Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 04. júní 1996, kl. 18:25:47 (7242)

1996-06-04 18:25:47# 120. lþ. 160.13 fundur 524. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (svæðisráð sjúkrahúsa) frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[18:25]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég hef óskað að taka til máls í þessum umræðum um frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég vil byrja á því áður en lengra er haldið að endurtaka ýmislegt af því sem fór fram í þingsölum í dag. Meðal annars vil ég aftur lýsa óánægju minni með það að hæstv. ráðherra skyldi í umræðu um lokanir sjúkradeilda og fjárhagsvanda sjúkrahúsanna í Reykjavík núna þessa vikurnar, dagana og mánuðina blanda saman málum og kalla yfir þingið þá umræðu sem fór fram og með því leiða umræðuna í raun frá því mikilvæga máli sem þá var á dagskrá. Nú er þetta mál komið formlega á dagskrá þannig að hægt er að ræða það.

Herra forseti. Ég hef löngum verið talsmaður þess að komið verði á skipulagi heilbrigðismála í landinu. Ég tel mjög brýnt að svo sé gert. Verkaskipting sjúkrahúsa verði skýrð, ekki bara sjúkrahúsa í Reykjavík eða Reykjavíkursvæðinu, heldur enn fremur að ákveðin verkaskipting verði skýrð á milli sjúkrahúsa, annars vegar höfuðborgarinnar og hins vegar landsbyggðarinnar. Ég held að það sé mikilvægt að það sé rætt og ákveðið í sátt og samlyndi hvaða þjónustu hver stofnun er fær um að veita hver um sig og hverju skuli vísað til t.d. sérhæfðu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.

Það var stigið skref í þessa átt til að sameina sjúkrahús þegar Borgarspítalinn í Reykjavík og Landakot voru sameinuð undir einni stjórn og heitir þá Sjúkrahús Reykjavíkur. Það hefur verið víða rætt um samstarf sjúkrahúsa, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis. Það má vísa til þess að í Kaupmannahöfn hefur verið stofnað til mjög náins samstarfs sjúkrahúsanna þar. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að skipað verði svæðisráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi, Ríkisspítala, Sjúkrahúss Reykjavíkur, Sjúkrahúss Suðurnesja í Reykjanesbæ og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Eins og fram kemur í frv. á það að vera hlutverk þessa svæðisráðs að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu áðurnefndra sjúkrahúsa, flokkun þeirra og starfssviðs og þróunar- og fjárfestingaráætlanir og stuðla þannig að sem hagkvæmastri verkaskiptingu þeirra. Þá er enn fremur kveðið á um það í þessu frv. að ráðherra geti falið ráðinu framkvæmd einstakra verkefna á sviði öldrunar og endurhæfingar, samninga við starfsfólk og samræmingu starfsmannastefnu eins og svo oft hefur verið komið inn á í dag. Þá er svæðisráðinu ætlað að fylgjast með því að það sé gætt fyllstu hagkvæmni í rekstri sjúkrahúsanna og þau starfi í samræmi við fjárveitingar og þær áætlanir sem gerðar hafa verið.

Hæstv. heilbrrh. hefur í dag gert grein fyrir tilurð þessa frv. og skýrt fyrir Alþingi að þetta sé afurð nefndar sem vann undir stjórn heilbrrn. að tillögum í þessa átt. Það hefur líka komið fram í máli hæstv. ráðherra að vegna þeirra breytinga sem urðu á starfsemi sjúkrahúsanna í Reykjavík, þ.e. þegar Sjúkrahús Reykjavíkur var stofnsett, væri nauðsynlegt að breyta lögum um samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík og m.a. þess vegna er þetta frv. lagt fyrir Alþingi.

