Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 22:48:06 (7114)

1996-06-03 22:48:06# 120. lþ. 158.31 fundur 89. mál: #A notkun steinsteypu til slitlagsgerðar# þál. 19/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[22:48]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1099 frá samgn. um till. til þál. um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar. Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóra.

Fram hefur komið að stofnkostnaður við notkun steinsteypu til slitlagsgerðar er hár og því hefur hingað til verið talið að slíkt svaraði ekki kostnaði nema þar sem umferð er mikil. Reynsla af notkun steinsteypu er hins vegar góð og hún talin nýtast vel sem undirlag.

Nefndin leggur til, með hliðsjón af umsögn iðnaðarnefndar og umsögnum um samhljóða tillögu frá 117. löggjafarþingi frá Vegagerð ríkisins, Malbikunarstöðinni Hlaðbæ-Colas hf., Sementsverksmiðjunni hf. og borgarverkfræðingnum í Reykjavík, að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo: ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar á vegum þar sem álagsumferð er mikil og við flugvallagerð. Könnunin nái til nýlagningar og endurnýjunar slitlags og verði lokið á árinu 1997.``

Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu. Undir nefndarálitið rita Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Stefán Guðmundsson, Egill Jónsson, Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ragnar Arnalds og Gísli S. Einarsson.