Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 18:20:31 (7239)

1996-06-04 18:20:31# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[18:20]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þau eru samt ekki fullnægjandi að mínu mati. Hæstv. ráðherra sagði að fram hefði farið kynning á spítölunum um tillögur nefndarinnar. Ég ætla ekki að vefengja það. Það er eflaust satt og rétt hjá hæstv. ráðherranum. Það sem ég var fyrst og fremst að gagnrýna er að stjórnum sjúkrahúsanna skuli ekki gefið tækifæri á að gefa formlega umsögn um málið eins og það endanlega er lagt fyrir þingið. Þetta frv. er það sem verður að lögum. Ég var að reyna að benda á það áðan að eitt væri nefndarálit með kannski ítarlegum útfærslum á einhverjum hlutum og annað stutt lagabreyting með stuttri greinargerð. Og þó hún eigi að vera byggð að mestu leyti á tillögum nefndarinnar þá eru það lögin ein sem eftir standa og greinargerðin er lögskýringagagnið en ekki nefndarálitið. Það er því mjög mikilvægt að þeim sem eiga að gefa umsögn um málið sé gefinn kostur á því að gefa um það umsögn eins og það endanlega lítur út og er lagt fyrir þingið.

Þeir sem ég hef verið að spyrja um þetta mál hafa fullyrt að hér sé ekki byggt á tillögu nefndarinnar að öllu leyti. Það sé verið að taka það að hluta til en að öðru leyti ekki. Auðvitað skiptir það höfuðmáli jafnvel þótt málið hafi verið kynnt á sínum tíma að gefin sé formleg umsögn um það mál sem hér er til umræðu og verður að lögum frá Alþingi Íslendinga. Og ég hef ekki enn fengið svar frá hæstv. ráðherra um það hver ræður ef stjórnir sjúkrahúsanna eru ósammála ráðinu um einstaka ákvarðanir sem snerta þau mál sem ráðinu er falin. Er verið að koma því þannig fyrir að það sé verið að taka þennan málaflokk fyllilega frá stjórnum sjúkrahúsanna og færa hann yfir á þetta ráð? Óttast ráðherrann ekki að það komi upp ágreiningur um tiltekið mál sem kunni að vera á mörkum þessara málaflokka og einhverra annarra málaflokka? Hver er það þá sem í raun úrskurðar um það hvar verkefnin eigi að vera? Er það fyllilega skýrt að mati ráðherrans?