[18:30]

Herra forseti. Ég get tekið undir það að margt í tillögunum sem fram koma í þessu frv. er áhugavert og til þess fallið án minnsta vafa að auka hagkvæmni í heilbrigðisþjónustunni. Ég tel mikilvægt að farið sé vel með þá fjármuni sem til heilbrigðisþjónustunnar er varið. Ég tel mjög mikilvægt að sjúkrahúsin fái skýra verkaskiptingu til þess einmitt að geta nýtt fjármuni sem best. Ég held hins vegar að það hefði verið mikilvægt á þessu stigi að það væri skoðað enn betur hvernig við hefðum hugsað okkur að koma á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar í landinu öllu. Það hefur fram í máli hæstv. ráðherra að verið sé að vinna að tillögum um starfsemi sjúkrahúsanna eða þessara heilbrigðisumdæma eins og mér skilst að þau hafi verið nefnd. Það liggur ekkert fyrir um það hvernig þeim málum verði skipað. Ég neita því ekki, herra forseti, að ég hefði talið eðlilegt að það kæmi til umræðu og þetta væri allt skoðað í samhengi, höfuðborgarsvæðið og landið allt.

Herra forseti. Það hefur komið mjög oft og ítarlega fram í dag að svo virðist sem samráð um þetta mikilvæga mál hafi ekki verið haft við stjórnir þeirra sjúkrahúsa sem hér eru til umræðu. Það sýna viðbrögð fulltrúa Reykjavíkurborgar og fulltrúar stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur og það sýna líka viðbrögð stjórnar sjúkrahússins í Keflavík eða Sjúkrahúss Suðurnesja. Það leiðir hugann að því hvernig þetta hefur verið unnið því þrátt fyrir að nefndin sem þessa tillögu vann hafi verið skipuð fulltrúum þeirra stofnana sem hér um ræðir, þá hefur málið einhverra hluta vegna ekki farið til formlegrar umfjöllunar stjórnar þessara sjúkrahúsa.

Þó svo ég geti tekið undir að það sé mjög mikilvægt að samræma og koma á skýrri verkaskiptingu sjúkrahúsanna, þá hef ég engu að síður ákveðnar efasemdir um það hversu stórt þjónustusvæði slíkra svæðisráða, ef til kæmi, skuli vera. Ég hef ákveðnar efasemdir um það að t.d. eitt sjúkrahús eins og sjúkrahúsið á Reykjanesi, sjúkrahúsið í Keflavík eigi að koma inn í þetta án þess að maður skoði eins og fram hefur komið í dag stöðu Sjúkrahúss Suðurlands og Sjúkrahússins á Akranesi því að fjarlægð þessara sjúkrahúsa er ekkert meiri frá höfuðborgarsvæðinu en Sjúkrahúss Keflavíkur og er óeðlilegt að taka það eitt sér út.

Þá hef athugasemdir við þær tillögur sem hér liggja fyrir um fulltrúa í svæðisráðinu. Ég geri ráð fyrir því að stóru sjúkrahúsin í Reykjavík, Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalar hafi við það einhverjar athugasemdir fram að færa að þeirra vægi í slíku svæðisráði sé jafnmikið og minni sjúkrahúsanna. Þetta hefur varla verið rætt en mun sjálfsagt kalla á einhver viðbrögð frá stjórnum þessara sjúkrahúsa.

Herra forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það gæti hugsanlega náðst einhver sátt um skipulag og nánara samstarf sjúkrahúsanna í Reykjavík og jafnvel á Reykjanesi en það þarf að ræða við þá aðila sem þar þurfa að koma að. Ég geri mér grein fyrir því að mikil vinna hlýtur að vera fram undan í því að skýra nánar hvað fyrir mönnum vakir með þessu frv. því að það hafa ekki allir haft tækifæri hvorki á Alþingi né í stjórnum þessara sjúkrahúsa til að kynna sér ítarlega þær tillögur sem umrædd nefnd skilaði frá sér.

