyrir dómi að samningur hafi aldrei verið gildur þar sem hann hafi ekki verið borinn undir framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins, þótt eftir þessum sama samningi hefði verið unnið ef ég man rétt þrjú ár. Þetta gerðist í dómsmáli fyrir nokkrum árum og ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn virðist vera að reyna í þessum tillögum sínum að taka þó á þessu máli þannig að slíkt geti ekki endurtekið sig. En hún hefur ekki áform uppi um það að bæta stöðu fiskvinnslufólks vegna uppsagna og koma í veg fyrir að fyrirtæki flytji launafólk eins og því lystir af launaskrá yfir á atvinnuleysisskrá eins og rökstuddur grunur leikur á að sé gert. Ég segi rökstuddur grunur vegna þess að ég get ekki fullyrt að þetta sé raunin. En það er full ástæða til þess að skoða þessi mál. Þetta eru sögur sem maður er að heyra. Ég heyrði mörg dæmi um slíkt þegar ég starfaði hjá Alþýðusambandinu. Nú virðist þetta vera að ágerast. Hefur ríkisstjórnin í hyggju að taka á þessum málum? Svona mál fela ekki aðeins í sér fullkomið virðingarleysi fyrir launafólkinu sjálfu og fyrir gildi vinnunnar, heldur einnig hreina og klára misnotkun á opinberu fé. Þetta eru t.d. hlutir sem ég hefði viljað sjá hæstv. ríkisstjórn taka á. Það er fullt af hlutum sem snúast um málefni vinnumarkaðar sem eru aðrir og brýnni að taka á en innri skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar ef hæstv. félmrh. vill gera sig gildandi á þessu sviði á annað borð. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. félmrh. að því hvort það væri kannski möguleikiað hann sneri sér að slíkum málum úr því að hann er að láta til sín taka í málefnum vinnumarkaðar. Nú liggur t.d. fyrir þinginu till. til þál. sem hefur ekki reyndar enn þá fengist mælt fyrir um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn af hálfu atvinnurekenda. Þessi tillaga er kannski gott dæmi um mál sem hefur strandað á andstöðu atvinnurekenda inni í þríhliða nefnd aðila vinnumarkaðarins og atvinnurekendur hafa margsinnis lýst því yfir, eða fulltrúar þeirra skulum við segja, að þeir vilja ekki að þessi samþykkt verði fullgilt. Ég hefði gjarnan viljað óska þess að það hefði verið hægt að mæla fyrir þessari tillögu áður en þingi lýkur og láta á það reyna hvort ríkisstjórnin sé í raun og veru að vinna fyrst og fremst í þágu atvinnurekenda, eins og ég vil meina, eða hvort hún hyggist taka af einhverri alvöru á vandamálum launafólks sem snúast um starfsöryggi og er orðið virkilega brýnt að leysa. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hefur hann í hyggju að gera eitthvað til að bæta stöðu launafólks varðandi starfsöryggi? Það er orðið mjög brýnt mál og ég veit að hæstv. félmrh. er kunnugt um að í samanburði við önnur lönd, ég tala ekki um Norðurlöndin, þá er orðin mjög brýn þörf á því að leiðrétta stöðu launafólks að þessu leyti.

Einnig vil ég spyrja hæstv. félmrh. úr því að við erum að ræða málefni vinnumarkaðar og hann vill vera mikill athafnamaður á því sviði: Er það hluti af hans pólitík í stól ráðherra atvinnumála að fullgilda einhverjar aðrar af samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar? Það hefur verið bent á það í þinginu að Ísland hefur ekki fullgilt nema 18 af samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á meðan flest önnur ríki á Norðurlöndum hafa fullgilt að mig minnir rúmlega 70 samþykktir að meðaltali og er það í samræmi við þann tíma sem þessi lönd hafa verið aðilar að þessari ágætu stofnun. Þótt að fjöldinn skipti að sjálfsögðu ekki öllu máli, hefur verið bent á það á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar af fulltrúum samtaka launafólks, einkum frá Norðurlöndunum, að við séum að gefa ákveðin skilaboð ef við ætlum ekki að fullgilda neinar af þeim samþykktum sem stofnunin setur, en erum samt sem áður aðili að henni. Þetta er því miður enn eitt dæmið um að þarna hafa atvinnurekendur ráðið inni í þríhliða nefndinni. Það hefur verið andstaða frá fulltrúum atvinnuekenda, hrein og klár andstaða, við að fullgilda þær samþykktir sem fulltrúar launafólks hafa lagt til. Hefur hæstv. félmrh. e.t.v. í hyggju að reyna að bæta úr þessu og taka af skarið og ganga í það að fullgilda einhverjar af þessum samþykktum?

