1996-06-05 00:00:22# 120. lþ. 160.14 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 160. fundur

[24:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það mál segja að við séum að tala um hlutina svolítið í öfugri röð. Enn hefur ekki reynt á stjórnmálalegan vilja varðandi úthafsveiðisamninginn en samt sem áður erum við að fjalla um frv. til laga um úthafsveiðar eða um fiskveiðar utan lögsögu Íslands sem menn þykjast byggja á þessum sama samningi.

Ég held að margir séu sammála því og líklega flestir að lögin frá 1976 séu ekki að öllu leyti fullnægjandi, en jafnframt hygg ég að þeir hinir sömu séu flestir einnig á þeirri skoðun að við þetta verk eigum við að flýta okkur hægt. Það er ljóst eins og ég sagði áðan að það hefur ekki reynt á stjórnmálalegan vilja Alþingis varðandi úthafsveiðisamninginn. Þó svo að Ísland hafi skrifað undir samninginn strax, þá á Alþingi eftir að fjalla um hann og samþykkja þá þingsályktun sem liggur fyrir samningnum til fullgildingar og síðan á eftir að fara í gang atburðarás sem við vitum ekki hvað tekur mörg ár.

Það tók mörg ár að fullgilda hafréttarsamninginn og ég held að það sé ekki ástæða til að ætla að fullgilding þessa samnings gerist rétt eins og hendi verði veifað. Í ljósi þessa og fjölmargra efnisatriða ættum við að flýta okkur hægt. Við eigum að vinna þetta verk af vandvirkni og við eigum að vinna það með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Ef við spyrjum okkur, herra forseti, hverjir séu heildarhagsmunirnir, þá eru þeir, á því stigi málsins sem við erum stödd nú, veiðireynsla og aftur veiðireynsla. Það eru hinir stóru almannahagsmunir í þessu máli. Það eru hagsmunir útgerða sem hafa verið á úthafinu. Það eru hagsmunir okkar allra upp á framtíðina að við öflum okkur sem víðtækastrar og sem mestrar veiðireynslu vegna þess að þegar kemur að því að við þurfum að semja formlega á grundvelli úthafsveiðisamningsins einhvern tíma í framtíðinni, þurfum að semja um aðild okkar að veiði á tilteknum svæðum, þá verður það veiðireynslan sem ræður úrslitum um hvort eitthvað og þá hversu mikið kemur í okkar hlut. Þess vegna, herra forseti, er allt það sem setur veiðina í hættu, allt það sem getur haft hamlandi áhrif á sókn okkar skipa á úthafið, allt það sem kemur í veg fyrir að við öflum okkur frekari veiðireynslu, á móti almannahagsmunum. Þetta var um framtíðina.

Þó að það séu einungis þrjú ár frá því að fyrsta skipið fékk svokallaða B-skráningu á Íslandi, þá eru þau aflaverðmæti sem við fáum frá úthafsútgerðunum nú þegar einhvers staðar á bilinu frá 8--10% þeirra aflaverðmæta sem við fáum af sjávarfangi. Ef horft er til landaðs afla í öllum heiminum, þá veiðist um 10% af þeim afla á úthöfum. Þannig erum við nú strax eftir þetta þriggja ára tímabil að ná upp í það meðaltal sem gildir um þá veiði sem fram fer á úthöfunum. Það er eins og hér hefur verið rakið af öðrum hv. ræðumönnum í kvöld í raun merkilegt að sókn okkar á úthafið skyldi ekki hefjast fyrr í þessari lotu --- við megum auðvitað ekki tala eins og þetta hafi aldrei gerst áður --- í þessari lotu. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem þekkir upphaf máls frá sjónarhóli þess sem í ríkisstjórn hefur setið við þær aðstæður að þessi sókn var að hefjast rakti upphaf þessa máls nokkuð hér áðan.

En það er merkilegt, herra forseti, að á þrem árum hefur veiðin vaxið nánast úr engu. Ég vék að því áðan að það sem við þyrftum að horfa á væru heildarhagsmunir og framtíðarhagsmunir. Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings um framkvæmd ákvæða hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1982 um verndun deilistofna og víðförulla fiskstofna og stjórnunar veiða úr þeim sem búið er að dreifa á hv. Alþingi til kynningar, kemur fram að ríki teljist væntanlega eins og þar segir hafa hagsmuni af veiðum og þar með rétt til kvóta í samningum um veiðirétt, hafi það veiðireynslu í viðkomandi stofni eða á viðkomandi svæði. Í ljósi þessa eru það augljósir hagsmunir að við öðlumst sem mesta veiðireynslu á sem flestum sviðum. Og til styrkingar þessu áliti og því sem ég hef haldið fram um mikilvægi veiðireynslunnar vil ég leyfa mér, herra forseti, að vitna í 11. gr. úthafsveiðisamningsins þar sem fjallað er um nýja þátttakendur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þegar ríki ákvarða eðli og umtak réttinda nýrra aðila að veiðistjórnunarstofnun eða nýrra þátttakenda í veiðistjórnunarfyrirkomulagi á undirsvæði eða svæði í þátttöku í veiðum skulu þau m.a. taka tillit til:

