Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:28:16 (6831)

1996-05-30 12:28:16# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:28]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að benda hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni á það að lögin frá 1938 voru sett í sátt við verkalýðshreyfinguna. (Gripið fram í: Þau voru kölluð þrælalög.) Já, þau voru kölluð þrælalög af ákveðnum stjórnmálaflokki. Þau voru hins vegar sett í fullri sátt við verkalýðshreyfinguna í landinu á sínum tíma. Ég vil líka benda hv. þm. á það, úr því að hann minntist á það hér áðan að ég hefði nánast fullyrt að verkalýðshreyfingin ætli að haga sér óábyrgt í haust, að það er það sem forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa lýst yfir. Þeir hafa lýst yfir að þessar aðfarir ógni friði á vinnumarkaði og verkalýðshreyfingin muni ekki koma með samningsviljann að vopni til samninga í haust. Það eru þeirra orð, en ríkisstjórnin og hæstv. félmrh. hafa kosið að hlusta ekki á þau. Það var það sem ég var að benda á í ræðu minni áðan.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan. Verkalýðshreyfingin hefur verið ábyrg. Hún hefur fyllilega staðið undir hlutverki sínu. Af hverju á að múlbinda hana núna?