Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 11:10:41 (6891)

1996-05-31 11:10:41# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[11:10]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er þetta mikla mál komið út úr nefnd og til umræðu í þingsal að nýju. Eins og menn minnast urðu nokkuð harðar umræður um þetta mál við 1. umr. og síðan var útvarps- og sjónvarpsumræða um annað frv. sem formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka lögðu fram. Í þeirri umræðu gerði ég grein fyrir mínum sjónarmiðum varðandi þetta mál og ég hygg okkar kvennalistakvenna og í rauninni er það algerlega óbreytt frá því sem var. Við þá umræðu gerði ég ákveðna fyrirvara og þá fyrst og fremst varðandi það sem snýr að sveitarfélögunum. Nú hefur verið gert samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaga um það að sveitarfélögunum verði bætt upp það tekjutap sem þau verða fyrir, verði þessi skattur upp tekinn.

Hitt málið sem ég hef haft einna mestar áhyggjur af og sett stærsta spurningarmerkið við er einmitt það sem hefur verið gert að miklu og ítarlegu umræðuefni í þessari 2. umr. málsins og nú síðast af síðasta hv. ræðumanni og það er það sem snýr að skattlagningu arðgreiðslna. Ég ætla að koma að því síðar.

Ég get ekki látið hjá líða að rifja upp að þetta mál eins og það er vaxið kom upphaflega frá nefnd þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka áttu sæti. Við kvennalistakonur beittum þeim vinnubrögðum að okkar fulltrúi kom með jöfnu millibili á okkar fund og leyfði okkur að fylgjast með framgangi málsins. Við tókum í rauninni afstöðu á vissum stigum málsins, afstöðu til þess hvort við ættum að halda áfram í þessu starfi eftir að ljóst varð hvaða stefnu það tæki. Okkar niðurstaða varð sú að við vildum halda áfram, við vildum reyna að hafa áhrif á þetta starf og settum það sem meginreglu að það væri mikilvægara að fjármagnstekjuskattinum yrði komið á heldur en það hvort útfærslan væri nákvæmlega eins og við vildum sjá hana. Ég get rifjað það upp aftur að samkvæmt stefnuskrá Kvennalistans hafa okkar hugmyndir um fjármagnstekjuskatt verið meira í ætt við að það ætti að skattleggja fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur, hvað sem það nú þýðir í raun og veru. Menn verða að hafa í huga að þegar tekinn er upp nýr skattur, þá hefur hann mikil áhrif. Maður getur rétt ímyndað sér hvaða áhrif það hefði ef allt í einu væri tekin upp 42% skattprósenta á allar fjármagnstekjur. Það hefði auðvitað gífurleg áhrif á allan fjármagnsmarkaðinn og atvinnulífið og það gefur auga leið að slíkt er óskynsamlegt. Það mundi eflaust leiða til fjármagnsflótta. Þetta er skattur af því tagi sem á að koma á í áföngum. Ég lít svo á að með því að fara þá leið sem hér er verið að leggja til, þ.e. að koma á 10% flötum skatti og samræma þar með skattlagningu á allar fjármagnstekjur, gefist tækifæri til þess síðar meir að endurbæta hann og koma hugsanlega þaki á vissar greiðslur sem ekki skila miklum tekjum. Mín niðurstaða er því sú að standa við fyrri afstöðu þótt á þessu máli séu nokkrir gallar.

Eins og ég tók fram við 1. umr. er mikil hætta á því, ef þetta mál verður hér í miklu uppnámi, að þessum skatti verði einfaldlega ekki komið á. Við vitum vel að það eru ýmis öfl í samfélaginu sem vilja ekki sjá þennan skatt þótt hann sé með þessu móti.

[11:15]

Ég get ekki látið hjá líða að fara aðeins ofan í einstök atriði til þess að svara ýmsum þeim röksemdum sem hafa komið fram við þessa umræðu og hafa svo sem komið fram áður. Það er það sem snýr að þeim fullyrðingum að það sé verið að skattleggja eyri ekkjunnar og jafnframt að það sé verið að færa stórkostlegt fé til hinna ríku og að menn muni taka fé út úr fyrirtækjum og færa guð má vita hvert. Og ég spyr: Hvert halda menn eiginlega að þessir peningar fari? Menn verða að horfa á staðreyndir málsins. Menn verða að horfa á þær upplýsingar sem fyrir liggja um arðgreiðslur, um söluhagnað, um leigutekjur og annað það sem við erum að ræða og átta sig á því að þarna er ekki um neinar gífurlegar upphæðir að ræða.