Því miður er það mín trú af því sem ég hef séð hingað til frá þessari hæstv. ríkisstjórn að stefna hennar sé einföld og skýr í þessum málum. Hún felst í því að færa atvinnurekendum, stjórnendum fyrirtækjanna og forstöðumönnum, ef um opinberar stofnanir er að ræða, aukin völd. Tilgangurinn er svo sagður vera að tryggja frekari sveigjanleika á vinnumarkaði. Spurningin er hins vegar sú hvaða verði ríkisstjórnin er tilbúin til að kaupa þennan sveigjanleika. Það er ekki komið í ljós enn. Það á eftir að koma í ljós því kjörtímabilið er bara rétt hafið. En þau skilaboð sem ríkisstjórnin hefur gefið launafólki hingað til eru því miður ekkert mjög glæsileg.

Ég gæti nefnt hæstv. félmrh. fjölda annarra dæma ef hann hefur áhuga á að gera sig gildandi varðandi önnur málefni vinnumarkaðarins en starfsöryggi og það sem hér hefur verið nefnt. Það eru hlutir eins og t.d. gerviverktaka sem hefur verið mikið vandamál á vinnumarkaði. Gerviverktakan er t.d. hluti af ákveðnum sveigjanleika ef út í það er farið. Hún er hins vegar leið sumra atvinnurekenda fram hjá lögbundnum skyldum þeirra og kölluð náttúrlega gerviverktaka vegna þess að ekki er um nokkra verktöku að ræða í því máli.

Ég vil líka spyrja hæstv. félrmh.: Hefur ríkisstjórnin eða hann eitthvað í hyggju til að verja launafólk frekar fyrir því að vera stillt upp við vegg af atvinnurekanda sínum? Um það hafa því miður verið þó nokkur dæmi að annaðhvort sé fólk neytt til að gera verktakasamning eða missa vinnuna, þótt um sé að ræða hreinan og kláran ráðningarsamning í eðli sínu. Þar væri vissulega ástæða fyrir hæstv. félmrh. til að gera sig gildandi.

Eins er fjöldi annarra mála sem mér finnst að ríkisstjórnin hafi að mörgu leyti sýnt áhugaleysi. Ég get nefnt sem dæmi rökstuðning uppsagnar. Það er ekki skylt í dag að rökstyðja uppsagnir. Meira að segja í frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er verið að reyna að smeygja sér fram hjá stjórnsýslulögunum, fyrirmæli stjórnsýslulaga um málskot þegar um launafólk er að ræða. Það er eins og það sé allt gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að launafólk hafi ákveðin réttindi sem eru í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við talin sjálfsögð og eðlileg. Og þau eru ekki í andstöðu við neinn sveigjanleika á vinnumarkaði.

Vissulega er það svo að atvinnurekanda er skylt að greiða launamanni þriggja mánaða uppsagnarfrest. Það væri meiri sveigjanleiki fyrir atvinnurekandann að þurfa ekki að greiða honum neinn eins og þegar um er að ræða hráefnisskort í fiskvinnslunni. En við erum alltaf með hina hliðina sem er launafólk sem á ákveðin réttindi og hversu langt ríkisstjórnin er tilbúin að ganga til þess að tryggja þennan sveigjanleika.

