Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:20:23 (6940)

1996-05-31 17:20:23# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:20]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nú ekki heyrt rökin sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur hins vegar fært fyrir afstöðu sinni sem mér hefur heyrst að væri að hann væri fylgjandi þessari breytingu, afnáminu á línutvöfölduninni. Ég hef ekki heyrt að hann væri á móti því að afnema línutvöföldunina. Ég vildi því fá að heyra rök hv. þm. fyrir þeirri afstöðu hans. En ég tel að þetta sé ekki eina ástæðan, þ.e. að stóru vélskipin sæki svo mjög í pottinn. Við sáum það bara á síðasta tímabili að þá dugði potturinn ekki út tímabilið sem aldrei hefur gerst held ég áður. Það var vegna þess að sóknin var mjög harkaleg við línuveiðarnar. En ég tek út af fyrir sig undir það með honum að það eru ekki einu rökin fyrir þessari breytingu. Það eru ekki einu rökin. Þau eru svo sem fleiri og mér er alveg ljóst að það eru vissar áhyggjur í mínu kjördæmi hjá útgerðarmönnum vegna þessa. En ég tel samt sem áður að hér sé ásættanleg niðurstaða lögð til, þ.e. sú regla sem valin er, að velja tvö bestu árin af þremur. Að vísu kemur hún harkalega við tilteknar útgerðir sem hafa á undanförnum árum stundað línuveiðar en hafa ekki stundað línuveiðar síðustu þrjú árin að miklu marki. En það er nú þannig að það er aldrei hægt að setja undir allan leka þegar verið er að breyta. Eftir rækilega skoðun á þessu máli varð það mín niðurstaða að þetta væri ásættanlegur kostur þó hann sé að ýmsu leyti erfiður.