Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 10:57:52 (6885)

1996-05-31 10:57:52# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[10:57]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hagnaður fyrirtækjanna hefur einmitt verið að skila sér til launþeganna. Hv. þm. vakti athygli á því að peningarnir færu úr landi í fjárfestingar erlendis. Ég hygg að það séu ófá störf sem hafa verið sköpuð einmitt í kjördæmi hv. þm. með því að fyrirtæki í hans kjördæmi hafi fjárfest erlendis.

Varðandi skattlagningu á arð sem hv. þm. hefur miklar áhyggjur af, þá er það að segja að núna er staðan sú að leyfður er 10% frádráttur í fyrirtækjum vegna arðgreiðslna. Ef arðgreiðslur færu af einhverjum ástæðum yfir þetta 10% þak og yfir 300 þús. kr. hjá hjónum, þá er verið að skattleggja þennan arð, 33% inn í fyrirtækinu og 42--47% hjá einstaklingnum sem ég tel að jaðri við eignaupptöku, enda er ekkert um það að ræða að fólk sé að borga slíkan arð og það skilar þá heldur ekki neinum tekjum í ríkissjóð. Það hefur einmitt þýtt það eins og hv. þm. gat reyndar um í ræðu sinni að í fyrirtækjum hefur verið mikil tilhneiging til að taka hagnað út sem laun og hafa á launaskrá fólk sem kannski kemur ekki mjög nálægt rekstrinum og er þá jafnframt haft á launaskrá og kannski í vinnu í gustukaskyni. Það þarf að gera hlutina þannig úr garði að mönnum sé kleift að taka hagnað út úr fyrirtækjum sem hagnað. Það bætir rekstur fyrirtækjanna. Það auðveldar kynslóðaskipti í atvinnulífinu og allt þetta mun skila sér í bættri afkomu launþega í landinu vegna betri starfsskilyrða fyrirtækjanna.

Ég trúi því ekki að hv. þm. sé svona skelfilega viðkvæmur fyrir þessu hugtaki nútímalegt skattkerfi. Vill hann kannski taka upp söluskattinn aftur eða taka upp aðstöðugjaldið aftur? Hvað meinar hv. þm. með því að vera svona skelfilega viðkvæmur þegar á orðið nútímalegt er minnst?