Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:22:44 (6941)

1996-05-31 17:22:44# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:22]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Við verðum þá bara að vera ósammála um það ég og hv. þm. Það sem ég bendi á er að menn hafa m.a. sótt af þessum krafti yfir línutvöföldunartímann núna síðasta vetur og jafnvel sl. tvö ár vegna væntinga um að þetta yrði fært yfir í kvóta þannig að menn væru að mynda aflareynslu. Það liggur alveg fyrir að það er búin að vera uppi umræða um að þetta verði tekið af og fært yfir í kvóta og þess vegna hafa menn vitandi vits eins og kemur á daginn verið í kapphlaupi um að ná sem mestri aflareynslu á þeim viðmiðunarárum. Mönnum verður alveg nákvæmlega að væntingum sínum með þeirri aðferð sem hæstv. ríkisstjórn er hér að leggja til, alveg nákvæmlega. Þeir sem af mestu ofurkappi hafa sótt á grundvelli línutvöföldunar síðustu tvær vertíðir eru verðlaunaðir vegna þess að nú fá þeir það allt saman yfir í kvóta. Hinir sem hafa kannski stundað hefðbundna línuútgerð á sínum bátum og hafa ekki ráðist í kaup á nýjum skipum og hafa ekki aukið útgerðina, þeir sitja eftir. Það er nákvæmlega þannig sem þetta gerist.

Í öðru lagi kom það skýrt fram í máli mínu að ég er andvígur þessari breytingu svona útfærðri. Það kemur fram í mínu nál. og ég tók það fram í mínu máli. Með öðrum orðum tel ég þá af tvennu illu betra að hafa óbreytt ástand sem ég viðurkenni reyndar að er ekki gott. Þar ætti að gera a.m.k. ákveðnar ráðstafanir eins og þær að loka hópnum þannig að ekki komi inn í hann nýir aðilar. Afmarka þetta þá við þá sem hafa aflareynslu í línutvöföldun á undanförnum árum. Ef þetta er hins vegar gert á að taka breiðari viðmiðun. Það er bersýnilega ósanngjarnt gagnvart hefðbundinni línuútgerð, landróðraútgerð frá undanförnum árum að gera þetta svona, að taka bara tvö bestu árin af þremur síðustu sem færir verulega til innan hópsins frá hefðbundnu útgerðinni yfir til útileguskipanna sem hafa stóraukið hlut sinn sl. tvö ár.