Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 10:53:40 (6883)

1996-05-31 10:53:40# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[10:53]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að þær skattabreytingar sem verið hafa í umfjöllun á undanförnum árum og jafnvel að sumu leyti á þeim tíma þegar hv. þm. sat í ríkisstjórn, hafi allar miðast við að gera skattkerfi okkar nútímalegra og betur til þess fallið að gera atvinnulífinu kleift að þjóna því hlutverki sínu að færa launafólki möguleika á tekjum. Það er einmitt það sem hefur verið að gerast síðustu 2--3 árin að við erum að uppskera af þessu. Kaupmáttur hefur aukist verulega síðustu tvö árin með minnstu verðbólgu sem við höfum þekkt. Lækkun á tekjuskatti fyrirtækja hefur þýtt að tekjur af skattinum til ríkissjóðs hafa aukist. Niðurfelling aðstöðugjaldsins skilaði sér í lægra vöruverði og betri samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Varðandi það sem hv. þm. segir að þak á tekjum af fjármagni, þ.e. 3 millj. og 6 millj., gildi fyrir söluhagnað, arð plús tekjur af vöxtum, þá vek ég athygli á því að 10% nafnvaxtaskattur getur við skilyrði 2--3% verðbólgu verið 20--30% skattur á raunvexti. Ég tel að það væri alger eignaupptaka ef það ætti að fara að skattleggja nafnvexti með 40--50% skatti í slíkri verðbólgu. Það væri skattur á raunvexti sem í mjög mörgum tilvikum mundi gera allar raunvaxtatekjurnar upptækar og vera kannski á bilinu 80--90% í svona normal tilvikum. Ég tel að það sé skattlagning sem er algerlega óásættanleg.

Varðandi jöfnunarverðmæti, þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því að þær heimildir sem fyrirtækin hafa í dag eru nákvæmlega þær að gefa út jöfnunarhlutabréf upp að svokölluðu jöfnunarverðmæti í árslok 1996, en fyrirtækin hafa ekki nýtt það af ýmsum ástæðum.