Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 16:08:21 (7216)

1996-06-04 16:08:21# 120. lþ. 160.1 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, SvanJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[16:08]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þessi dularfulli texti sem við greiðum nú atkvæði um segir okkur það að nú þegar línutvöföldunin verður lögð af verður þeim potti úthlutað að 60% til þeirra sem hafa nýtt sér slíkar heimildir á undanförnum þremur árum. 40% verður hins vegar úthlutað til þeirra sem þegar hafa veiðiheimildir í efnahagslögsögunni. Um er að ræða um 17 þús. tonn af ýsu og þó aðallega þorski og er ljóst að um er að ræða verðmæti upp á nokkra milljarða kr. Áður var úthlutun úr þessum sameiginlega potti bundin því að menn veiddu á ákveðnum tíma með ákveðnu veiðarfæri en nú er þessum potti úthlutað án skilyrða sem hlutdeild í heildarþorskaflanum. Þetta verður því framseljanlegur kvóti frá þeim degi sem lögin taka gildi.

Herra forseti. Mér finnst ótækt að Alþingi Íslendinga taki æ ofan í æ ákvarðanir sem þessar um tilfærslur á milljörðum. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessari grein.