a) ástands deilistofnanna og hinna víðförulu fiskstofna og hve mikill veiðisóknin er,

b) hagsmuna, veiðimynsturs og veiðiaðferða nýrra og eldri aðila eða þátttakenda hvers um sig,

c) framlags nýrra og eldri aðila eða þátttakenda hvers um sig til verndunar stofnanna og stjórnunar veiða úr þeim til söfnunar og dreifingar á nákvæmum gögnum og til vísindarannsókna á stofnunum,

d) þarfa strandbyggða sem byggja afkomu sína að mestu leyti á veiðum úr stofnunum,

e) þarfa strandríkja ef efnahagur þeirra er í mjög miklum mæli háður hagnýtingu lifandi auðlinda hafsins og

f) hagsmuna þróunarríkja frá undirsvæðum eða svæðinu ef stofnanir halda sig einnig í lögsögu þeirra.``

Auðvitað þarf að meta hagsmuni okkar, herra forseti, hverju sinni þegar mál sem þessi eru til umfjöllunar, þ.e. samningar um hagsmuni okkar við önnur ríki og hvernig við leggjum drög að eða undirbyggjum slíka samninga. En það er hafið yfir allan vafa að það sem skiptir mestu máli hér er veiðireynslan og aftur veiðireynslan.

Þegar farið er yfir þau ákvæði sem einkenna þetta frv. þá hlýtur maður að stoppa við ýmislegt af því sem ákveðið hefur verið að hafa þarna með. Eitt af því sem vekur undrun er að skip getur því aðeins fengið leyfi íslenskra yfirvalda til veiða á úthafinu að það sé að fullu í eigu Íslendinga, sbr. lög um fjárfestingu erlendra aðila.

Nú er ekki svo langt síðan, herra forseti, að við vorum að fjalla einmitt um breytingar á lögunum um fjárfestingu erlendra aðila og það voru gerðar breytingar á þeim lögum sem heimiluðu óbeina fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi, einungis óbeina fjárfestingu og hugmyndum þeirra sem ræddu um beina fjárfestingu var vísað á bug, ekki hvað síst með þeirri röksemd að það yrði að verja auðlindina fyrir útlendingum. Það var nokkuð fjallað í þingsölum um nauðsyn þess að verja auðlindina, um rökin fyrir því að útlendingar mættu ekki eiga beinan hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum þess vegna og það var líka tekist á um það hvort útlendingar mættu þá eiga beinan hlut í hefðbundinni fiskvinnslu, en það fékkst ekki heldur í gegn. Eftir að vera búin að taka þátt í umfjöllun um breytingar á lögunum um fjárfestingu erlendra aðila þar sem meginrökin fyrir óbreyttu ástandi voru þau að verja þyrfti auðlindina, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér, hvernig stendur þá á því að það sama þarf að gilda um þau íslensku skip sem skráð eru hér og veiða á úthafinu. Það er erfitt að átta sig á því hvaða rök liggja að baki og það væri satt að segja fróðlegt að fá á því betri skýringar hjá þeim sem gengu frá frv. og hafa gengið frá breytingartillögum við frv. nú þegar það kemur til 2. umr.

Skattar og skyldur af íslensku fyrirtæki mundu alltaf koma til Íslands enda þótt efnt yrði til samstarfs við útlendinga og þeir ættu hlut að þessari útgerð. Íslensk lög mundu gilda um útgerðina og íslenskir kjarasamninar yrðu virtir fyrir áhöfn. Herra forseti. Það er erfitt að átta sig á því hvað það er þegar við erum ekki að verja auðlindina sem rekur til þess að útlendingar mega ekki taka þátt í úthafsveiðum, mega ekki eiga hlut og við þá má ekki efna til samstarfs þó að um íslenskt fyrirtæki sé að ræða vegna þess, herra forseti, að miðað við lögin, þá er fyrirtækið ekki íslenskur lögaðili ef útlendingur á í því hlut. E.t.v. mun hæstv. ráðherrann eða þeir aðrir sem standa að meirihlutaáliti útskýra þetta nánar og væri óskandi að þeim tækist þá að setja það í það samhengi sem gerði okkur hinum kleift að skilja af hverju það stóra atriði sem gilti um það að verja auðlindina gildir nú um úthafið líka.