Rökstuðningur uppsagnar, málskot vegna ólögmætrar uppsagnar, jafnvel réttur til að fá starf sitt aftur ef uppsögn er byggð á ólögmætum sjónarmiðum, allt eru þetta atriði sem ég tel að við þurfum að taka til skoðunar og fara að horfa meira á það en hefur verið gert að reyna að tryggja launafólki ákveðin réttindi. Það hefur verið gert ágætlega við fyrirtækin í landinu og ég held að það sé kominn tími til að fara að horfa meira á réttarstöðu launafólks, alla vega á vissum sviðum. En það virðist hins vegar blasa við sú sorglega staðreynd að ríkisstjórnin hafi ákveðið að vinna fyrst og fremst í þágu atvinnurekenda og það þarf ekki neinn snilling til þess að sjá það hvaða skilaboð koma frá samtökum atvinnurekenda annars vegar og hins vegar úr röðum verkalýðshreyfingarinnar. Það er alveg greinilegt fyrir hverja þessi ríkisstjórn er að vinna. Það er reyndar bara hjákátlegt að hlusta á hæstv. ráðherra þræta fyrir þetta trekk í trekk, jafnvel halda því fram að verkalýðshreyfingin hljóti að jafna sig, hún eigi eftir að sjá að þetta er allt í lagi. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn telji sig vera þess umkomna að hafa vit fyrir verkalýðshreyfingunni og spá fyrir um það hver verða hennar viðbrögð í haust. Ég spái því hins vegar að verkalýðshreyfingin hafi á því meira vit hvernig reglur á vinnumarkaði virka en hæstv. ríkisstjórn, með fullri virðingu fyrir henni. Verkalýðshreyfingin er allt í einu orðin gamaldags, hún er orðin óþjál og hún er orðin ólýðræðisleg. Það verður að breyta innra skipulagi hennar með góðu eða illu. Þetta er tónninn sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnin er að gera þetta. Hún hefur reyndar valið sér til verks ég vil segja áður félagslega sinnaðan framsóknarmann, hæstv. félmrh. Pál Pétursson, því hann virðist hafa horfið af þeirri braut. Hann hefur sinnt trúnaðarstörfum sínum í þágu ríkisstjórnarinnar af mikilli röggsemi, vaðið yfir verkalýðshreyfinguna, fylgt leiftursóknaraðferðafræðinni. Þótt innihald frv. sé að mínu mati ekki ættað frá Nýja-Sjálandi er aðferðafræðin ættuð þaðan eins og hæstv. félmrh. hefur nánast viðurkennt í þingsölum. Hann telur a.m.k. að innihaldið sé ekki ættað þaðan en spurningunni um aðferðafræðina er hins vegar ósvarað.

[11:45]

Eins og margoft hefur verið talað um, felst þessi leiftursóknaraðferðafræði í því að hafa ekki samráð, þ.e. alvörusamráð í almennum skilningi þess orðs en ekki þetta nýja hugtak sem hæstv. ríkisstjórn hefur búið til, og hlusta ekki á mótmæli, láta hlutina ganga hratt fyrir sig, láta þá ríða fljótt yfir. Hæstv. félmrh. hefur gefið ASÍ skýr skilaboð á 80 ára afmælinu: Ég vildi að þið væruð sammála mér, en úr því að svo er ekki verður bara að hafa það. Eins og frægt er orðið.

Þetta er öll virðingin fyrir æðstu stofnun Alþýðusambands Íslands, sjálfu þingi þess sem kom niður á Austurvöll um daginn í heilu lagi til að mótmæla áformum ráðherrans og er það einsdæmi í sögunni. Það er kannski ekki skrýtið að hæstv. ríkisstjórn og það lið sem hún hefur á að skipa beri ekki meiri virðingu fyrir málstað verkalýðshreyfingarinnar því að verkalýðssinnar eru þar jafnsjaldséðir og hvítir hrafnar eftir því sem ég best fæ séð. Einn fulltrúi á þingi Alþýðusambandsins er jafnframt alþingismaður, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og hann reyndar hafði fjarvistarleyfi við atkvæðagreiðslu við 2. umr. um frv. þar sem hann var á Alþýðusambandsþinginu. (Gripið fram í: Að mótmæla frv.) Væntanlega að mótmæla frv., hv. þm. Ég sá að þessi þm. var kominn í hús áðan og ég er mjög spennt að heyra afstöðu hans til þessa máls hér á eftir. Ég geri ráð fyrir því að hann noti tækifærið fyrst hann er kominn í hús til þess að gera grein fyrir sinni afstöðu og fjalla um þetta mál. Það hlýtur að vera vegna þess að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er sjálfur kominn úr verkalýðshreyfingunni. Hann hefur starfað þar til fjölmargra ára af miklum ágætum og þekkir leikreglurnar af eigin raun sem þar hafa ríkt og sem þar er nauðsynlegt að ríki svo unnt sé að ná einhverjum árangri í samskiptum aðila vinnumarkaðar. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson viti hversu hættulegt það getur verið lýðræðinu í verkalýðshreyfingunni að stjórnvöld hafi afskipti af innri málefnum hennar í andstöðu við hana sjálfa. Ég geri ráð fyrir því að þessi ágæti þingmaður skilji, hversu stórt og merkilegt okkur annars kann að finnast efnisinnihald þessa frv., að hér er verið að stíga ákveðið skref, stórt skref aftur á bak. Ég er viss um að allir sem hafa komið nálægt starfi verkalýðshreyfingar og hafa einhvern skilning á þeim málefnum hljóta að sjá að hér er um mjög hættulegt skref að ræða. Ég trúi því hreinlega ekki að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem þekkir málefni hreyfingarinnar betur en margur annar og er einn af örfáum, ég reyndar minnist ekki annarra, sem virðast þekkja af eigin raun starf hreyfingarinnar úr stjórnarliðinu sé sáttur við þessi afskipti ríkisstjórnarinnar af innri málefnum hreyfingarinnar.

