Tóbaksvarnir

Föstudaginn 31. maí 1996, kl. 22:02:51 (6973)

1996-05-31 22:02:51# 120. lþ. 157.12 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, Frsm. ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 157. fundur

[22:02]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að taka af tvímæli um að hafi þingheimur misskilið mitt mál á þann veg að ég hafi ætlað að hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir væri tyggjandi skro alla daga hér í þingsölum þá er það ekki þannig. (HG: Það var sagt þannig.) Það var ekki sagt þannig. Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að ég hef ekki orðið var við óhóflega munntóbaksneyslu af hálfu hv. þingkonu. Hitt er annað mál að mér er kunnugt um það að í æsku sinni komst hún í tæri og jafnvel kynni við þessa tegund tóbaksvarnings og ég tel henni það til tekna að hún hafi þessa lífsreynslu umfram mig og aðra þá sem erum mjög andsnúnir tóbaksneyslu yfir höfuð.

Ég vil hins vegar, herra forseti, nota þetta tækifæri og þakka hv. þingkonu fyrir gott samstarf í þessum efnum. Við höfum hert verulega á því frv. sem kom frá hæstv. ríkisstjórn og var auðvitað allt of lint. Enn fremur, herra forseti, vil ég þakka guði fyrir að enn finnast menn og konur í Sjálfstfl. sem standa upp fyrir rétt einstaklingsins og hafna því þegar verið er að leggja á hann bönd ofstýringar, bönd miðstýringar og jafnvel fara að skrifa það inn í lagabókstafinn hvort honum sé heimilt að taka í vörina eða ekki. Ég spyr, herra forseti, hvernig eiga menn að framfylgja þessu þegar erlendir menn koma í heimsókn til landsins? Hvernig eigum við að komast að því hvort þeir flytji með sér inn í landið munntóbak? Á e.t.v. að gá upp í túlann á hverjum einasta túrista sem kemur inn í landið? (HG: Berháttaðir.)