Það er annað atriði sem hlýtur að verða mjög áleitið þegar maður les frv. og það er hversu skipin sem hafa veiðileyfi í lögsögu Íslands hafa mikinn forgang. Forgangur þeirra er augljós, ekki hvað síst þegar horft er til þess að ef skip ætlar fái leyfi til veiða á úthafinu þá getur ráðherra ákveðið að það afsali sér hlutdeild innan lögsögu eða hluta af því sem ella fengist með tilliti til veiðireynslu ef það er ekki með veiðileyfi og kvóta innan lögsögu. Þeirri hlutdeild sem þannig verður til eða losnar innan lögsögu er úthlutað aftur til þeirra sem hafa veiðirétt innan lögsögu. Til að fá leyfi til úthafsveiða má sem sé allt eins búast við því að menn þurfi að borga klúbbnum sem hefur nú ráðstöfunarrétt á veiðiheimildunum innan lögsögu, þ.e. sá sem fékk veiðiheimildirnar ókeypis mun þá fá þessar viðbótarheimildir ókeypis og getur síðan selt þær fyrir peninga samdægurs.

[24:15]

Nú er það svo, herra forseti, að það stendur í frv. að ráðherra geti bundið úthlutun leyfa þessu skilyrði. Við getum velt því fyrir okkur hvort ráðherra muni nýta sér þetta ákvæði laganna, hvort hann muni skerða veiðiheimildir eða gera kröfu til þess að skip afsali sér veiðiheimildum innan lögsögu til að fá að fara á úthafið eða veiðiheimildir þeirra á úthafinu verði skertar til þess að þeir geti fengið að veiða þar. Ég hef, herra forseti, ákveðinn grun um að það sé nákvæmlega það sem ráðherrann ætlar sér að gera. Ég byggi það ekki á neinum hugdettum heldur byggi ég það á því sem stjórnarsinnar sumir hverjir hafa verið að tala hér í þinginu, þeir sem hafa skrifað upp á bæði þetta frv. og frv. um stjórn fiskveiða sem er á milli 2. og 3. umr. Menn hafa verið að tengja þessi frv. saman og rökin eru ekkert flókin. Menn eru ekki sáttir við það hvernig farið er með þeirra menn í smábátafrumvarpinu og eru að mér heyrist búnir að lofa þeim einhverju góssi úr úthafsveiðifrumvarpinu. Menn hafa líka talað um þetta úr ræðustóli. Þegar frv. um stjórn fiskveiða var til umræðu mátti heyra stjórnarsinna hugga kjósendur sína með því að hinn gleymdi floti væri aldeilis ekki gleymdur því það væru hinir og þessir pottar í gangi og svo væri það sem fengist út úr úthafsútgerðunum. Þess vegna, herra forseti, held ég að full ástæða sé til að ætla að ráðherrann muni beita þessu ákvæði við fyrstu möguleika vegna þess að ég trúi því vart að annars væru menn af því trúnaðartrausti sem fram hefur komið að tengja þessi frv. saman með þeim hætti sem gert er hér, bæði í þingsölum og hliðarsölum.

Herra forseti. Hér er verið að taka upp veiðileyfi. Hér er verið að láta menn greiða veiðileyfagjald fyrir að fá að fara á úthafið. En það gjald er ekki greitt til íslensku þjóðarinnar eða stjórnvalda fyrir það stúss sem þau hafa þurft að standa í til þess að þessi réttindi til veiða á úthafinu yrðu að veruleika. Nei, þetta gjald er eins og ég sagði áðan greitt til þeirra sem eru þegar handhafar veiðileyfa innan lögsögu. Það er ekki bara ég sem lít svo á að hér sé um veiðileyfagjald að ræða vegna þess að framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna sá ástæðu til þess eftir að ákveðið var að slíta starfi nefndarinnar sem var að undirbúa þetta frv. og keyra það með hraði inn í þingið, að skrifa bréf til sjútvrh. þar sem hann leyfir sér að vara við að þessi ákvæði, sem eru í 5. og 6. gr. frv. um veiðileyfagreiðslur í formi kvóta innan lögsögu, veki væntingar um að þær útgerðir sem stunda veiðar utan lögsögu séu færar um að greiða fyrir rétt til veiða með þeim hætti sem hér greinir. Það er ekki aðeins ég og við hér nokkur sem lítum svo á að hér sé verið að taka upp veiðileyfagjald heldur gerir Kristján Ragnarsson einnig svo eins og hér er skjalfest og ég las upp.

Mér finnst, herra forseti, nokkuð merkilegt að þegar ákveðið er að taka upp veiðileyfagjald í íslenskum sjávarútvegi skuli vera byrjað á þeim veiðum sem eru áhættusamastar og dýrastar og að gjaldið, sem er innheimt, skuli þurfa vera í formi veiðiheimilda innan lögsögu með beinum eða óbeinum hætti og þar veiti þeir því móttöku sem hafa aldrei þurft að borga öðrum en hver öðrum og sjálfum sér fyrir þær veiðiheimildir sem þeir hafa, aldrei þurft að borga eiganda auðlindarinnar fyrir neitt af því sem þeir hafa en þeir mega síðan versla fyrir peninga með þessar heimildir. Þetta er afar merkileg aðferð og hún hlýtur að þykja býsna nýstárleg. Mér finnst a.m.k. ótrúlegt að nokkrum öðrum en þeim sem standa fyrir þessum frumvarpsflutningi hefði getað dottið þetta til hugar vegna þess að hér er í rauninni um ákvæði að ræða sem enginn vill gangast við en er svona dæmigert málamiðlunarhnoð þeirra flokka sem standa að núverandi hæstv. ríkisstjórn. Moðsuða sem enginn vill gangast við en verður einhvern veginn eins og óvart að lögum og síðan er byrjað að vinna eftir þessu eins og án þess að nokkur hafi samt áhuga á því eða geti stutt það.

