Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 17:24:41 (6942)

1996-05-31 17:24:41# 120. lþ. 157.10 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[17:24]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mætti halda að hv. 4. þm. Norðurl. e. væri að tala við einhvern sérstakan andstæðing línuútgerðar. Það er nú bara alls ekki þannig. (SJS: Hv. þm. ætlar að styðja þetta.) Ég tók það sérstaklega fram að ég hef verið talsmaður þess að styrkja og verja línuútgerðina. Afstaða hv. þm. er hins vegar alveg ,,týpísk stjórnarandstöðuafstaða``. Þ.e., jú, hann getur samþykkt þetta en ekki svona, ekki með þessari útfærslu, heldur með einhverri annarri óskilgreindri sem ekki kemur fram í breytingartillögu. Það geta hv. þm. Sjálfstfl. borið vitni um að ég hef verið andstæðingur þess að fella niður tvöföldunina. En ástæðan fyrir því að ég styð þessa breytingu núna er að ég tel að á heildina litið sé þetta hagstæðara fyrir línuútgerðina vegna þess að línutvöföldunarpotturinn hefur verið stærra hlutfall af heildaraflaheimildunum síðustu þrjú árin en áður. Það er auðvitað aðalatriðið. Auðvitað er vont að geta ekki tryggt hagsmuni allra. En með þessari aðferð, með því að taka þrjú ár og taka tvö bestu fyrir bátana af þremur þá náum við stærsta pottinum, hæsta hlutfallinu út úr heildaraflaheimildunum. Og það er auðvitað aðalatriðið fyrir okkur, a.m.k. á Vesturlandi, að ná inn í línuveiðarnar stærra hlutfalli en annars hefði orðið. Ef við hefðum verið að teygja okkur mörg ár aftur í tímann þá er það hlutfall lægra. Ég held að það sé aðalatriðið og það atriði sem þingmenn hafa gert að meginröksemd fyrir þessari niðurstöðu og þeirri afstöðu að styðja þessar breytingar.