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar námu arðgreiðslur rúmlega 800 millj. kr. á árinu 1994. Þær ná ekki einu sinni einum milljarði og af þeirri fjárhæð voru 160 millj. kr. greiddar í tekjuskatt. Með þessum 10% skatti mundi þessi upphæð fara niður í 80 millj. kr. Þetta eru sem sagt engar gífurlegar upphæðir sem þarna er verið að tala um. Og til þess að menn geti farið að greiða út einhvern gífurlegan arð og taka peninga út úr fyrirtækjum þurfa að vera þar mjög miklir peningar fyrir. Það gilda ákveðnar reglur um arðgreiðslur og hvað megi greiða út í arð. Menn verða að leggja fram hlutafé ef þeir ætla að breyta sínum fyrirtækjum í einkahlutafélög eins og hefur verið fullyrt að verði gert í stórum stíl og þessi hlutafélög og fyrirtæki greiða eftir sem áður tekjuskatta. Samkvæmt lögum má einungis greiða út arð sem nemur 10% af nafnvirði hlutafjár. Þetta eru þær reglur, þetta eru þau lög sem gilda þannig að mönnum eru takmörk sett. Þess vegna eru þessar fullyrðingar um gífurlegan tilflutning á fjármagni út í hött. (Gripið fram í: Þetta eru Münchhausen-sögur.) Münchhausen-sögur, já.

Ég spyr aftur: Hvað halda menn að menn geri við þennan arð? Stingi honum bara í vasann eða flytji hann úr landi? Auðvitað verða þessir peningar fyrst og fremst notaðir til þess að fjárfesta, hugsanlega í öðrum fyrirtækjum, hugsanlega í öðrum formum, hlutabréfum, ríkisskuldabréfum eða einhverju slíku. Og við skulum ekki gleyma því að það var megintilgangur þessara tillagna. Það var ekki aðeins að koma á samræmdum skatti heldur einnig að reyna að örva fjárfestingu í atvinnulífinu. Það var einn megintilgangurinn og þetta var allt saman ljóst í þessu nefndarstarfi. Áhrifin á sveitarfélögin, hvað það þýddi að lækka skatta á arði og fleira slíku. Þetta er meðvitað gert til þess að örva fjárfestingu í atvinnulífinu.

Ef það kemur í ljós að menn haga sér ekki þannig, fara að flytja fjármagn úr landi eða bara læsa inni í peningaskáp heima hjá sér, verður að reyna með einhverjum hætti að taka á því. En þetta eru ýkjusögur, eins og hv. þm. kallaði fram í, menn eru að gera allt of mikið úr þessu efni. Og hvað það varðar að skattleggja eyri ekkjunnar og að verið sé að skattleggja sparifé almennings, er auðvitað verið að því. En það var valin þessi lága prósenta til þess einmitt að þessi skattur væri ekki íþyngjandi og þær tillögur sem stjórnarandstöðuformennirnir þrír lögðu fram þýddu meiri skattlagningu á meðalsparifé. Þar var ákveðið þak eða ákveðið frítekjumark en ég tók einmitt dæmi um að meðaleigandi sparifjár, flestir þeirra eru eldra fólk og þá líka ekkjur, sem á milljón í banka og fær 7,5% vexti borgar 7.500 kr. í fjármagnstekjuskatt og á eftir 67.500 kr. af þessum vöxtum. Þessi sama ekkja hefði borgað 9 þús. kr. í vaxtaskatt samkvæmt tillögum formannanna þriggja.

Það er auðvitað ástæða til að spyrja að því hvort það eigi að vera að skattleggja allar vaxtatekjur. En við getum spurt á móti: Af hverju ekki? Ef við á annað borð segjum: Þetta eru tekjur sem á að greiða skatta af eins og hverjar aðrar tekjur, hvers vegna á þá ekki að skattleggja allt? Í rauninni er þetta svo lág prósenta að það er ekki með nokkru móti hægt að segja að hér sé um íþyngjandi skatt að ræða. Við erum að tala um að fólk á þarna nokkra eign í banka.