Herra forseti. Ég óttast að það verði nákvæmlega eins með þessi ákvæði og að áður en varir þurfi stjórnarþingmenn að fá að standa við það sem þeir hafa verið að segja til þess að afsaka stuðning sinn við annað frv. sem er í gangi í þinginu, að hér séu rétt einu sinni á ferðinni hin frægu hrossakaup og að ráðherrann muni beita þeirri heimild sem hann hefur í 5. og 6. gr. laganna til þess að skerða veiðiheimildir úthafsútgerðanna.

Það stendur hér, herra forseti, til þess að það sé alveg ljóst hvað er verið að tala um í 5. gr. frv. ,,Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni``, þá er verið að tala um deilistofna eins og síld og karfa ,,sem samfelld veiðireynsla er á, skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum. Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt lögum þessum hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda.``

Svo kemur rúsínan: ,,Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. mgr.`` --- en það er sú málsgrein sem ég var að lesa --- ,,því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum,`` --- allt að 15% ef brtt. meiri hlutans verður samþykkt ,,af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirrar málsgreinar. Þær útgerðir sem ekki geta uppfyllt skilyrði þessarar málsgreinar skulu sæta skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein sem þessu nemur.``

Í grg. með frv. segir að þetta sé gert til jafnræðis. Menn eru þarna að gæta einhvers jafnræðis.

,,Þeim aflaheimildum sem ekki er úthlutað samkvæmt ofansögðu skal ráðstafað með þeim hætti sem um ræðir í 5. mgr.`` Þá skulum við kíkja á hana. En hún er svona: ,,Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips. Einnig getur hann tekið mið af stærð skips, gerð þess eða búnaði og öðrum atriðum er máli skipta. Þá getur hann ráðstafað veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða sem að undangenginni auglýsingu hafa lýst sig með skuldbindandi hætti reiðubúnar til þess að afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum, reiknað í þorskígildum, á tegundum sem heildarafli er takmarkaður af.``

Þarna er gefin heimild til þess að efna til uppboðs á veiðiheimildum en fyrir þær má á þessu stigi málsins ekki greiða með peningum heldur er gjaldmiðillinn þorskígildi. Það er ekki fyrr en þessum hlekk viðskiptanna sleppir að menn mega fara að nota peninga í þessum viðskiptum og ég spyr enn og aftur: Hvernig halda menn að þetta komi til með að verða í framvæmd?

Svo heldur hér áfram. Næsta málsgrein, herra forseti: ,,Þeim aflaheimildum sem afsalað hefur verið á grundvelli 1. málsl. 3. mgr.`` --- þ.e. að skip afsala sér aflaheimildum innan lögsögunnar --- ,,eða á grundvelli 5. mgr.`` þ.e. eftir uppboðið, ,,skal úthlutað til annarra skipa í hlutfalli við samanlagða aflahlutdeild sem þau hafa, í þorskígildum talið, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða eða á grundvelli þessara laga.``

Þegar við erum með þessum hætti leidd inn í lögin um stjórn fiskveiða er verið að segja okkur að hér tekur við það ákvæði laganna um stjórn fiskveiða að nú megi menn versla fyrir peninga. Nú má fara að selja og braska. Öll þau skip sem veiðiheimildir hafa í lögsögunni fá úthlutunina miðað við þær heimildir sem þau hafa í þorskígildum. Þau fá öll hluta af þessu sem ráðherrann ætlar sér með þessu frv. og væntanlegum lögum að ná af úthafsútgerðunum. Hvað halda menn að gerist þegar farið verður að dreifa því sem úthafsútgerðirnar verða að afsala sér á allan flotann sem á kvóta innan lögsögu? Halda menn að það gerist allt í einu að öll þessi skip fari að veiða þær tegundir sem verða nú innifaldar í þessum þorskígildum sem þau fá? Nei, herra forseti. Ég er ansi hrædd um að það gerist sem ég sagði áðan að í gang fari mikil viðskipti og að þessu sinni með peningum. Þess vegna er í rauninni alveg ótrúlegt að menn skuli fara fram með ákvæði sem þetta og eins og ég sagði áðan á greinilega að nota. Það á að taka einn hóp og það er hópurinn sem er með dýrustu og áhættusömustu útgerðina og það á að láta þennan hóp borga hinum sem búa við mesta öryggið af því að þeir eru með hlutdeild í auðlindinni til ráðstöfunar. Það á að láta þá borga þessum hópi í viðbótarveiðiheimildum.

