Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 12:24:04 (6897)

1996-05-31 12:24:04# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[12:24]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir, ég vil segja mjög skemmtilega og fróðlega ræðu, upplýsandi. Ég var sammála mörgu sem kom fram í hans máli og mér fannst það skýra ýmislegt sem hefur vafist fyrir mér.

Ég vil aðeins gera athugasemd við eitt í hans máli vegna þess að hann beindi því sérstaklega til okkar þingkvenna Kvennalistans og ég sperrti að sjálfsögðu eyrun enn þá betur en ég hafði gert. Hann orðaði það held ég eitthvað á þá leið eða meiningin var sú að fortakslausar kröfur um arðsemi fyrirtækja mundu, ég held að hann hafi næstum því sagt að það mundi útrýma misrétti milli karla og kvenna. Og þótti mér hann taka stórt upp í sig. Það má sannarlega vera að það skilaði einhverju í þessu sambandi, þ.e. ef forsvarsmenn fyrirtækja geta ekki leyft sér að taka, eins og hann orðaði það, óhæfan karlmann fram yfir hæfa konu. Væri nú gott ef það væri satt að arðsemiskrafan útrýmdi þessu misrétti sem er sannarlega fyrir hendi. En ég held að hv. þm. gleymi ýmsum öðrum atriðum sem hér skipta einnig máli og hafa kannski eitthvað með viðhorf að gera og það hver metur hæfileika og verðleika. En við þurfum að breyta fleiru heldur en arðsemiskröfunni --- ég held að hún skipti ekki svona geysilega miklu máli eins og hv. þm. sagði --- t.d. lögum og reglum um fæðingarorlof. Ég held að konur og karlar muni aldrei standa jafnfætis hvað störf og frama varðar á meðan konum er beinlínis refsað að þessu leyti til fyrir það að axla að mestu ábyrgðina af fjölgun mannkyns. Eitt hið mikilvægasta er þess vegna að jafna þennan mun með breytingu á lögum og reglum um fæðingarorlof og gera karlmenn ábyrgari.