Ég vil aftur víkja að skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á landinu öllu og beina þeim spurningum til hæstv. heilbrrh. hvort það væri ekki eðlilegt að öll þessi mál væru rædd í samhengi hvert við annað og eins og ég sagði áðan að það yrði komið með tillögur um það hvernig verkaskipting sjúkrahúsanna skal vera, hvort sem það er í Reykjavík þar sem sérhæfðu sjúkrahúsin eru eða úti á landsbyggðinni og þá a.m.k. að verkefni sjúkrahúsanna þar og verkaskipting væri líka skýrð og hvaða þjónustustig á að vera þar. Ég geri þetta að umtalsefni vegna þeirra hugmynda sem hafa flogið í umræðunni um þessi heilbrigðisumdæmi --- ég hef ekki heyrt neitt annað nafn um þetta, herra forseti --- því ég hef ákveðnar efasemdir og óttast að verði ekki gengið svo frá málum að það sé okkuð ljóst hvaða þjónustu þessar stofnanir eiga að veita í framtíðinni, þá getum við staðið frammi fyrir því --- þar sem þeim mun falið það verkefni jafnvel að stýra öllu fjármagni heima í héraði --- þá gæti maður óttast að það væri í raun og stundum verið að setja átthagafjötra á sjúklinga. Það gæti snúist upp í það, herra forseti, að menn sæju fremur hag í því að halda sjúklingum heima í héraði heldur en að senda þá til sérgreinasjúkrahúsanna í Reykjavík. Og þá spyr maður hvort það gæti þá ekki leitt til þess að það mundi ríkja ójafnræði og það mundi stuðla að því að fólki væri mismunað með tilliti til aðgengis að heilbrigðisþjónustunni.

Ég tel að það hefði verið farsælla í þessari stöðu að þetta mál kæmi ekki inn á Alþingi fyrr en vinna við öll þessi mál er komin lengra og á lokastig þannig að menn gætu skoðað skipulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu í heild.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það er margt á höfuðborgarsvæðinu sem þarf að skýra. T.d. þarf að koma á betra skipulagi og þjónustu við aldraða, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem í raun ríkir ófremdarástand. Þá á ég við þjónustu öldrunardeilda. Það er enn fremur mjög mikilvægt, eins og fram kemur í þessu frv., að koma skipulagi á endurhæfingarmálin og tryggja að fólk hafi aðgang að þessari mikilvægu þjónustu.

Herra forseti. Ég held að það væri mjög skynsamlegt af hæstv. heilbrrh. að vísa þessu máli til vinnu í sumar til heilbrn. Alþingis sem mundi þá hafa tíma til þess að kalla til þá aðila sem hljóta að verða að koma að málinu. Það hlýtur að þurfa að fá formlega umsögn stjórna þessara sjúkrahúsa sem eiga í hlut en það hefur ekki gefist enn svigrúm til þess.

Þá vil ég enn fremur hvetja hæstv. heilbrrh. til þess að það verði reynt að koma á einhverri heildarsýn í þeirri vinnu sem nú er í gangi í heilbrrn. um skipulag heilbrigðisþjónustunnar á landsvísu, vinnu sem hópur um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni á að vinna og fleiri mál sem eru til umræðu og snerta þetta mikilvæga mál, þannig að Alþingi og þeir aðilar sem að málunum þurfi að koma hafi tækifæri til þess að skoða þetta mál í heild sinni.

Ég vil gjarnan gera að umtalsefni á nýjan leik orð hæstv. heilbrrh. sem féllu í dag um að með andófi stjórnarandstöðu væri verið að koma í veg fyrir hagræðingu á sjúkrahúsunum og auka á fjárhagsvanda þeirra jafnvel. Herra forseti. Ég tel þetta vera tvö aðskilin mál. Ég tel að við stöndum frammi fyrir ákveðnum og mjög alvarlegum fjármagnsskorti stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu. Við stöndum frammi fyrir því að lokanir á sjúkradeildum á höfuðborgarsvæðinu hafi aldrei verið meiri. Þetta er vandi sem þarf að leysa nú þegar. Frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem lýtur að skipun sjö manna svæðisráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík er auðvitað mál sem snertir framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunnar og verður að ræðast sem slíkt. Þó að hæstv. ráðherra hefði tekist að koma þessu máli í gegnum þing, þá hefði það ekki orðið til þess að leysa þann vanda sem við okkur blasir nú varðandi lokanir sjúkradeilda. Ég vil því, herra forseti, endurtaka áskorun mína til hæstv. ráðherra um að líta á þessi mál sem tvö aðskilin mál, taka til við að leysa þau vandamál sem sjúkrahúsin í Reykjavík standa frammi fyrir núna og gefa síðan heilbrigðisnefnd Alþingis og öðrum sem að málinu þurfa að koma tækifæri til þess að nota sumarið og skoða málið í heild sinni þannig að við gætum hugsanlega sameinast um heildstæða skipan mála í sátt við þá sem málið varðar.