[24:30]

6. gr. frv. er að stórum hluta til samhljóða 5. gr. nema þar er fjallað um úthafsveiðar, þ.e. þær veiðar sem við getum ekki flokkað sem eins konar strandríkisveiðar okkar heldur hreinar úthafsveiðar eins og í Barentshafi, Smugunni eða á Flæmska hattinum. Það er að vísu ekki gert ráð fyrir jafnháu skerðingarhlutfalli. Það er 10% í frv. en meiri hlutinn gerir ráð fyrir að færa það niður í 7%. En það er mjög fróðlegt að skoða þessar prósentur og velta því þá fyrir sér hvernig meiri hlutinn, þeir sem að þessu standa, verðleggja þessar veiðiheimildir, verðleggja þann rétt sem einhvern tímann verður bundinn leyfi til að fara á úthafið. Mér finnst það dálítið skondið, herra forseti, og eiginlega út úr korti ef menn eru dálítið sinnaðir fyrir frjáls viðskipti og markaðskerfi að ákveða sig svona fyrir fram hvað þessi veiðileyfi eiga nú að kosta í stað þess, ef menn eru sinnaðir fyrir veiðileyfagjald eins og mér sýnist meiri hlutinn á Alþingi vera að verða með þessu frv., að bíða og sjá hvernig markaðurinn verðleggur þessar veiðiheimildir. Þetta er svolítið sérstök aðferð en kemur kannski ekki alveg á óvart ef maður horfir til þess hverjir það eru sem hafa yfirhöndina í þessari ríkisstjórn.

Ég hef heyrt þau rök hjá stjórnarsinnum sem þetta ákvæði styðja og þeir hafa stutt í mín eyru að það beri að styrkja þær útgerðir sem landa sínum afla til heimavinnslu. Þá væri náttúrlega fróðlegt að fá að vita hvaða útgerðir það eru eða hvernig menn ætla að fara að því að styrkja bara þær útgerðir sem landa sínum afla til heimavinnslu. Ekki trúi ég að menn séu hér skyndilega orðnir hlynntir því að allur fiskur fari um íslenska fiskmarkaði þannig að íslensk heimavinnsla geti haft aðgang að hráefninu. Þó kann það að vera. Þess hefur þó ekki verið getið í þessu samhengi að menn ætli sér að fara þá leið, enda þætti mér í ljósi annars það satt að segja dálítið ótrúlegt ef nákvæmlega þessir flokkar færu að hafa áhuga á því að búa til þau liðamót í íslenskan sjávarútveg sem þarf til að viðskipti geti átt sér stað. Það þætti mér mjög merkilegt en ég hlýt að velta því fyrir mér hvernig menn ætli að fara að þessu ef þetta á að styrkja útgerðir sem landa afla til heimavinnslu. Það er fróðlegt að vita hvernig þær útgerðir verða fundnar og hlýtur það að verða svolítið merkileg reglugerð sem verður gefin út af því tilefni, þar sem heimavinnsluútgerðirnar verða verðlaunaðar sérstaklega. Þá væri líka fróðlegt að vita hvað menn eiga við með heimavinnslu vegna þess að stundum þegar við erum að tala um þessi mál í þinginu þá vilja menn binda fiskinn af báti sem hefur tiltekna einkennisstafi við nákvæmlega þann kaupstað eða það kauptún sem hann er gerður út frá. Það er heimavinnsla. Þetta hefur ekki fengist nánar útskýrt, herra forseti, en hlýtur að skýrast hér í umræðunni því hér er um svo veigamikið atriði að ræða. En af því að það á að fara að umbuna heimavinnsluskipunum þá finnst mér ástæða til að geta þess og ég trúi ekki öðru en meiri hlutinn hafi líka áttað sig á því þegar á að fara að umbuna heimavinnsluskipum, að skipin sem eru á úthafinu landa líka afla heima og líka þau sem hafa engan kvóta í íslenskri lögsögu. Þau landa líka afla heima. Og þá hlýt ég að spyrja: Hvernig á þá að umbuna þeim heimavinnsluskipum? Ekki fá þau endurúthlutun eins og klúbburinn innan lögsögunnar fær. Þau eru bara skert, en þau landa líka heima.