Niðurstaða nefndarinnar varð til á þeirri forsendu að þetta kerfi er miklu, miklu einfaldara í framkvæmd. Það býður ekki upp á nándar nærri eins mikil undanskot og það er hægt að viðhalda bankaleynd áfram, sem er afar viðkvæmt atriði í allri þessari umræðu. Það varð einfaldlega niðurstaðan að þetta væri betri leið en sú sem formennirnir þrír lögðu til. Hún var reyndar rædd ítarlega í nefndinni, en hún er stórgölluð. Eins og ég nefndi áðan hefði hún hugsanlega miklu meiri afleiðingar á allan fjármagnsmarkað en þessi tillaga hér.

Varðandi söluhagnað kemur fram í skýrslu nefndarinnar að skattskyldur söluhagnaður nam rúmlega 300 millj. kr. á árinu 1994 og af þeirri fjárhæð voru greiddar nálægt 115 millj. kr. í tekjuskatt. Sá skattur færi væntanlega niður í 30 millj. ef menn horfa beint á málið, en meiri hluti nefndarinnar leggur til að þarna verði sett þak. Þegar ég spurði hvers vegna ekki hefði verið sett þak á arðgreiðslurnar kom reyndar fram í máli hv. formanns efh.- og viðskn., Vilhjálms Egilssonar, að þar með yrði um svo mikla skattlagningu að ræða. Ég þarf að átta mig betur á þessu atriði, ekki síst í ljósi þess að minni hlutinn tók upp þessa tilögu sem komin var upphaflega frá fjmrn. Ég vil skora á meiri hluta efh.- og viðskn. að skýra þetta mál betur fyrir okkur. Því miður gafst mér ekki tækifæri til að fylgjast með starfi efh.- og viðskn. þó að ég eigi að heita áheyrnarfulltrúi í þeirri nefnd vegna þess að fundirnir rákust nánast alltaf á fundi félmn. sem mér bar að sjálfsögðu skylda til þess að sitja. Ég þarf því að átta mig betur á því hver munurinn er á þessu tvennu, en þær skýringar sem ég hef fengið hingað til eru þær að söluhagnaður kemur oft í stórum upphæðum skyndilega. Menn selja einhverja eign, en arður er greiddur út jafnaðarlega. Ég átta mig ekki alveg á þessu. En hins vegar setja gildandi lög miklar skorður við greiðslu á arði. Dæmið sem er t.d. tekið í áliti minni hluta efh.- og viðskn. um slíka arðgreiðslu er dæmi um arðgreiðslu upp á 50 millj. Ef 30 eigendur, eins og segir hér, hefðu átt í þessu félagi þyrftu þeir samkvæmt núgildandi skattalögum að greiða 19,3 millj. kr. í skatt.

Þetta eina dæmi sem þeir taka hér er hvorki meira né minna en --- ja, hvað? 10%? Ég er ekki góð í reikningi á þessum morgni. Það skiptir ekki öllu máli, en þetta eina dæmi sem þeir taka er í raun og veru svo stórt miðað við það hvað arðgreiðslur eru litlar. Auðvitað geta menn búið til hvaða dæmi sem er. Hér er minni hlutinn að rökstyðja það að þarna yrði veruleg skattalækkun og það liggur alveg fyrir að hún verður. Það er inntak þessara tillagna. Það verður skattalækkun á þessum ákveðnu fjármagnstekjum, arðgreiðslum, söluhagnaði, leigutekjum og fleiru.

Það er kannski óþarfi, hæstv. forseti, að vera að eyða mjög mörgum orðum í þetta. Ég hefði viljað beina þeirri spurningu til meiri hluta efh.- og viðskn. hvað felst í því sem fram kemur í nefndaráliti þeirra þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti nefndarinnar minnir á yfirlýsingu ráðherra um að þeim tekjuauka, sem fellur til við samþykkt frv., skuli ráðstafa til lækkunar á öðrum sköttum.``

Það væri fróðlegt að fá skýringar á því hvað þarna er verið að ræða. Er þarna fyrst og fremst verið að tala um eignarskatta eins og var rætt í nefndinni á sínum tíma eða er hugsanlegt að þessum fjármunum yrði varið t.d. til lækkunar á tekjuskatti almennings? Þar get ég að sjálfsögðu tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm., Steingríms J. Sigfússonar, að almenn skattlagning á launafólki og þær lágu tekjur sem hér er verið að skattleggja er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Það er hægt að taka undir að það þarf að skoða skattkerfið í heild, jaðarskattana og hvernig þetta virkar allt saman og hvað við erum komin út í miklar öfgar í þessum efnum.

