Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:19:43 (6826)

1996-05-30 12:19:43# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:19]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa frv. tók ég til máls og sagði frá því að ég hefði ítrekað rætt við marga forustumenn verkalýðshreyfingarinnar og reynt af fremsta megni að komast að því hver væru hin efnislegu rök, efnislegu ástæður fyrir óánægju þeirra með fram komið frv. Ég taldi upp í þeirri ræðu að mér hefði tekist að finna fjögur efnisatriði sem voru stofnun vinnustaðarfélaganna, sem var tengireglan, fjöldi ákvæðanna um hvernig greiða skuli atkvæði og hæð þröskuldanna. Þetta voru þau fjögur efnistriði sem ég vissi að verkalýðshreyfingin var óánægð með og þeir höfðu tjáð mér það persónulega.

Ég vil geta þess, herra forseti, að nú við 3. umr. þessa frv. liggja fyrir breytingartillögur félmn. og það kemur í ljós að félmn. hefur tekið tillit til allra þessara fjögurra efnisatriða þannig að þau er ekki lengur að finna í frv.

Það er rétt, herra forseti, að ég harma það persónulega að ákvæðið um tengiregluna skuli vera farið vegna þess að ég gat þess þá og get endurtekið það aftur að ég er viss um að verkalýðshreyfingin telur hana til bóta þótt einstakir forustumenn hennar hafi talið sér skylt að mótmæla henni.

Þegar komið er að 3. umr. þessa máls og öll þessi efnisatriði eru farin út og er samt eins og ekkert hafi gerst. Menn eru jafnmikið á móti því nú og í upphafi. Þá er það spurning hvernig svo má vera. Ég veit ekki svarið, en ég ætla að hér sé á ferðinni misskilinn metnaður, vandræði þessa máls séu þau að menn hafi farið að karpa um það hverjir ættu að ráða um gerð laga, hvort það ætti að gerast í frjálsum samningum úti í bæ eða hvort það væri Alþingis að gera það. Það varð niðurstaðan og allir máttu vita að það gat aldrei farið á annan veg en þann að Alþingi tæki þessa ákvörðun.

En mér finnst líka, herra forseti, að menn tali dálítið óvarlega um þessi mál. Það vekur furðu mína þegar hv. þingmenn koma og fullyrða nánast, eins og hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur gerði áðan, að það sé alveg víst að sú verkalýðshreyfing sem kemur til samninga í haust hafi ekki samningsvilja. (BH: Hún hefur lýst því yfir sjálf.) Þegar menn taka svona til máls á Alþingi, ættu menn að athuga það mjög vel að þarna er verið að efast stórkostlega um það afl í þjóðfélaginu sem er hvað þýðingarmest. Verkalýðshreyfingin í gegnum tíðina hefur alltaf verið mjög ábyrg. Og þá ekki síður forustumenn láglaunahópana. Í okkar samfélagi, sem er frjálst markaðssamfélag, skulum við ekki ætla öðrum annað en að þeir séu ábyrgir í samningsgerðum. Í markaðssamfélaginu ráðast samningar af sameiginlegum hagsmunum launþega og fyrirtækja vegna þess að í markaðssamfélaginu er þetta einn vefur en ekki margir óskyldir heimar eins og sumir eru að reyna að rifja upp úr gömlu kommafræðunum sínum. Þetta er nefnilega einn heimur, sameiginlegir hagsmunir. Þegar menn fara í ræðustól til að kvarta yfir því að einhver ríkisstjórn gangi erinda atvinnurekstrarins er þess að minnast og þingmenn ættu að hafa aðgang að þeim skjölum, að hvergi í Vestur-Evrópu, hvergi í OECD-löndunum hefur arður af fjármagni í atvinnufyrirtækjunum verið lægri í áratugi en á Íslandi. Það getið þið séð í skýrslunum. Hver hefur hann verið? Hann hefur verið núll eitt árið, mínus 0,5 annað, plús 0,5 hitt o.s.frv. Í þessu höfum við hjakkað og þetta er grundvallarástæðan fyrir því að lífskjör í þessu gósenlandi, Íslandi, eru ekki betri en raun ber vitni. Arðsemin í fyrirtækjunum hefur ekki fengið að vera nógu há eða jafnhá og í öðrum löndum í áratugi.