Hæstv. félmrh. heldur því líklega enn fram að þetta frv. eða samþykkt þess komi ekki til með að skapa neina ólgu á vinnumarkaðinum eins og forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa margsinnis varað við. Hann er líklega ekki sammála þeim spádómum og þá verður líklega bara að hafa það. Hann ætlar líklega einfaldlega að láta þær hremmingar ganga yfir þjóðina þegar þar að kemur því að hæstv. ráðherra á erfitt með að gefa sig með eitthvað sem hann hefur ákveðið að gera. Og það virðist vera eins og hann og ríkisstjórnin hafi bitið það í sig að láta þetta mál ganga í gegn, sama hvað tautar og raular. Þetta er í raun og veru mjög einkennileg aðferðafræði og einkennileg þvermóðska vegna þess að þegar maður fer að skoða betur hvað það er í frv. sem á að þjóna þeim markmiðum sem farið var af stað með, stendur raunar ekkert eftir. Það stendur ekki steinn yfir steini eftir af því.

Ef við rifjum upp helstu markmiðin og grundvallarmarkmiðin sem farið var af stað með og sem eru meira að segja áréttuð í athugasemdum með frv., ef ég man rétt, þá voru þau fólgin í að auðvelda kjarasamningagerð og stytta samningsferlið. Þetta eru grundvallarrökin fyrir því að fara af stað með þessa breytingu. Og um þetta voru allir sammála sem tóku þátt í starfi nefndarinnar sem hóf undirbúning að þessu starfi.

Nú hefur því verið marglýst yfir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að þar sem frv. er lagt fram í andstöðu hennar muni hún sýna veikleika hinna nýju reglna í reynd þegar kjarasamningar verða lausir í haust. Það verða gerðar viðræðuáætlanir í hundraðavís ef þekki þúsundavís, það verður ekki verkalýðshreyfing með samningsviljann að leiðarljósi sem kemur að samningaborðinu í haust. Við erum að tala um alla verkalýðshreyfinguna. Við erum að tala um ASÍ, BSRB, BHM, megnið af verkalýðshreyfingunni. Hún hefur sameinast í þessu máli vegna þess að hún hefur skynjað þennan sameiginlega óvin sinn sem er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og kannski fyrst og fremst aðferðir hennar, aðferðafræði hennar á vinnumarkaði.

Því hefur verið lýst áður í umræðum um þetta frv. að lagareglur á vinnumarkaði hafa ákveðna sérstöðu og það hafa verið nefnd um það dæmi. Þetta var rætt töluvert í félmn. Sérstaðan er kannski fólgin í því að kjarasamningar eru gerðir oft og tíðum undir miklum þrýstingi. Það er mikill þrýstingur á að þeim sé komið á sem fyrst og þetta þekkja þeir sem hafa komið nálægt kjarasamningagerð. Það þarf að semja sem fyrst og þess vegna að sjálfsögðu mjög mikilvægt að það séu einhverjir kjarasamningar í gildi til að fara eftir til að reyna að forða verkföllum og átökum á vinnumarkaði. Það er verið að semja fyrir mjög stóra hópa fólks og af þessum ástæðum er mjög mikilvægt að það kerfi sem við búum við virki. Þetta felur m.a. í sér að það hefur gefið mjög slæma raun að vera að setja reglur sem hefur ekki verið þokkaleg, almenn sátt um á milli aðila vinnumarkaðarins. Þar er ég að tala um leikreglurnar sjálfar. Og það hafa verið nefndar t.d. heimildir ríkissáttasemjara í núgildandi lögum sem eru aftur komnar inn í þetta frv. óbreyttar svo til. Samkvæmt lögunum um sáttastörf í vinnudeilum frá 1978 hefur ríkissáttasemjari miklu meira vald en hann hefur í raun og veru haft í reynd. Út af hverju? Jú, það er vegna þess að það hefur ekki verið um það nægileg sátt að hann beiti til fulls því valdi sem hann hefur samkvæmt lögunum.