Það eru 15--20 þús. tonn sem koma á ársgrundvelli af Flæmska hattinum sem iðnaðarrækja til vinnslu hér á Íslandi. Það er u.þ.b. fjórðungur af þeim rækjuafla sem landað er hér á landi. Það munar um minna. Svipað getur átt við um aðrar úthafsveiðar, en þarna er þetta verulegt magn. Og í ljósi heimavinnsluhugmyndarinnar held ég að það sé nauðsynlegt að komi fram hvernig þeir sem eru svona mikið fyrir handaflstilfæringarnar ætla sér nú að færa þessum útgerðum ofboðlitla viðurkenningu fyrir það að þær eru líka heimalöndunarútgerðir. Svo væri líka, ef menn ætla nú að gera bara eins og stendur í frv. og ekki að takmarka þetta við heimalöndunarútgerðirnar, fróðlegt að menn gerðu það upp við sig hvort að það sé þá þannig að allir þeir sem eiga kvóta í landhelginni landi hér til landvinnslu. Ef svo er ekki, hvernig á þá að taka á þeim þrjótum sem ekki gera það? Þetta er satt að segja dálítið snúið mál, herra forseti, en það hlýtur að vera búið að hugsa þetta til enda. Ég trúi ekki öðru.

En það er svolítið merkilegt að horfa á hvernig einmitt þessi heimalöndunarþróun hefur verið á undanförnum árum. Það er gjarnan talað um það í umræðunni um atvinnumál í þinginu að fiskvinnslan sé að færast út í sjó. En ef maður horfir á tölur yfir það sem hefur í rauninni verið að gerast þá er það ekki svo. Fyrir nokkrum árum sigldu togarar með býsna stóran hluta af þeim þorskafla sem veiddist á Íslandsmiðum sem ísfisk til annarra landa. Á árinu 1991 var hér um 30 þús. tonn að ræða rúmlega og á árinu 1992 um 35 þús. tonn að ræða. En síðan þá hafa þessar ísfisksölur minnkað mikið. Þá spyrja menn væntanlega: Hefur þetta þá ekki bara farið í gámum? Það er ekki svo. Árið 1991 voru tæplega 67 þús. tonn af þorski flutt út með gámum en í fyrra voru það einungis tæplega 30 þús. tonn þannig að þarna hefur orðið um meira en helmings minnkun að ræða. Ef við skoðum sjófrystan bolfiskafla þá hefur sú tala verið ótrúlega stöðug á undanförnum árum. Útflutningur á fiski með flugi --- ég vænti þess að það sé ekki nokkur maður hér sem talar um það sem útflutning á óunnu hráefni vegna þess að þar er jú verið að nýta samgöngumöguleika þá sem fljótlegastir eru til að koma fiski sem nýjustum og ferskustum á dýrustu markaði --- hefur hins vegar aukist gífurlega á þessu sama tímabili, hefur meira en tvöfaldast frá því árið 1991 þó ekki sé um umtalsvert magn að ræða en er þó orðið svipað á síðasta ári og það magn sem menn sigldu með eða fór út sem ísfiskur. Ef við horfum til rækjuaflans sem hefur aukist mjög mikið á undanförnum fimm árum eða úr því að vera tæp 40 þús. tonn og í það að vera rétt í tæp 76 þús. tonn, þá er það svo að langstærsti hluti þessarar rækju er unninn í rækjuverksmiðjum vítt um landið og sá hluti rækjunnar sem er frystur um borð kemur ýmist að landi sem iðnaðarrækja og fer til frekari vinnslu eða þá að verið er að fullvinna enn þá dýrari varning um borð, varning sem fer á sérhæfða markaði sem vilja stærstu rækjuna soðna strax. Og þá er frá henni gengið um borð í skipunum. Öðruvísi er ekki hægt að gera það þannig að það uppfylli kröfur hinna vandlátu markaða. Hluti af þessari iðnaðarrækju sem kemur sjófryst til vinnslu í verksmiðjunum er eins og ég gat um áðan þessi 15--20 þús. tonn af rækju sem koma af Flæmingjagrunni. Þetta var um heimavinnsluna, herra forseti, en það er ástæða til þess að fara örlítið yfir þetta heimavinnsludæmi af því að það sýnist eða réttara sagt heyrist, miðað við það hvernig talað er eiga að fara að spila hér stóra rullu varðandi meðferð skipa.

Mér finnst hins vegar ástæða til þess, herra forseti, vegna þess að ég rakst það í dagblaðinu Tímanum í dag, að vitna örlítið í stöðu botnfiskvinnslunnar eins og hún kemur Arnari Sigurmundssyni sem er formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, fyrir sjónir um þessar mundir. Niðurstaða hans er sú að botnfiskvinnslan hérna heima sé mjög döpur. Og hann segir jafnframt, herra forseti, sem olli mér nú nokkrum vonbrigðum, að aukinn þorskkvóti hafi óveruleg áhrif á rekstur. Og ef ég mætti vitna í greinina, herra forseti, sem er hér birt í framhaldi af því að Samtök fiskvinnslustöðva framkvæmdu stöðumat á afkomu hefðbundinnar botnfiskvinnslu, frystingar og saltfiskvinnslu og fengu það út að rekstrarhallinn næmi um 10%, þá kemur þar fram orðrétt, með leyfi forseta:

