Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 16:01:10 (6918)

1996-05-31 16:01:10# 120. lþ. 157.2 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[16:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fjármagnstekjuskattur hefur verið langþráð pólitískt stefnumarkmið alþýðuflokksfólks eins og allflestra sanngjarnra manna á miðju og vinstri væng stjórnmála. Það var kærkominn áfangi þegar fyrrv. ríkisstjórn náði um það samkomulagi að komið yrði á fjármagnstekjuskatti. En þessu þýðingarmikla máli hefur gersamlega verið snúið á hvolf. Í stað þess að afla tekna fyrir ríkissjóð verður hann að öllum líkindum af háum upphæðum skatttekna sem renna munu í vasa stóreignamanna vegna lækkunar á skatti af arði. Þessi niðurstaða er þyngri en tárum taki. Með þessum lögum er þjóðinni skattalega skipt í tvær andstæðar fylkingar. Annars vegar launamanninn sem borgar skatt af öllum tekjum sínum, 42--47%, og hins vegar stóreignafólkið sem bíður nú í óþreyju eftir skattalækkun á arðgreiðslum úr 42% í 10% og milljónunum sem breytingin færir þeim í vasann. Þetta frv. mun kalla á meiri eigna- og tekjutilfærslur í okkar samfélagi en áður hafa þekkst.

Við stöndum ekki að þessari útfærslu og ég minni á vegna athugasemda þingmanns hér áðan um fyrirvara fulltrúa okkar í undirbúningsnefnd þessa frv. að Alþfl. styður, virðulegi forseti, að frv. sé vísað frá.