Vörugjald

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 21:25:44 (6963)

1996-05-31 21:25:44# 120. lþ. 157.4 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[21:25]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ágæta ræðu og hann kom víða við. En mig langar til að spyrja hann einnar spurningar.

Nú er það þannig að virðisaukaskattur á vinnustað er frádráttarbær og við skulum hugsa okkur að það sé 10% dýrara að framleiða t.d. glugga á vinnustað en á verkstæði. Það þarf að flytja vélarnar til og allt slíkt. En það sé samt sem áður ódýrara af því að virðisaukaskatturinn er endurgreiddur. Þetta er að sjálfsögðu óhagkvæm stýring --- því þetta er stýring --- þjóðhagslega en hagkvæm vegna þess hvernig skattakerfið býr þetta til. Telur þingmaðurinn þetta eðlilegt?

Þá er í greinargerð minni hlutans mjög skemmtileg niðurstaða í lið 4, þar sem þeir segja að þessi minnkun á endurgreiðslu muni valda meiri undanskotum. Þeir vilja segja að þegar virðisaukaskatturinn er hækkaður úr 0% upp í 10% --- hann verður 10% eftir að 60% eru endurgreidd --- þ.e. þegar 15% eru endurgreidd í staðinn fyrir 25% þá verði virðisaukaskatturinn á vinnustað 10%. Menn telja að sú skattlagning, 10%, muni valda undanskotum. Ég spyr: Er þá ekki minni hlutinn sammála meiri hlutanum í því að það væri mjög mikið óráð að hækka virðisaukaskattinn á allt landið og miðin úr 24,5% upp í 25%? Mundi það ekki valda enn meiri undanskotum og er ekki akkúrat í þessum röksemdum kominn sá punktur að sérhver hækkun á virðisaukaskatti valdi það miklum undanskotum að tekjur ríkissjóðs minnki?