,,Í matinu kemur einnig fram að fyrirhuguð kvótaaukning á þorski á komandi fiskveiðiári hefur óveruleg áhrif á afkomu vinnslunnar vegna þess að á sama tíma er gert ráð fyrir samdrætti í veiðum á ýsu, ufsa og grálúðu.``

[24:45]

Síðan vildi ég aðeins fá að vitna aftur hér í og það er, með leyfi forseta: ,,En í það heila tekið er hins vegar ekki búist við að ákvörðun um leyfilegan heildarkvóta á komandi fiskveiðiári muni hafa teljandi áhrif til hins betra fyrir afkomu hefðbundinnar landvinnslu.`` Ástæður þessa eru síðan raktar og þær sýnast helst vera þær að afurðaverð hefur lækkað um rúm 4% þannig að þó svo að hráefnisverð hafi eitthvað lækkað og muni hugsanlega eitthvað lækka við þá aukningu sem væntanleg er í þorskinum og að vextir hafi lækkað lítillega og verðbólgan sé lítil vegi það ekki upp þessa lækkun á afurðaverðinu sem geri útkomuna svona dapurlega.

Þetta hlýtur að leiða huga okkar að því hvað það er þá sem gengur. Ég held að það sé alveg ljóst, herra forseti, að við verðum að horfa til þess af því að hér er það um það að ræða að við erum að nýta okkar mikilvægustu auðlind, að við verðum að horfa til þess hvernig hún sé best nýtt þannig að hún skili okkur arði og hagnaði. Hvaða fiskvinnsla er það sem getur skilað betri árangri en hér sýnir þessa mjög svo döpru niðurstöðu? Eru það e.t.v. einstök fiskvinnsluhús sem geta skilað betri niðurstöðu eða einhver sérstök rekstrarform? Það þyrfti mjög nauðsynlega að fara betur ofan í rekstrarafkomu fiskvinnslunnar á Íslandi vegna þess að þó svo að meðaltalið sé stundum ágætt til þess að nota í orðræðu og til þess að glöggva sig á stóru dráttunum þá er það nú samt svo að meðaltal er aldrei nema meðaltal. Þessi tala, 10% halli á botnfiskvinnslu, segir okkur líka að einhvers staðar eru fyrirtæki sem eru að gera það betra en einhvers staðar eru líka fyrirtæki sem eru enn verr stödd. Ef þessi fyrirtæki sjá ekki möguleika til þess að bæta stöðu sína þrátt fyrir aukinn þorskkvóta held ég að menn hljóti, eins og ég sagði áðan, að verða að skoða hvaða möguleikar eru hér til þess þá að fiskvinnslan geti staðið sig betur, geti brugðist betur við þeirri samkeppni sem hún býr óhjákvæmilega við um vinnuafl vegna þess að atvinnugrein sem rekin er með 10% halla keppir varla um vinnuafl, a.m.k. á grundvelli launagreiðslna eða hlunninda sem byggjast á góðri afkomu og líka hvað varðar viðhorf vegna þess að þegar menn eru að velja sér vinnu þá þarf vinnan helst að gefa tvennt. Hún þarf að gefa góð laun og hún þarf að gefa ánægju og virðingu. Hún þarf a.m.k. að gefa annað en hún verður ekki girnileg ef hún gefur hvorugt. Ég óttast, herra forseti, að það sé kannski nákvæmlega það sem þarna gæti verið við að eiga og sé reyndar búið að vera viðvarandi vandræði um nokkurra ára hríð.

En aftur að þeim ákvæðum 5. og 6. gr. sem gera ráð fyrir greiðslu á veiðileyfi, greiðslu í þorskígildum. Fróðlegt væri að fá frekari skýringar á því fyrir hvað úthafsútgerðirnar eru að borga innanlögsöguútgerðunum veiðileyfagjald. Það hefur ekki komið fram fyrir hvað sú greiðsla fer fram. Það er líka svo að í þessu tilfelli er nákvæmlega verið að láta sjómennina borga vegna þess að þarna er verið að taka af hlut. Það er ekki þannig að það sé bara útgerðin sem borgar því það er verið að taka veiðiheimildir. Þetta er ekki veiðileyfagjald í þeim skilningi að útgerðin greiði fyrir að fá aðgang annaðhvort að auðlind eða fá að nýta sér einhver nýfengin réttindi heldur er það svo að möguleikar viðkomandi útgerðar eru skertir og þar með er verið að rýra afkomumöguleika viðkomandi sjómanna. Mér finnst dálítið merkilegt, herra forseti, að sumir þeirra manna, sem hafa gengið mjög hart fram í því að mótmæla framsali veiðiheimilda innan lögsögunnar þar sem þær eru heimilar og menn versla með þær sín í milli fyrir peninga, hafa verið tilbúnir til þess að ganga þá leið sem hér er lagt til, a.m.k. ekki mótmælt því, og sumir þessara manna eru í forsvari fyrir sjómenn. Þetta finnst mér mjög merkilegt vegna þess, eins og ég segi, er hér beinlínis verið að rýra hlut sjómannanna. Ég óttast, herra forseti, að það geri veiðar á fjarlægum miðum ekki eins girnilegar og þær þyrftu að vera því að ég er ekki endilega viss um að það mat sem frumvarpshöfundar leggja á verðmæti þessara réttinda, sem kunna að felast í því að fá að fara á úthafið með leyfi hæstv. ráðherra sé endilega rétt.

