Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:21:32 (6961)

1996-05-31 21:21:32# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:21]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dáist enn þá að hv. þm. fyrir það að gefa sig út fyrir það að vera sérfræðingur í þessari mismunun. Ég nefni sem dæmi að við höfum 14% skatt á matvæli flest hver. En hins vegar ef það á að fara að elda þann sama mat, er há vörugjaldsprósenta á tækin sem þarf til þess að elda matinn hvort sem það eru eldavélar, ofnar, örbylgjuofnar eða hvað þetta allt saman heitir. Ég nefni að það er 14% skattur á appelsínum. Hins vegar ef þær hinar sömu appelsínur eru kreistar og búinn til úr þeim appelsínudjús með því að blanda vatni út í, hefur verið 18% vörugjald og 24,5% virðisaukaskattur. Hv. þm. kemur eflaust upp og segir að rökin fyrir því séu þau að það þurfi að kreista eins mikið úr appelsínunum og hægt er.

Ég nefni sem dæmi að það er orðið hátt vörugjald á sjónvarpstækjum og hljómflutningstækjum. Síðan horfum við upp á að það er ekkert vörugjald á tölvum. Hins vegar eru öll þessi tæki að renna saman í eitt þannig að nú er verið að auglýsa fyrir fermingarbörnin tölvur sem eru bæði hljómflutningstæki og sjónvörp og hv. þm. getur eflaust skýrt það út af hverju það er.

Varðandi manneldissjónarmið þá hef ég aldrei vitað til þess að ís væri sérstaklega óhollur ef hans er neytt í hófi og svo hef ég heldur aldrei skilið það hvernig stendur á því t.d. þegar ég er að gefa börnunum mínum á morgnana súrmjólk með vænum skammti af púðursykri, af hverju það eigi að skattleggja það eitthvað minna heldur en þegar ég gef þeim mjólk með Cheerios.