Ég geri ráð fyrir að hæstv. félmrh. og þeir sem að þessu frv. standa viti þetta. Og ég geri ráð fyrir að þeir hljóti að átta sig á því að lög sett í svo mikilli ósátt við alla verkalýðshreyfinguna verða aldrei góð lög. Þau verða alla tíð ólög og koma fyrr en varir til með að snúast upp í andstæðu sína.

Ég vil líka segja að það er alls ekki eintómur yfirgangur í verkalýðshreyfingunni að geta ekki fallist á þessi vinnubrögð hjá hæstv. félmrh. í þessu máli, eins og látið hefur verið að liggja í umræðunni hér. Það er ekki þannig, eins og mér hefur þótt hæstv. félmrh. ýja að, að það þurfi að temja skassið eða koma böndum á ótemjuna eins og það var einhvern tíma orðað. Staðreyndin er einfaldlega sú að verkalýðshreyfingin hefur öll skynjað virðingarleysi hæstv. ríkisstjórnar fyrir málefnum launafólks og samtaka þeirra. Hún hefur skynjað virðingarleysi fyrir grundvellinum sem áratuga langt starf verkalýðshreyfingarinnar hefur byggt á, virðingarleysi fyrir samráði sem er eitt það mikilvægasta í starfi hennar. Þá erum við enn og aftur komin að upphafi þess starfs sem var farið af stað með í hópnum um samskiptareglur á vinnumarkaði. Honum var einmitt ætlað að byggja upp á samráðinu, að menn kæmust að samkomulagi og reyndu að ná sameiginlega þeim markmiðum sem þeir voru sammála um að þyrfti að ná, en það var að auðvelda kjarasamningagerð og stytta samningsferlið. Það átti að gera í sátt og samlyndi og 48 fundir eru enginn óskaplegur tími í slíkum málum, langt í frá. Þetta er kannski grundvallarmunurinn á þeim vinnubrögðum sem farið var af stað með og sem verkalýðshreyfngin gekkst inn á að taka þátt í og svo þeim sem er beitt hér í lokin þar sem ákveðið er að keyra málið áfram gegn vilja allrar hreyfingarinnar. Jafnvel þótt út úr þessu hefðu komið sams konar efnislegar reglur, eru þær reglur á gerólíkum grundvelli byggðar vegna þess að annars vegar er verið að tala um reglur sem eru byggðar á samráði og sátt og hins vegar erum við að tala um reglur sem eru byggðar á yfirgangi. Og það gengur einfaldlega ekki á vinnumarkaði. Það er bara svo einfalt mál.

Ég geri ráð fyrir að verkalýðshreyfingin geri sér líka grein fyrir sínum möguleikum. Ríkisstjórnin er tilbúin til að traðka á grundvallargildum, samráðinu, þessu þríhliða samráði sem hingað til hefur verið byggt á. Hún og hæstv. félmrh. eru jafnvel tilbúin til að stofna friði á vinnumarkaði í hættu. Þótt verkalýðshreyfingin hafi nánast haft í hótunum um að hér verði vægast sagt mjög stirt um kjarasamningagerð næst þegar kjarasamningar losna, hefur hæstv. félmrh. verið tilbúinn til að horfa fram hjá því. Hann heldur áfram með sitt mál hvað sem tautar og raular. Hvað er hæstv. ríkisstjórn tilbúin til að gera næst í andstöðu við alla verkalýðshreyfinguna? Úr því að hún er búin að sýna einu sinni að hún er tilbúin til að ganga svona langt í fullkominni andstöðu við alla hreyfinguna, skyldi hún þá ekki vera tilbúin til að ganga lengra?

Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur a.m.k. sýnt vígtennurnar. Hún hefur sýnt verkalýðshreyfingunni vígtennurnar, sýnt í verki hvað hún er tilbúin til að gera og fyrir hvern hún er tilbúin til að vinna, a.m.k. í þessu ákveðna máli. Hún er líka tilbúin til að beita her sínum á hinu háa Alþingi sem reyndar virðist hlýða öllum fyrirskipunum umhugsunarlaust. Það er reyndar mjög sérkennileg upplifun að sjá í þingsölum hvernig það virðist ekki vera nema örlítill hluti þingmanna stjórnarliðsins sem hefur skoðanir á þessu stóra, mikilvæga og viðkvæma máli. Það er ekki nema ein og ein hræða sem lætur hafa sig í það að koma upp í ræðustól og tjá sig um þetta mál. Þeim er bara stýrt á græna takkann þegar þar að kemur. Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að verkalýðshreyfingin sé með nein óhemjulæti. Hún skynjar þarna óvin sinn og hún mun væntanlega berjast gegn honum ef eitthvert líf er eftir í henni.

Herra forseti. Markmiðum þessa frv. verður ekki náð, það liggur ljóst fyrir. Það verður ekki einfaldara að semja nú en áður og samningaferlið verður ekki styttra. Það er því aðeins eitt sem getur vakað fyrir ríkisstjórninni með því að þrýsta frv. í gegnum þingið í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Ég hef verið að velta vöngum yfir því hvers vegna sé lögð svona gífurleg áhersla á það að koma þessu máli í gegn í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Það hlýtur að vera eitthvað mikið sem býr þar að baki. Og ég get aðeins fundið eitt sem mögulega getur vakað fyrir hæstv. ríkisstjórn. Það er að koma böndum á verkalýðshreyfinguna, sýna henni hver valdið hefur og reyna þannig að draga úr henni máttinn. Ég sé ekki annan tilgang með þessum hamförum.

Það er sorglegt að horfa upp á þessar aðferðir, herra forseti, og ég harma að það skuli ekki hafa verið betur farið með það ágæta starf sem var farið af stað með árið 1994. Það hefði getað skilað mikilum umbótum á vinnumarkaði ef rétt hefði verið á haldið. Það miðaði að því að betrumbæta skipulag á vinnumarkaði í sátt og samlyndi samningsaðila og til þess starfs gengu allir fúsir og af frjálsum vilja og virkilega tilbúnir til þess að láta gott af sér leiða. En bægslagangur, bráðlæti og yfirgangur hæstv. ríkisstjórnar kom í veg fyrir að farsæl lausn fyndist á því máli. Hún kaus að draga taum eins samningsaðila og ögra öðrum og afleiðingarnar koma fljótlega í ljós. Þær eru reyndar komnar í ljós. Það var öllum ljóst sem fylgdust með ASÍ-þinginu að þar var mikil ólga og mikil eindrægni innan verkalýðshreyfingarinnar gegn þessu frv. Meðal annars af þeim ástæðum sem hér hafa verið taldar upp og felast kannski fyrst og fremst í þeirri hættu sem fylgir því þegar stjórnvöld hlutast til um málefni og skipulag verkalýðshreyfingarinnar í andstöðu við hana. Það er mjög hættulegt fordæmi.

Herra forseti. Það lítur út fyrir að þessi vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar hljóti blessun allra stjórnarliða nema e.t.v. að eina verkalýðssinnanum undanskildum sem maður hefur orðið var við í því liði á hinu háa Alþingi. Ég tel það með hreinum ólíkindum. Mér finnst dapurlegt að horfa upp á þetta. Það skapar hættulegt fordæmi og erfitt að sjá fyrir afleiðingarnar. Ég vil því ítreka andstöðu mína við þessa mistakaröð hæstv. félmrh., eins og ég vil kalla þetta. Ég harma að hann skuli ekki hafa hlustað á aðvörunarorð þeirra fjölmörgu sem hafa tjáð sig um þetta mál og varað við afleiðingum þess. Þar hefur hann aðeins hlustað á ráðleggingar sumra og því miður ekki alltaf þeirra sem kannski best til þekkja á sviði vinnumarkaðarins.