Ég gat þess þegar ég hóf mál mitt að við værum að tala um þær úthafsveiðar sem hófust fyrir þremur árum í þessari lotu. En það er vissulega svo að Íslendingar hafa áður verið á úthafinu. Það má kannski segja að útfærsla landhelginnar hafi með sínum hætti gert það að verkum að menn gátu haldið áfram að vinna innan lögsögu og voru dálítið bundnir af henni. En á árum áður stunduðu íslenskar útgerðir útgerð á fjarlægum miðum engu síður en nú. Það var þannig, herra forseti, að eftir heimsstyrjöldina síðari voru ekki bara keyptir togarar þó svo að menn hafi nú mest talað um þátt þeirra í sjávarútvegssögunni heldur voru líka keyptir til landsins mikill fjöldi báta enda hygg ég að flestir hafi verið sammála um það að sá floti sem við áttum í stríðslok var ekki til stórræðanna. Á meðan að bátarnir helguðu sér miðin næst landi stunduðu íslenskir togarar m.a. veiðar við Grænland. Þetta lærðum við öll með því að hlusta á ,,Óskalög sjómanna`` þegar við vorum að vaxa úr grasi þar sem vitnað var til veiðanna við Grænland þannig að sum okkar hafa kannski aldrei skilið af hverju menn hafa talað um úthafsveiðar sem eitthvert nýtt fyrirbæri en íslenskir togarar fóru líka norður til Bjarnareyjar og í Hvíta hafið og íslensk skip veiddu síld við Svalbarða og í Norðursjónum. Það er ekkert óskaplega langt síðan íslensk skip tóku þátt í síldveiðum í Norðursjó, það var fyrir rúmum 20 árum. Eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gat um áðan þá öfluðu togararnir vel á karfaveiðum við Grænland.

Eins og ég gat um áðan hefur togurunum verið haldið frá bátamiðunum og vertíðarsvæðin hafa verið vernduð fyrir bátaflotann, það var þannig þá og er þannig enn. En á þeim tíma, herra forseti, vildu menn líka hafa bein afskipti engu síður en nú og þeim nægði ekki að gera það með því að hlutast til um hvar bátar eða togarar tóku afla sinn heldur vildu menn gjarnan flytja verðmæti með handafli á milli útgerðaforma. Það er nákvæmlega það sem ég var að tala um áðan að væri verið að gera með 5. og 6. gr. frv. Til þess að bæta hag tiltekins skipaflokks og þegar ekki nægði að bægja togurunum frá ákveðnum miðum var búið til misrétti í gjaldeyrismálum. Það var búið til svokallað bátagengi og sum árin, þetta var á sjötta áratugnum, herra forseti, var það þannig að fiskur sem veiddur var á togurum var á allt að 30% lægra verði en sá fiskur sem veiddur var á bátum. Þetta er það sem kallað var bátagengi. Svona var reynt að ívilna tilteknum útgerðarformum með því að taka af öðrum með svokölluðu handafli, reynt að hafa áhrif á það hve afkoma einstakra útgerðarforma var. Þessi hagstjórn hefur á seinni tímum ekki þótt til fyrirmyndar. En samt er hún dregin upp í þessu dulargervi núna, herra forseti, sem birtist í 5. og 6. gr. þegar úthafsveiðiútgerðirnar eiga að fara að borga innanlögsöguútgerðunum fyrir að fá að fara á úthafið. Það er hið nýja bátagengi sem er skyndilega komið í þessum grímubúningi. Það er, herra forseti, óbeint verið að taka upp bátagengi og hverfa aftur til þess tíma þegar stýrt var með handafli og menn höfðu trú á þess háttar stjórnun. Það er verið að hverfa að þessari gamaldags stjórnun sem má svo sem segja að sé eðlileg þegar Framsókn og framsóknararmur Sjálfstfl. ná saman með þeim hætti sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Þá hlýt ég að spyrja hvar þeir eru vegna þess að það eru til einhver frjálslynd öfl í báðum þessum flokkum, hvar eru þeir sem þá telja handaflsleiðina ekki þá vænlegustu heldur það að skapa hin almennu skilyrði? Við því fæ ég væntanlega fljótlega einhver svör, herra forseti, og mun þá koma hér aftur í ræðustól til að meta þau og e.t.v. að spyrja fleiri spurninga ef þarf.