Ég vil einnig minna á, hæstv. forseti, að í ræðu minni í gærkvöldi var ég að vitna til þessa bandaríska hagfræðings sem ég er svo óskaplega hrifin af þessa stundina. Mér þykir merkilegt það sem hann hefur fram að færa. Hann vekur athygli á breytingum sem orðið hafa í heiminum á undanförnum 10--15 árum, en eitt af því sem hann bendir á sem leið til þess að bæta stöðu almenns launafólks --- nú lendir maður í svolitlum þýðingarvanda því að enska orðið workers nær auðvitað yfir vinnandi fólk en hefur samt mjög ákveðna merkingu á ensku --- en hann bendir sem sagt á að ein leiðin til þess að bæta stöðu vinnandi fólks og þar með að draga úr öllum þeim félagslegum vandamálum sem hann hefur gríðarlegar áhyggjur af eins og fleiri er einmitt sú að bæta stöðu fyrirtækjanna þannig að þau geti hækkað laun, að þau geti fjárfest meira þannig að þau geti skapað störf. Vissulega hefur núv. ríkisstjórn og þá reyndar aðallega hin síðasta tekið allstór skref í þeim efnum með lækkun skatta á fyrirtækin og við höfum séð á undanförnum árum að staða fyrirtækjanna í landinu hefur batnað verulega. Þau hafa verið í mikilli tiltekt innan dyra og mörg fyrirtæki, sérstaklega þau stóru, hafa skilað gífurlegum hagnaði núna á síðasta ári t.d., án þess þó að það hafi orðið til þess að skapa ný störf innan þeirra dyra. En þau hafa líka verið að fjárfesta. Þau hafa verið að fjárfesta i öðrum fyrirtækjum og að byggja upp og má þar nefna t.d. ferðaþjónustu, samgöngur og ýmislegt. Auðvitað skiptir þetta máli. En hvar liggja hin réttu hlutföll á milli skattlagningar einstaklinga og skattlagningar fyrirtækja? Um það er auðvitað ákaflega erfitt að dæma. Og hvaða áhrif hefur einstök skattlagning?

[11:30]

Í Bandaríkjunum hefur átt sér stað mikil umræða um skattkerfið þar sem menn eru einmitt að ræða hugmyndir eins og þær að leggja niður tekjuskatt. Ég man eftir því að ég átti einhvern tíma umræðu um þetta mál við hv. þm. Svavar Gestsson. Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvað tekjuskatturinn er í rauninni óréttlátur og kannski ekki síst vegna þess hvað menn eru að skattleggja lágar tekjur. En ég man að hv. þm. sagði að þetta er þó eitt af þessum tækjum sem við höfum til þess að reyna að jafna byrðarnar í þjóðfélaginu. En það er svo að þetta er hlutfallsskattur og hér hafa menn ekki verið viljugir til þess að taka upp skattþrep að öðru leyti en hvað lýtur að svokölluðum hátekjuskatti sem er afskaplega aumlegur skattur. Í Bandaríkjunum eru menn komnir inn á þær brautir að leggja til að tekjuskattur verði lagður niður og menn taki fyrst og fremst upp virðisaukaskatt og lúxusskatta. Menn sem sagt skattleggi neysluna. Þá geta menn aftur spurt sig: Er það eitthvað réttlátara? Þannig að það er í raun og veru sama á hvaða skatt við lítum. Það er ákaflega erfitt að finna hið fullkomna og endanlega jafnrétti í þeim málum.

Ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að fara ítarlegar ofan í önnur atriði þessa máls. Í raun og veru hefur það legið algerlega fyrir frá upphafi hver hugsunin var. Það voru einstök atriði sem þurfti að kanna nánar. Til dæmis lagði nefndin til að forseti Íslands yrði ekki undanþeginn, en þeir í fjmrn. ákváðu að undanþiggja forseta Íslands. Þessu atriði sem snýr að góðgerðarfélögunum var beint sérstaklega til fjmrn. og menn komust að þeirri niðurstöðu að það væri afar erfitt að vera með undanþágur. En hér er lagt til í brtt. að það verði ákeðnar undanþágur sem snúa að líknarfélögum og slíkum félögum þótt vaxtatekjur þeirra verði eftir sem áður skattlagðar.

