Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 18:17:46 (7238)

1996-06-04 18:17:46# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[18:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það komu nokkrar fyrirspurnir frá hv. síðasta ræðumanni sem ég vil svara. Hann talaði um það að kynning hafi ekki verið nógu mikil á þessu máli á sjúkrahúsunum og þá er hún að tala um skýrsluna sem við höfum vitnað í. Þegar skýrslan var lögð fram var kynning á öllum sjúkrahúsunum á þessum tillögum og í bakhópi þessarar nefndar voru stjórnarformenn þessara sjúkrahúsa. Og þeir hljóta að hafa kynnt sínar tillögur í stjórninni því þeir voru náttúrlega til þess í þessum bakhópi. Alla vega hef ég fengið síðan athugasemdir frá þessum sjúkrahúsum þannig að það er alveg ljóst að þetta var mjög vel kynnt.

En það er alltaf svo að menn ná ekki fullkomu samkomulagi, ekki um allt og við alla. Til þess eru hagsmunirnir allt of miklir í þessu máli.

Varðandi það sem snýr að frv. um samninga við starfsfólk gat ég þess í upphafi máls míns að til þess að koma til að koma til móts við borgina væri ég tilbúin til að taka þessa setningu út úr frv. En jafnvel þótt þessi setning væri inni í frv. er ekki hægt að kalla það einhverja sérstaka íhlutun í buddu borgarinnar því raunveruleikinn er sá að ríkið borgar allan rekstur þessara stofnana. Það má ekki gleymast í þessari umræðu.

Ég held að það sé mikill misskilningur í því fólginn hjá hv. þm. þegar hún telur að það muni skapast óvissa og glundroði af því að ekki sé ljóst hverjir stjórna. Þetta ráð fær viss verkefni og í þessu ráði eru formenn stjórnanna sem eru að sjálfsögðu tengiliðir inn í aðalstjórnina. En þarna er verið að fela þessu samstarfsráði viss verkefni og ég hef sagt það oft í dag úr þessum ræðustól nákvæmlega hvað sparast með þessu. Það er talið að það sparist um 230 millj. kr. árlega með því að samhæfa vissar deildir sem faglega er hagkvæmt að sameina.