Afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 10:16:48 (7275)

1996-06-05 10:16:48# 120. lþ. 161.93 fundur 345#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé og framgangur þingmannamála# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[10:16]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Þau tvö frv. sem hér hefur verið rætt um, frv. um þjónustusamninga og frv. um fjárreiður ríkisins, eiga sér gerólíka forsögu. Það má rekja frv. um fjárreiður ríkisins allt til ársins 1986 þegar þáv. fjárveitinganefnd lagði fram frv. sem að meginefni til var það sama og einn kaflinn í frv. um fjárreiður ríkisins. Síðar var frv. lagt ítrekað fram m.a. af fjárveitinganefnd á síðasta kjörtímabili sem hv. þm. Sturla Böðvarsson sat í. Málið var síðan unnið af ríkisreikningsnefnd og náðist um það fullt samkomulag og fullt samkomulag í þinginu þannig að þarna var um merkilega lagasetningu að ræða sem hafði fengið mikinn og vandaðan undirbúning.

Hitt frv., frv. um þjónustusamninga, átti sér mjög skamman undirbúning og hafði lítið verið kynnt, enda stefndi það þvert gegn efni frv. um fjárreiður ríkisins eins og kom fram í hv. efh.- og viðskn. Á síðustu stigum málsins gerðist það hins vegar að aðilar sem höfðu fullvissað okkur um að það yrðu engin vandkvæði á því að frv. tæki gildi á tilsettum gildistíma, komu fram og sögðust ekki treysta sér til þess að framkvæma lögin eins og til stóð þó svo þeir hefðu upplýst okkur um annað allt frá því að umræða hófst um málið á Alþingi og þangað til stefndi í lokaafgreiðslu. Það er því rétt sem hæstv. forsrh. segir að út af fyrir sig bíður málið ekki skaða af því þó að frestun verði á afgreiðslu þess til haustsins. En þá vildi ég óska eftir því að fá upplýsingar frá hæstv. forsrh. um það hvort þá megi ekki treysta því að undirbúningurinn að gildistöku frv. haldi óslitið áfram þannig að frv. sem yrði flutt í haust gæti tekið gildi á sama tíma og tillaga efh.- og viðskn. gerði ráð fyrir að þetta frv. tæki gildi á, eftir síðustu breytingar. Ég vil fá að vita hvort ekki megi örugglega treysta því að það verði haldið áfram með undirbúning málsins af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.