Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:18:11 (6939)

1996-05-31 17:18:11# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:18]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir við hv. þm. að það séu rök fyrir afnámi línutvöföldunarinnar að stóru skipin eða útileguskipin með beitningavélum séu að auka sinn hlut í pottinum og þar af leiðandi sé best að taka þetta af. Það eru auðvitað margar aðrar aðferðir færar í því máli sem slíku aðrar en sú að svipta þær landróðraútgerðir með hefðbundnu sniði sem enn eru við lýði og vilja halda þessari tegund áfram, að svipta þær möguleikum til þess. Ég spái því að hv. þm. eigi eftir að rekast á afar óánægða útgerðarmenn í sínu kjördæmi sem eru ósáttir við það að þeirri útgerð og því mynstri sem þeir hafa byggt upp og stundað núna á undanförnum árum verði breytt. Það eru allmargar stórar landróðraútgerðir sem reka bæði útgerð og fiskvinnslu sem eru verulega háðar þessari tilhögun yfir vetrartímann, m.a. í kjördæmi hv. þm. á Snæfellsnesi. Sama á við um Suðurnes. Það er líka ljóst að talsvert af minni bátum hefur getað gert sér verulegan mat úr þessum möguleikum yfir vetrartímann og óttast nú mjög um sinn hag. Ef það væri eina vandamálið sem við væri að glíma eins og ráða mátti í af máli hv. þm. þá hefðum við átt að nálgast það sérstaklega, ráðast þar að rótum vandans og taka á því, annaðhvort að setja línutvöföldunarskipin hreinlega út með sína aflareynslu eða loka hópnum eða festa einhvern veginn hlutföll milli þessara aðila þannig að við því væri séð. Mér finnst það ekki fullnægjandi rökstuðningur að koma og segja að vegna þess að þetta er að þróast svona þá bara tökum við þetta af og það verður að hafa það þó að það komi harkalega niður á þeim sem línutvöföldunin var í upphafi hugsuð fyrir. Eiga þeir þá að gjalda þess? Það finnst mér vera að hengja bakara fyrir smið.