Mér fyndist koma mjög vel til greina að fjmrh. hefði einfaldlega heimild til þess að taka á slíkum málum. Ég get tekið undir að það er afar sérkennilegt að vera að skattleggja Rauða krossinn og ýmsar slíkar stofnanir og það er erfitt að sjá að það væri þvílík skriffinnska eða mikið mál að veita þessum aðilum undanþágu. Ég hygg að þarna sé ekki um það mikið fé að ræða og þetta er auðvitað hægt að gera eftir á. Það má endurgreiða slíkan skatt því að í framkvæmdinni er afar erfitt að vera með einhverjar undanþágur. Það kostar bankana að fara yfir lista og skoða nákvæmlega hverjir eru með undanþágu. Það er erfitt að taka á því eftir á og ég hefði kosið að menn skoðuðu þetta mál nánar. En kannski gæti hv. þm. Pétur Blöndal upplýst okkur um það hvaða umræður áttu sér stað í nefndinni um þetta mál. Hv. formaður efh.- og viðskn. þurfti að bregða sér frá og ég gaf honum leyfi til þess, krafðist þess ekki að hann væri við umræðuna. En hér situr hv. þm. Pétur Blöndal sem var í nefndinni og hefur fylgt þessu máli eftir og ég beini því til hans að hann upplýsi okkur um það hvaða umræður urðu um þessi mál. Kemur ekki til greina að hæstv. fjmrh. hafi einfaldlega heimild til þess að veita slíkar undanþágur eftir á?

Hæstv. forseti. Ég er kannski búin að segja það nokkrum sinnum en það koma alltaf upp ný og ný atriði sem þarf að minnast á. En varðandi það atriði að verið sé að færa fjármagn frá hinum fátæku til hinna ríku vil ég benda á þá staðreynd að það eru fyrst og fremst hinir efnameiri í samfélaginu sem munu borga fjármagnstekjuskatt og hafa fjármagnstekjur. Þetta var kannað rækilega. Að vísu bætast þar við almennir sparifjáreigendur, en eins og ég rakti í máli mínu er þessi skattur einfaldlega það lágur að það er erfitt að sjá að hann geti verið íþyngjandi. Af einni milljón mundu menn borga um 7--8 þús. kr. í þennan skatt eftir hver vaxtaprósentan er. Niðurstaða mín er því sú, hæstv. forseti, að þetta mál er vissulega gallað. En það var niðurstaða okkar kvennalistakvenna í umræðum um þetta mál að það væri svo mikilvægt að koma þessum skatti á að við gætum búið við gallana og reynt að taka á þeim eftir því sem þeir kunna að koma upp við framkvæmd málsins.

Ég ítreka aftur að ég áskil mér rétt til að skoða þá brtt. sem liggur fyrir frá minni hlutanum og minni á bókun fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Þar lögð þeir í raun og veru blessun sína yfir þessar tillögur. Þeir áskilja sér rétt fyrir hönd sinna þingflokka til að styðja þær brtt. sem til bóta geta talist, en sættast á og styðja niðurstöður nefndarálitsins að þeim frágengnum, eins og þar sagði á sínum tíma. Það hefur því alltaf legið fyrir að við mundum hugsanlega flytja breytingartillögur og styðja breytingartillögur, en eins og ég sagði áðan þarf ég að átta mig betur á því hvað þessi tillaga minni hlutans þýðir varðandi þak á arðgreiðslur og hvort það er rétt sem kom fram áðan að það þýddi í rauninni margfalda skattlagningu og nánast eignaupptöku, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi. En ég ítreka enn og aftur að það náðist samkomulag á sínum tíma um þetta mál með málamiðlun þar sem allir teygðu sig til hins ýtrasta. Hér er verið að koma á fjármagnstekjuskatti. Hér er verið að koma á samræmdri skattlagningu og það er mikilvægt að koma þessum skatti á. Það verður svo síðar meir að bæta úr göllunum, ef þeir reynast verulegir.