Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:13:15 (7273)

1996-06-05 10:13:15# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. 11. þm. Reykn. um frv. um fjárreiður sem ekki stefnir í að verði afgreitt, er rétt að taka fram að það er rétt til getið hjá honum að menn vilja ræða nú í sumar og fyrir haustið í samhengi þessi tvö frv., annars vegar um fjárreiður ríkisins og hins vegar um þjónustusamninga og hagræðingu. Það er ekkert sem rekur á sérstaklega, að við afgreiðum fyrra frv. og reyndar hvort tveggja á þessu þingi. Auðvitað er það engin lítilsvirðing við þingið þó að það frv. bíði til hausts. Eins og hér kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv., þá finna menn að því ef frv. sem hafa verið hér til meðferðar í 2--3 ár skuli eiga að ganga fram, en í annan stað er fundið að því að mikilvægt frv. sem hefur verið til umræðu aðeins í vor skuli ekki ganga fram og það sé lítilsvirðing. Hvorugt er lítilsvirðing í málinu. Ég tel skynsamlegt að ræða þessi tvö mál í samhengi. Það er skammur tími til þingloka. Hvort sem okkur tekst að ljúka þinginu í dag eða síðar, þá er það ljóst að það er skammur tími til þingloka.